„Ekki bara lífsstíll, þetta er lífið“

Frans Friðriksson og Halla Jónsdóttir eru dugleg að stunda hjólreiðar …
Frans Friðriksson og Halla Jónsdóttir eru dugleg að stunda hjólreiðar og aðra útivist. Ljósmynd/Árni Sæberg

Í dag skipuleggja þau sumarfrí og búsetu í kringum hjólreiðar og verja mestöllum frítíma sínum í að hjóla eða aðra útivist. Þá er Halla byrjuð að vinna hjá hjólafyrirtæki þannig að með sanni má segja að hjólreiðar hafi yfirtekið líf þeirra.

Áhuginn vaknaði fyrst fyrir alvöru hjá Höllu fyrir fimm árum, en fram að því hafði hún aðeins átt fermingarhjólið og lítið hjólað af einhverri alvöru. Það breyttist hins vegar þegar hún fór og elti góða vinkonu sína, Heiðu Jónsdóttur, inn í fjallahjólaheiminn. „Heiða var inni í þessu og mér fannst þetta líta vel út og elti hana og keypti mér hardtail-hjól. Ári síðar fann ég að það var ekki nóg og skipti því fyrir fulldempað hjól og síðan þá hefur þetta þróast áfram,“ segir Halla og bætir við að eftir því sem hún hafi þróast sem hjólari hafi sér þótt vanta meiri dempun og samhliða því hafi verið hægt að fara tæknilegri leiðir.

Spurðu hvort hann kæmi í cyclothonið

Áhugi Frans á hjólreiðum byrjaði fyrir þremur árum þegar vinnufélagar hans pikkuðu í hann og spurðu hvort hann vildi ekki taka þátt í WOW cyclothon það árið. Keypti hann í framhaldinu cyclocross-hjól og æfði sig á slíku götuhjóli fram að keppni. Samhliða því kynntist hann götuhjólamenningunni hér á landi auk þess að kynnast nokkrum hjólurum sem voru í fjallahjólreiðum. „Eftir WOW-ið fer ég að spá í og sjá hvað aðrir eru að gera. Ég hafði áhuga á að prófa að fara af malbiki og hjóla slóða og krefjandi leiðir, jafnvel taka drop og stökk. Fór svo og keypti beint fulldempað hjól með 140 mm fjöðrun,“ segir hann, en hjólið fékk hann daginn áður en hann tók þátt í sinni fyrstu enduro-fjallahjólakeppni.

Eftir þetta sumar var áhuginn kominn að fullu hjá Frans. „Ég fann að ég var kominn með hjólabakteríuna og mjög fljótlega finn ég að hjólið sem ég hafði keypt í smá fljótfærni var ekki alveg hjólið fyrir mig því ég þurfti meiri fjöðrun.“ Með slíkt hjól var hann betur undirbúinn að fara í brattari og meira krefjandi leiðir.

„Fljótlega langaði okkur að gera meira

Halla segir að fyrsta sumarið hafi hún verið dugleg að fara eftir vinnu og hjóla fjallahjólaleiðir í kringum Reykjavík í 1-3 klst. „Fljótlega langaði okkur að gera meira ferðalag úr þessu og fara lengri leiðir. Ég og Heiða vildum fá fleiri stelpur í sportið og fyrsta sumarið skipulögðum við stelpuferð í lok sumars.“ Þær söfnuðu saman 20 stelpum og segir Halla að flestar þeirra hafi ekki verið vanar fjallahjólum. Þannig hafi meðal annars ein fengið lánað hjól frá pabba sínum sem var með bögglabera. „Við enduðum með að fara inn á Fjallabak og hjóluðum geggjaða leið og síðan þá hefur þetta verið árleg ferð. Í dag eru allar komnar á fulldempuð hjól og orðnar rosa góðir fjallahjólarar,“ segir Halla. Hún segist hafa verið dugleg að fara með stelpunum og öðrum hópum í fjallahjólaferðir síðan.

Fjöldi hjólaleiða er í nágrenni höfuðborgarsvæðisins
Fjöldi hjólaleiða er í nágrenni höfuðborgarsvæðisins Ljósmynd/Aðsend

Fór til Kosta Ríka ári eftir að hann byrjaði á fjallahjóli

Ári eftir að Frans var kominn á fullt í fjallahjólamennskunni var hann búinn að bóka miða ásamt tveimur félögum sínum til Kosta Ríka, en þar tóku þeir þátt í margra daga fjallahjólakeppni um frumskóga landsins. Það leið því ekki langur tími þangað til hann var kominn algjörlega á kaf í þessari senu sem hann hafði varla þekkt ári áður. Það var stuttu fyrir ferðina til Kosta Ríka sem þau Frans og Halla kynntust og var það auðvitað í kringum fjallahjólreiðar, en þau eiga nokkra sameiginlega vini sem einnig eru hluti af senunni, auk þess sem flestir í hópnum eru einnig vel virkir á fjallaskíðum. „Fjöllin kalla,“ segir Frans og Halla tekur undir með honum. Telja þau að margir sem finni sig í fjallahjólreiðunum séu einnig í fjallaskíðamennsku og öfugt.

