Þeir Ingvar, annar til vinstri, og Hafsteinn, fyrstur til hægri, ...
Þeir Ingvar, annar til vinstri, og Hafsteinn, fyrstur til hægri, áttust við um fyrsta sætið í fyrra og endaði Ingvar í fyrsta sæti. mbl.is/​Hari

Fyrsta fjallahjólamót ársins

Á föstudaginn fer fram fyrsta fjallahjólamót ársins og líkt og undanfarin ár er það Morgunblaðshringurinn sem markar upphaf mótaársins.

Hjólað er á svæðinu við Rauðavatn, Hádegishæð og Paradísardal þar sem er ágæt blanda af stuttum en bröttum brekkum og beinni köflum. Keppnin hefst og lýkur við skrifstofur Morgunblaðsins og mbl.is og er boðið upp á súpu að keppni lokinni.

Nokkrar brattar brekkur voru í hringnum í fyrra.
Nokkrar brattar brekkur voru í hringnum í fyrra. Ljósmynd/Hari

Auðvelt er fyrir áhorfendur að fylgjast með keppninni, en keppnisfyrirkomulagið miðast við að farnir séu 2-5 hringir eftir keppnisflokki og miðað við braut síðustu ára er stutt fyrir áhorfendur að fara á milli staða þar sem fylgjast má með helstu klifrunum og svo lokakaflanum við prentsmiðjuna.

Hjólreiðafélag Reykjavíkur hefur veg og vanda af keppninni í ár líkt og undanfarin ár og er Arnór Barkarson keppnisstjóri. Í spjalli við mbl.is segir hann fjallahjólakeppnirnar alltaf eiga sinn trausta fylgjendahóp auk þess sem keppendum í yngstu aldursflokkum hafi fjölgað á síðustu árum. Þannig séu námskeið sem hjólreiðafélögin haldi fyrir börn og unglinga árið um kring að skila nokkrum fjölda inn í starfið á hverju sumri.

Keppnin fer fram í nágrenni Rauðavatns og Hádegishæðar.
Keppnin fer fram í nágrenni Rauðavatns og Hádegishæðar. Ljósmynd/Hari

Arnór segir að vinsældir fjallahjólakeppna hjá yngri kynslóðinni hafi ekki síður aukist eftir að reglur Alþjóðahjólreiðasambandsins voru innleiddar, en þar er einstaklingum undir 18 ára aldri bannað að taka þátt í keppnum sem eru ekki á sérstökum brautum eða þegar lokað er fyrir aðra umferð eins og bíla. Það þýðir að þau geta ekki keppt í mörgum hefðbundnum götuhjólakeppnum. „Því eru fjallahjólamótin mjög góð og henta þessum aldurshópi mun betur,“ segir hann, en þau fara alltaf fram í sérstökum brautum þar sem engin hætta er á bílaumferð.

Meðal líklegra keppenda í ár eru þeir Ingvar Ómarsson og Hafsteinn Geirsson sem hafa undanfarin ár háð harða baráttu um toppsætin. Þá segir Arnór að Bjarki Bjarnason komi sterkur undan vetri og gaman verði að sjá hvort hann nái að velgja Ingvari, sem er margfaldur Íslandsmeistari, undir uggum. „Svo er Kristinn Jónsson ákveðinn fulltrúi ungu kynslóðarinnar,“ segir Arnór og bendir á að hann hafi alveg gert tilkall til að komast fram úr Hafsteini, meðal annars eftir að hafa slegið hann út í RIG-brekkusprettum á Skólavörðustíg fyrr á þessu ári. „Hann hefur verið að stríða honum smá.“

Bæði reynir á úthald og spretthörku í keppninni.
Bæði reynir á úthald og spretthörku í keppninni. Ljósmynd/Hari

Meðal kvenna sem líklegar eru til að vera sterkar í ár eru þær María Ögn Guðmundsdóttir, núverandi Íslandsmeistari, og Halla Jónsdóttir, sem vann bæði Morgunblaðshringinn og Krónuhringinn í fyrra. Hafa þær báðar verið sýnilegar í toppbaráttu undanfarin ár.

Brautin í ár verður hönnuð af þeim Gunnari Erni Svavarssyni og Bjarka Bjarnasyni og verður keppt í öllum aldursflokkum. Þá verður kynntur nýr mastersflokkur sem er eitthvað sem HRÍ er að taka inn í keppnisfyrirkomulagið í ár og gildir flokkurinn til bikarstiga.

Skráning í keppnina fer fram hér.