Maraþon á Everest

Gangan í grunnbúðir Everest er algjört ævintýri.
Gangan í grunnbúðir Everest er algjört ævintýri. Ljósmynd/Ólafur Már Björnsson

Tenzing Hillary Everest maraþonið er alþjóðlegur íþróttaviðburður þar sem hlaupið er úr grunnbúðum Everest 42 km leið í Namche Bazaar sem er höfuðstaður Sjerpanna. Hlaupið fer alltaf fram 29. maí ár hvert, sem er dagurinn sem Tenzing Norgay Sherpa og Edmund Hillary komust á topp Everest árið 1953 í fyrstu uppgöngu á fjallið.  Íslenskir fjallaleiðsögumenn og Náttúruhlaup bjóða nú upp á skipulagða ferð í maí 2020, þannig að þeir sem hafa áhuga hafa nægan tíma til að æfa sig. Hægt er að hlaupa þrjár mismunandi vegalengdir, þ.e. 60 km ultramaraþon, 42 km maraþon eða 21 km hálfmaraþon. Að sögn Halldóru Gyðu Matthíasdóttir Proppé koma þátttakendur alls staðar að úr heiminum en hlaupið verður nú haldið í 18.sinn  „Lagt verður af stað frá Íslandi 14. maí og flogið til Kathmandu í Nepal, millilent í Evrópu, þar sem er lent 15. maí. Gist er á hóteli sem er gömul höll, staðsett í miðbæ Kathmandu. Á öðrum degi er farið í skoðunarferð um Kathmandu, þar sem er komið við á helstu kennileitum þessarar einstöku borgar. Á degi þrjú er flogið frá Kathmandu til Lukla, þar sem yfir-leiðsögumaður hópsins, Sjerpi  ásamt burðarmönnum taka á móti hópnum og gangan hefst.“

Gangan sjálf í grunnbúðir Everest með aðlögunargöngu tekur 11 daga. „Á leiðinni er farið í gegnum gullfalleg þorp með einstakri fjallasýn, sögu og menningu. Þó að hlaupið sé eftir göngustígum sem liggja að mestu niður á við þá er griðarlega erfitt að hlaupa í þetta mikilli hæð.  Því er mikilvægt að gera ráð fyrir góðum tíma til þess að aðlagast hæðinni og búa líkamann undir hlaupið, þegar gengið er upp í grunnbúðirnar,“ segir Halldóra Gyða. Einungis 16 manns komast að og hvetur Halldóra Gyða þá sem hafa áhuga að skrá sig sem fyrst til að tryggja sér sæti.  

Aðspurð hvort ekki sé of seint að fara að undirbúa sig fyrir svo stóra keppni segir Halldóra Gyða það alls ekki vera svo. „Það eru 13 mánuðir til stefnu. Tíminn er samt fljótur að líða, svo ég hvet áhugasama að hafa endilega samband ef þeir vilja fá frekari upplýsingar. Hlaupasamfélag Náttúruhlaupa er líka frábær kostur fyrir þá sem ekki eru í hlaupahópi, þar sem allir fá æfingar og vegalengd við hæfi í góðum félagsskap.“

Ítarlega ferðatilhögun er að finna hér 

mbl.is