Rúmlega ári eftir að þau tóku saman, síðasta sumar, héldu þau til Kanada til að taka þátt í sex daga enduro-keppni í British Columbia. Til viðbótar voru þau dugleg að fara eftir vinnu í allskonar túra og lengri ferðir um helgar. Ekki nóg með það, heldur keyptu þau íbúð í efri byggðum Kópavogs til að vera sem næst góðum fjallahjólaleiðum í Heiðmörk auk þess sem Halla fór að vinna hjá hjólaframleiðandanum Lauf, en því starfi fylgir að fara og taka þátt í fjölmörgum hjólakeppnum á ári, sérstaklega í Bandaríkjunum. Halla viðurkennir að stór hluti tíma þeirra fari í þetta áhugamál. „Útivistin, hvort sem það eru skíði eða hjól eftir árstíðum. Já, lífið snýst um þetta.“ 

Áhugamálið hefur áhrif á húsnæðis- og bílakaup

Það er þó meira sem kemur til. „Þetta hafði áhrif á hvar við keyptum hús, áhrif á hvernig bíl við eigum og hvernig húsnæði við keyptum. Þetta hefur líka áhrif á hvernig við skipuleggjum fríin okkar. Þetta er ekki bara lífsstíll, þetta er lífið,“ segir Frans. Þrátt fyrir háfleyg orð er varla annað hægt að gera en að taka undir með honum, enda ljóst að hjólabakterían er einhver stærsti áhrifavaldur í lífi þeirra beggja í dag.

Halla á fullri ferð.
Halla á fullri ferð. mbl.is/Árni Sæberg

Þar sem ekki er langt síðan þau voru bæði byrjendur í senunni er ekki úr vegi að spyrja hvert fólk eigi að leita vilji það kynnast fjallahjólreiðum og menningunni hér á landi. Það stendur ekki á svari hjá Höllu sem segir að hjólreiðafélögin séu besti staðurinn til að kynnast greininni fyrir þá sem ekki eigi vini sem þegar hjóli mikið. Þar sé boðið upp á vikulegar æfingar og auðvelt að hitta fólk sem er á svipuðum stað. Þá bendir hún á að til sé Facebook-hópur sem heiti „Fjallahjólastelpur Íslands“ og þar finni stelpur aðrar stelpur sem hafi áhuga á að hjóla og auðvelt sé að detta í túra sem ættu að henta flestum. Frans tekur undir með henni, en tekur þó fram að besti skólinn sé bara að fara út og prófa. Sjá aðra í kringum sig fara ákveðnar leiðir og fá ráðleggingar frá þeim. Fyrst þurfi þó auðvitað að kaupa sér hjól, „en svo byrjar þú á að hjóla fram af kantinum og hjóla upp brekkuna og finna hvar þú ert staddur,“ segir hann og bætir við að það komi mjög fljótlega í ljóst hvort viðkomandi hafi áhuga á fjallahjólamennsku eða ekki.

„Götuhjólið er geggjað æfingatækið en fjallahjólið er leiktæki“

En þarf ekki að vera í rosalega góðu formi til að byrja að vera á fjallahjóli? Nei, segir Halla, en bætir við að það sé þó mun skemmtilegra að vera í góðu formi. „Þá verða uppleiðirnar ekki kvöl og pína og heildin verður skemmtilegri.“ Bæði æfa þau yfir veturinn í sérstökum hjólatímum sem og á hjólaþjálfara heima fyrir. Frans segir að þau stundi einnig bæði götuhjólreiðar að einhverju marki. Helst sé það til að halda sér í formi. „Götuhjólið er geggjað æfingatækið en fjallahjólið er leiktæki,“ segir hann. 

