Verðurðu aldrei saddur?

Ólafur Örn og Dröfn Ösp skoða matarmenninguna í Los Angeles.
Ólafur Örn og Dröfn Ösp skoða matarmenninguna í Los Angeles. Ljósmynd/Aðsend

Umsjónarmaðurinn Ólafur Örn Ólafsson fer víða að vanda og heimsækir matgæðinga í Dubai, Chicago, Zurich og Falkenberg. Í fyrsta þættinum verður farið til Los Angeles og Dröfn Ösp Snorradóttir eða DD Unit, pistlahöfundur verður sótt heim.

„Ég hafði aldrei komið þangað áður, en alltaf langað. Á undanförnum árum hefur verið mikið skrifað um matarsenuna í Los Angeles og að það sé þar sem áhugaverðust og skemmtilegustu hlutirnir í matarsenu Bandaríkjanna að gerast um þessar mundir. Svo ég var spenntur, en líka pínu stressaður því New York hefur lengi verið í miklu uppáhaldi hjá mér og íbúar hennar hreinlega keppast við að tala LA niður svo ég hélt að manni þætti bara annað hvort New York eða Los Angeles skemmtilegar. En það var nú öðru nær. Mér finnst LA frábær og allt sem ég fékk að borða þar var til mjög áhugavert,“ segir Ólafur Örn.

Dröfn Ösp, viðmælandinn í þættinum í kvöld, er búin að búa í borginni í 10 ár og þó hún sé ekki í veitingabransanum, eins og aðrir viðmælendur þáttarins, þá lifir hún fyrir að borða. „Hún er sennilega mesta „foodie“ sem ég þekki, og þekki ég nokkuð marga. Hún vinnur við kvikmynda- og auglýsingagerð í borg englanna en frítíma sínum verja hún og Johnny, maðurinn hennar, í að finna besta matinn í þessari risaborg. Þau ferðast um hana þvera og endilanga til að prófa veitingastaði eða tacotrukka.“

Hvað er markvert að sjá í borginni?

„Þegar maður kemur til LA í fysta sinn eru nokkrir staðir sem eru mjög frægir og í raun skylda að skoða. Þarna er auðvitað hið heimsfræga Hollywood-skilti sem þarf að taka selfie við. Hollywood Walk Of Fame, gatan með stjörnunum er líka gaman að skoða, mjög lífleg og skemmtileg gata þó hún sé vissulega mikil túristagildra. Mér fannst líka mjög gaman að koma á Venice Beach þar sem hippandinn svífur enn yfir. Hverfið Venice er líka skemmtilegt og tilvalið að leigja sér rafmagnshlaupahjól til að komast um. Þau eru þar á hverju horni og mjög auðveldur og ódýr ferðamáti. Ekki langt frá Venice er Santa Monica og það er mál manna að sólarlagið sé hvergi fallegra en á Santa Monica Pier.“

Hvar á maður að borða?

„Los Angeles er auðvitað full af frábærum mat og fræg fyrir Taco trukka og framúrskarandi mexíkanskan mat, enda helmingur allra íbúa LA með mexíkanskar rætur. Svo EKKI láta það framhjá ykkur fara að smakka besta Taco til er. Þarna smakkaði ég besta djúpsteikta kjúkling sem ég hef fengið og sennilega kem til með að fá á Howling Rays sem er lítill staður í verslunarkjarna í Chinatown. Ekki fara þangað nema vera með nesti til að borða í röðinni því hún er löng og biðin er venjulega um tveir tímar, en algerlega þess virði. Í Culver city er staður sem heitir Destroyer og er opinn fyrri part dags og býður upp á framúrskarandi morgun- og hádegisverð. Hinum megin við götuna er staður í eigu sama fólks, Vespertine. Þar er bara boðið upp á langan smakkseðli og erfitt að fá borð nema panta með löngum fyrirvara, enda hefur hann verið valinn besta veitingahús í LA. En boriðaðu taco, mikið taco!“

Verður þú aldrei saddur?

„Jú ég verð oft saddur, sennilega oftar en flestir sem ég þekki og ég elska það. Mitt uppáhaldsástand er þegar ég er búinn að borða aðeins of mikið, drekka aðeins of mikið en á samt eftir að fá desert.“

Þátturinn Kokkaflakk verður sem fyrr segir sýndur í opinni dagskrá í Sjónvarpi Símans í kvöld.

mbl.is