Í kapphlaupi við tímann

Vilborg á toppi Glissu á Ströndum.
Vilborg á toppi Glissu á Ströndum. Ljósmynd/Aðsend

Vilborg er upprunalega úr Mosfellsbæ en bjó í Þýskalandi í tæp fjögur ár eftir útskrift úr lyfjafræði frá Háskóla Íslands. „Ég flutti heim aftur árið 2014 og þá á Selfoss þar sem mér bauðst starf sem lyfsali í Lyfju á Selfossi. Hér hef ég ílengst enda er ég á góðum vinnustað sem hefur á að skipa frábæru teymi. Apótekið okkar er stórt og býður ýmiss konar þjónustu s.s. lyfjaskömmtun, blóðþrýstings- og blóðsykurmælingar auk almennrar apóteksþjónustu. Nýlega hófum við að bjóða heimsendingar fyrir elli- og örorkulífeyrisþega en margir í þeim hópi eiga ekki auðveldlega heimangengt. Hefur sú viðbót mælst mjög vel fyrir. Við eigum stóran hóp fastra viðskiptavina og fyrir það erum við þakklát enda besta viðurkenningin fólgin í því þegar fólk vill koma til okkar aftur og aftur.“

Í ævintýraleiðangri á kayak í Kananda.
Í ævintýraleiðangri á kayak í Kananda. Ljósmynd/Aðsend

Að grunnskóla loknum fór Vilborg sem skiptinemi í eitt ár til frönskumælandi Kanada þar sem hún kynntist útivist sem sporti í fyrsta sinn. „Ég bjó hjá fjölskyldu sem var á fullu í allskyns útivist og var dregin um allar jarðir bæði fótgangandi, á hjóli, gönguskíðum og kayak. Mest ferðuðumst við í Kanada en fórum líka tvisvar í Adirondack fjöllin í New York fylki. Þetta var heilmikil upplifun.“ Eftir dvölina ytra hefur Vilborg aðallega ferðast innanlands og nýtur þess að ganga í íslenskri náttúru. „Mín útivist felur aðallega í sér styttri gönguferðir en að minnsta kosti einu sinni á ári fer ég í lengri ferð. Við höfum líka síðustu ár farið nokkrum sinnum í jeppaferðir hjónin og mér finnst það ekki síður skemmtilegt enda mikið að sjá á fallega landinu okkar.“

Snjallræðið sem olli vandræðum 

Vilborg er í gönguhópi sem kallar sig því skemmtilega nafni „Í svörtum buxum“ en hann samanstendur af fólki úr öllum áttum sem hittist árlega og fer í langa helgargöngu. „Þar verða iðulega uppákomur, sem við kjósum að kalla ævintýri, sem ekki var alveg hugsað fyrir. Það getur verið misskemmtilegt að leysa verkefnin þegar þau koma upp en öll eiga þau sameiginlegt að verða alveg drepfyndin í minningunni.“ Vilborg rifjar upp að ein eftirminnilegasta ferðin sem farin var með hópnum hafi verið sumarið 2017 en þá var förinni heitið í kringum Langasjó. „Þar er mögnuð náttúrufegurð en að sama skapi afskekkt og símasamband til að mynda ekki til staðar.

Á Pokahrygg með fjölskyldunni.
Á Pokahrygg með fjölskyldunni. Ljósmynd/Aðsend

Á einhverjum undirbúningsfundinum kom einhver fram með það „snjallræði“ að taka með skútu og nota hana sem trússfarartæki. Háværari hluta hópsins fannst hugmyndin frábær og úr varð að skútan fór með. Ferðin að fyrsta skála tók um 11 klukkustundir frá Selfossi enda vegurinn ekki beinlínis hannaður fyrir stórflutninga. Þegar við vorum rétt komin á leiðarenda sprakk á kerrunni sem dró skútuna. Þá þurfti að fara og leita uppi símasamband til að hægt væri að hringja í einhvern til að koma með nýtt dekk. Einhvern veginn tókst það. Sjósetningin var svo annað ævintýri og endaði á að hópurinn bar bátinn til sjós. Þegar þessu var lokið gat hin eiginlega ganga loks hafist og allir önduðu léttar.“ Á öðrum degi naut trússhópurinn góða veðursins á skútunni, rölti um á völdum stöðum og skellti upp tjaldbúðum á þeim stað í vikinni sem ákveðið hafði verið að hittast. „Þar var grillaðstaða útbúin og gert klárt fyrir kvöldskemmtun. Síðan leið tíminn og aldrei kom gönguhluti hópsins. Trússhópurinn var farinn að ókyrrast verulega enda alveg á hreinu, var talið, hvar ætti að hittast. Á sama tíma sat gönguhópurinn og beið tveimur víkum frá, sannfærður um að bátnum hefði hvolft og allir farist. Gerður var út gönguflokkur til að leita trússhópsins og ákveðið að á miðnætti skyldi annar hópur halda til byggða og ná í hjálp ef trússhópurinn væri ekki fundinn. Þegar nálgast fór að miðnætti gekk leitarflokkurinn fram á trússhópinn og þá tók við kapphlaup við tímann, að pakka saman öllum tjöldum, dóti og mat, koma um borð í skútuna og ná svo að sigla í hina víkina fyrir miðnætti áður en björgunarhópurinn héldi af stað. Það stóð á endum að á slaginu miðnætti birtist báturinn gönguhópnum í allri sinni dýrð, rétt eins og hann hefði beðið til að hafa stundina áhrifaríkari. Það er óhætt að segja að nátthúfan hafi smakkast vel þetta kvöldið. Sem betur fer gekk restin á ferðinni stórslysalaust fyrir sig og einungis þurfti að dæla nokkrum sinnum sjó úr bátnum þegar hann var farinn að þyngjast ískyggilega. Eftir stóðu óteljandi fyndin augnablik sem við hlæjum ennþá reglulega að.“

Slakað á í Krossneslaug.
Slakað á í Krossneslaug. Ljósmynd/Aðsend

Vestfirðirnir næst á dagskrá

Síðasta sumar fór Vilborg í gönguferð um Strandirnar með Ferðafélagi Íslands en þangað var hún að koma í fyrsta sinn. „Við gengum á Glissu og skoðuðum rústir síldarvinnslunnar í Ingólfsfirði, þá var Gjögur heimsótt og náttúrulaugin þar prófuð. Síðast en ekki síst var gengið á Reykjaneshyrnu þar sem lagt var af stað í þoku og drunga. Augnablikið sem gengið var upp úr skýjunum þar sem sást óhindrað yfir allt var alveg ógleymanlegt, eins og reyndar þessi ferð öll. Ég er núna að skipuleggja einhverja sniðuga ferð í sumar en er nokkuð ákveðin í að Vestfirðir verða fyrir valinu enda er ég mjög forvitin að kynnast þessari perlu Íslands miklu betur. Fyrstu kynni lofuðu allavega mjög góðu,“ segir Vilborg að lokum.

mbl.is