Frans segir lífið í dag snúast í hjólreiðar og aðra …
Frans segir lífið í dag snúast í hjólreiðar og aðra útivist. mbl.is/Árni Sæberg

Bæði hafa þau reynslu af því að hjóla á fjallahjólum erlendis og segja mikinn mun vera á aðstöðu þar og því sem gerist á Íslandi. Frans nefnir að í Kanada, þangað sem þau fóru í fyrra, séu svokallaðir brunavegir upp öll fjöll. Þeir eru lagðir til að slökkvilið geti farið þar um og varnað skógareldum. Þar með sé nokkuð auðvelt að hjóla slíka vegi upp öll fjöllin, en taka svo fjallahjólastíga niður. Hér á landi eru skiljanlega engir svona brunavegir og lítið eða ekkert sé um sérsniðna fjallahjólastíga. Því fari fjallahjólafólk upp sömu stígana og það komi svo niður og í mesta brattanum séu hjólin reidd eða haldið á þeim á leiðinni upp. Á leiðinni niður deili þau svo leiðinni með göngufólki, en það er ekki draumastaðan. „Við reynum að forðast þessa stíga þar sem er mikil umferð yfir sumarið af göngufólki. Við erum auðvitað víkjandi umferð og það að þurfa að negla niður tekur flæðið úr ferðinni,“ segir Frans.

Draumastaðirnir á Suðurlandi

Bæði segja þau að draumastaðurinn hér á landi í fjallahjólamennsku sé á Suðurlandi, að Fjallabaki, í Þórsmörk og Eyjafjöllin. „En við förum þangað helst ekki yfir hásumarið. Það er frábært að fara þarna á haustin,“ segir Halla og vísar til þess að þá sé mun minna um ferðamenn á svæðinu. Þau hafa þó einnig verið dugleg að fara á hjólið utan hefðbundins tíma og Frans bendir á að þessi vetur hafi verið rosalega góður hjólavetur. Þannig hafi ekki mikill klaki eða snjór verið í bænum og hann hafi komist upp með að sleppa alveg að setja nagla undir. Þá fóru þau inn í Þórsmörk rétt fyrir jólin og hjóluðu þar um á frosinni jörð og segja þau bæði að æðislegt hafi verið að upplifa svæðið á allt annan hátt en yfir sumarið.

Með drenginn í teygju upp fjöll og firnindi

Bæði eiga þau Frans og Halla börn úr fyrri samböndum sem eru í dag sex og sjö ára. Spurð hvernig gangi að blanda saman fjölskyldulífinu og þessu tímafreka áhugamáli segja þau að bæði börnin séu þegar farin að koma með í ferðir. „Við fórum með son minn Jaðarinn, í Skálafell og í Reykjadal í fyrra og hann er nú sjö ára,“ segir Frans. Halla segir að í grunninn gildi það sama um fjallahjólreiðar og annað sem börnum sé kennt. Það þurfi að byrja rólega, hafa gaman, passa að veðrið sé gott, taka pásur og sérstaklega að þau fái nóg vel að borða. Frans bendir á að þau hafi farið með son hans á 24 tommu hjóli sem var með 2,6 tommu dekkjum og 100 mm framdempara. „Þannig fer 6-8 ára barn leikandi niður Jaðarinn og hefur gaman af,“ segir hann.

Þótt flestum dugi að ganga Kattarhrygg er lítið mál fyrir …
Þótt flestum dugi að ganga Kattarhrygg er lítið mál fyrir Höllu að fara hann á fjallahjóli Ljósmynd/Aðsend

En það er annað sem þau hafa notað til að auðvelda hjólaferðirnar hjá börnunum. Frans útbjó teygjuspotta sem auðvelt er að festa á milli hjóla og þegar stefnir í ágæta brekku upp á við húkkar hann teygjuspottanum í barnahjólið. Segir hann að þetta hafi gengið framar vonum með son sinn sem hafi þótt frábært að komast lengra en áður með þessari aðferð. „Þegar farið er upp í mót er teygjan bara hengd aftur í og þá eru þau að hjóla og vinna, en ekki að erfiða,“ segir Frans.

Machu Picchu og fjöldi keppna heima og erlendis

Framundan í sumar hjá þeim er svo að fara í níu daga fjallahjólaferð um Perú með vinahópi sínum. Hjólað verður á svokallaðri Incaslóð í nágrenni Machu Picchu. Þá ætlar Halla að taka þátt í nokkrum malarkeppnum þar sem hún tekur þátt fyrir hönd Lauf. Meðal annars er um að ræða Dirty Kanza sem fer fram í Kansas og er ein stærsta og virtasta malarhjólakeppni heims. Þá taka þau bæði þátt í The Rift, sem fjallað er um nánar í annarri grein í þessu blaði. „Svo stefnir maður á að taka þátt í íslensku keppnunum,“ segir Halla, en hún hefur undanfarið verið ofarlega í kvennaflokki á fjallahjólamótum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert