Snýst um sögurnar, stemninguna og bjórinn

Í keppninni þarf að fara yfir fjögur stærri vöð auk …
Í keppninni þarf að fara yfir fjögur stærri vöð auk fjölda minni lækja. Hér er farið yfir Helliskvíslina, en fara þarf tvisvar yfir hana og flokkast hún sem stærri vað. Ljósmynd/Arnold

Í lok júlí er von á eitt til tvö hundruð erlendum hjólreiðamönnum og -konum til að taka þátt í nýrri 200 kílómetra malarhjólakeppni sem ber nafnið The Rift. Keppnin er sú fyrsta sem einblínir fyrst og fremst á malarhjólreiðar en það er íslenski hjólaframleiðandinn Lauf sem stendur á bak við keppnina, en stefnt er að því að hún verði árlegur viðburður á íslenska hjóladagatalinu á komandi árum. Meðal keppenda verða núverandi og fyrrverandi sigurvegarar í stærstu malarhjólakeppnum bæði vestan og austan við Atlantshafið. Hjólablaðið settist niður með Guðbergi Björnssyni, öðrum stofnenda Lauf, fyrir skömmu til að fara yfir hugmyndina að keppninni og hvað þurfi að hafa í huga til að taka þátt í keppni sem þessari.

Guðberg segir að hugmyndin á bak við keppnina sé í raun þríþætt. Í fyrsta lagi horfi Lauf til þess að auka sýnileika og kynna vörumerkið Lauf og er þar horft bæði til erlenda markaðarins og þess íslenska. Í öðru lagi vilji þeir koma malarhjólreiðum á kortið hér á landi og ýta undir grasrótina í þessari tegund hjólreiða sem og ýta undir samfélagslega þáttinn í hjólreiðum, þ.e. að hugsa keppnina sem samfélagslegan vettvang ekki síður en hjólamót. Í þriðja lagi hafi þeir viljað setja saman keppni þar sem bestu malarhjólarar frá Ameríku og Evrópu myndu leiða saman hesta sína.

Liður í að ýta undir grasrót í malarhjólreiðum á Íslandi

Lauf hefur á síðasta ári fært áherslur sínar að mestu leyti yfir í malarhjólreiðar og Guðberg segir að þeir hafi styrkt eða auglýst í yfir 50 malarhjólakeppnum í Bandaríkjunum á síðasta ári, en þar er langstærsti markaður malarhjóla. Starfsmenn Lauf reyna eftir fremsta megni að taka þátt í flestum keppnum og eru komnir með þó nokkra reynslu af því að sjá hvernig haldið er utan um margar af stærri keppnum ársins. „Keppnin hér heima er liður í að reyna að byrja þessa grasrót hér heima,“ segir hann og bætir við að þeir vilji auk þess breyta aðeins áherslunni í kringum hjólakeppnir hér á landi.

Keppnisleiðin í hjólakeppninni The Rift.
Keppnisleiðin í hjólakeppninni The Rift. Kort/mbl.is

„Snýst meira um sögurnar, stemninguna og bjórinn eftir keppnina

„Landslagið hér heima er mikið að þú mætir í keppnina og ferð svo heim beint eftir keppni.“ Guðberg segir þó nokkrar undantekningar á þessari reglu, meðal annars KIA Gullhringinn, Bláa lóns þrautina, Glacier 360 og Cyclothonið. „Að okkar mati vantaði fleiri svona keppnir þar sem fólk er að hanga eftir keppnir og þetta snýst meira um sögurnar, stemninguna og bjórinn eftir keppnina en bara keppnina sjálfa.“ Guðberg segir þetta vera aðalþemað í þeim erlendu keppnum sem þeir taki þátt í og gefi keppnunum aukið vægi. „Það eru auðvitað allir að hugsa um keppnina, en allir hlakka einnig til að koma í mark og segja hetjusögur eða hrakfallasögur af sér í keppninni.“ Með þessu móti segir hann að hægt sé að snúa keppninni miklu meira yfir í persónuleg markmið heldur en að hafa markmiðið það eitt að standa á verðlaunapallinum. Segir hann að í grunninn sé keppnin ekki síður byggð upp sem félagslegur vettvangur fyrir malarhjólara frekar en eingöngu keppni. Vísar hann þar til dæmis í hvernig „enduro“-senan hefur náð að byggja upp mjög vinsæla viðburði þar sem félagslegi þátturinn er ekki síður mikilvægur en keppnin sjálf.

Ef fram heldur sem horfir verður The Rift lengsta eins dags keppnin hér á landi. Bæði á það við um vegalengd og ekki síður líklegan tíma á hnakknum, því að hjóla í möl og sandi tekur almennt lengri tíma en þegar hjólað er á malbiki.

Keppnin fer fram 27. júlí og verður hjólað frá Hvolsvelli upp að Landmannahelli að Fjallabaki og þaðan til baka. Til nánari skýringar verður hjólað inn Fljótshlíð og þaðan beygt inn á malarveg sem liggur að Keldum. Frá Keldum er komið inn á Syðra-Fjallabak og hjólað að Laufafelli þar sem beygt er vestan við fjallið og haldið fram hjá Dalakofa og á Krakatindaleið inn á Landmannaleið. Komið er niður frá Krakatindi við Landmannahelli, en þar er tekinn hringur um Löngusátu. Á þessum tímapunkti er mestöll hækkun að baki og haldið er vestur Landmannaleið og út á Landveg. Þar tekur við rúmlega 10 kílómetra malbikaður kafli þar sem hjólað er að gatamótum sem vísa að Gunnarsholti og þaðan áfram að Keldum. Þaðan er svo sami leggur hjólaður til baka á Hvolsvöll.

Guðberg á ferð um Fjallabak þar sem keppnin mun fara …
Guðberg á ferð um Fjallabak þar sem keppnin mun fara fram. Ljósmynd/Arnold

Átti fyrst að vera 300 km

„Við drógum í land með keppnina, því við ætluðum fyrst að fara allt Fjallabak. Það hefðu verið um 40 ár eða vöð sem hefði þurft að fara yfir og verið hátt í 300 kílómetrar,“ segir Guðberg hlæjandi. Á núverandi leið eru hins vegar fjögur stærri vöð og svo eitthvað um minni sprænur og læki. Helstu vöðin eru fram og til baka yfir Fiská, sem liggur upp af Fljótshlíð og er því í upphafi og svo við enda keppninnar. Þá er tvisvar farið yfir Helliskvíslina, en í bæði skiptin er það um miðbik keppninnar. Guðberg segir að í þessum tilvikum megi gera ráð fyrir að vatn geti farið vel yfir miðja gjörð á hjólinu. Önnur vöð ættu hins vegar að vera vatnsminni.

„Þú tekur svo alla hækkunina í upphafi og eftir það er þetta að mestu þægilegt niður,“ segir Guðberg og ljóst að „í upphafi“ hjá honum er nokkuð teygjanlegt hugtak, því þar á hann við fyrstu 80 kílómetrana. Samtals verður hækkunin um eða yfir 2.500 metrar og mestur hluti leiðarinnar á öðru undirlagi en malbiki, eins og möl eða sandi. Aðeins 15-20 kílómetrar verða á malbiki. Í lokin komi þó 150 metra hækkun áður en farið sé aftur niður í Fljótshlíð og sé það síðasta hækkun keppninnar. Fyrir þá sem vilja fara aðeins styttri leið verður einnig í boði að fara 67 kílómetra leið, en þá er farið upp að Laufafelli og svo aftur til baka.

Nokkuð magnað er að hjóla í gegnum hraunið að Syðra …
Nokkuð magnað er að hjóla í gegnum hraunið að Syðra Fjallabaki. Ljósmynd/Arnold

Ýmis hjól koma til greina

En hvað þarf til að taka þátt í svona keppni? Guðberg segir að fyrst og fremst þurfi að vera á malarhjóli. Þó sé líklegt að einhverjir verði á cyclocross-hjólum og fjallahjólum. Þá þurfi hjólarar að geta setið á hnakki í 8-14 klukkustundir sem líklega muni reynast hvað erfiðasti hlutinn fyrir marga Íslendinga. Einnig þurfi hjólarar að vera með tæki og búnað til að geta sjálfir brugðist við ef eitthvað kemur upp á. Nefnir hann þar á meðal pumpu, nokkrar slöngur, felguplast, keðjuhlekk og næringu fyrir daginn. Mótshaldarar munu bjóða upp á drykki og einhverja næringu á næringarstöðvum, en Guðberg segir ágætt viðmið að vera allavega með 1.500 til 2.000 kcal af næringu sjálfur sem og tvo til þrjá brúsa af vatni.

Dekkjaval skiptir einnig miklu máli, en Guðberg varar við að vera á of þunnum dekkjum. Segist hann sjálfur mæla með 40 mm dekkjum og að vera með um 35 punda þrýsting í þeim. Sem dæmi um dekk með þokkalega þykkt gúmmí sem rúlli ágætlega nefnir hann WTB Nano 40 dekk. „Þau eru alls ekki ólík 90‘s-fjallahjóladekkjunum,“ bætir hann við.

„Hraðasta hjólið á þessari leið verður alltaf malarhjól eða cyclocross,“ segir Guðberg og bendir á að True Grit-hjól þeirra Laufmanna sé í raun hannað fyrir þessar aðstæður. „En ég held að það sé álíka gott að vera á hardtail (fjallahjól með framdempara), losa sig við dempunina og vera með tveggja tommu dekk,“ segir hann og bætir við: „Það er ekki þess virði að burðast með 1,5 kg dempara með sér fyrir nokkra kílómetra. „Ef þú átt cyclocross-hjól myndi ég allan daginn mæta á því, annaðhvort með eða án Lauf-gaffals.“

Spurður um drifbúnað segist hann sjálfur vera með eitt tannhjól að framan. Það sé 42 tanna, en svo sé hann með 10-42 tanna kasettu að aftan. Mögulega mætti skipta henni út fyrir 10-38 tanna kasettu. „Það eru tvær drullubrattar brekkur sem fólk mun örugglega labba upp við Krakatind,“ segir hann, en þær koma beint hvor ofan í aðra. „Það verður áskorun að hjóla upp, en þú verður alveg jafn fljótur að labba það,“ segir hann.

Blotna í fæturnar í upphafi

Varðandi klæðnað segir hann íslenska hjólara líklegast vana öllum veðrum séu þeir duglegir að hjóla úti almennt. „Fyrir Íslendinga er þetta aðallega að mæta í ullarsokkum og þá ættu þeir að vera nokkuð góðir,“ segir hann hlæjandi en bætir við á alvarlegri nótum að fyrir suma geti verið erfitt að blotna í lappirnar, sérstaklega þegar fyrsta stóra vaðið sé eftir aðeins 10-15 kílómetra. Til viðbótar geti vindur leikið stórt hlutverk og fólk þurfi að vera búið undir langan hjólatúr og að veðrið verði nokkuð íslenskt. „Áskorunin verður að harka af sér fyrstu 70-80 kílómetrana inn að stoppi númer 2 (Landmannahellir). Þar verður hið mesta afstaðið og þá byrjar niðurleiðin,“ segir hann.

Farið er um 180 km af malarvegum í keppninni, meðal …
Farið er um 180 km af malarvegum í keppninni, meðal annars Syðra Fjallabak. Ljósmynd/Arnold

Áskorun að sitja í hnakki í 10-14 klst

Það er ljóst að 200 kílómetrar verða mikil þolraun fyrir flesta, en það er ekki síður andlegi þátturinn sem Guðberg segir að sé mikilvægur í keppnum sem þessari. „Fyrir þá sem eru nýir verður það áskorun að sitja á hnakki í 10-14 klukkustundir. Þá getur þetta verið meira barátta við hugann en líkamann um að hætta ekki og ég tel að þetta verði slík áskorun fyrir flesta Íslendinga sem mæta,“ segir Guðberg.

En það verða ekki bara Íslendingar í keppninni. Líklegt er að meirihluti verði erlendir keppendur, en í byrjun apríl voru um 40 Íslendingar skráðir á meðan erlendir keppendur voru um 100. Sumir þeirra eru stór nöfn í malarhjólreiðaheiminum, svo sem Ted King, núverandi sigurvegari í Dirty Kanza, sem er ein stærsta malarkeppnin á hverju ári og líklega sú virtasta. Þá tekur einnig Yuri Hauswald, fyrrverandi sigurvegari sömu keppni þátt, Neil Shirley sem er annað stórt nafn í þessari grein og ellismellurinn Tinker Juares, en hann er margfaldur Bandaríkjameistari í fjallahjólreiðum og fjallahjólamaraþoni. Juares er orðinn 58 ára gamall, en Guðberg segir að þegar hann mæti til keppni endi hann oftast meðal efstu manna, enda gefi hann enn allt í keppnirnar og sé þar að auki einn af sterkari klifrurum greinarinnar. Í kvennaflokki kemur svo Alison Tetrick, sem sigraði í Dirty Kanza árið 2017.

Ætla að fá þá bestu beggja vegna Atlantshafsins

Guðberg segir að auk þess muni sigurvegarar Dirty Kansa í ár fá boðsmiða sem og sigurvegarar í Dirty Reaver, en það er virtasta malarhjólakeppni Bretlands, og verið sé að athuga með sigurvegara Dirty Boar-keppninnar í Belgíu. „Með því værum við komnir með góða samkeppni frá Evrópu og gætum verið með einskonar Ryder cup,“ segir Guðberg, en það var einmitt þessi hugmynd fyrir nokkrum árum sem fékk þá félaga hjá Lauf til að byrja að hugsa um að koma keppninni af stað.

Úr hópi Íslendinga hafa þegar skráð sig nokkur þekkt nöfn. Þar má meðal annars nefna þau Ingvar Ómarsson, Hafstein Geirsson og Maríu Ögn Guðmundsdóttur, margfalda Íslands- og bikarmeistara í fjallahjólreiðum og götuhjólreiðum. Þá hefur Halla Jónsdóttir undanfarin ár verið ofarlega í fjallahjólakeppnum hér á landi og er hún einnig skráð til leiks.

Gera má ráð fyrir að fljótustu keppendurnir og þeir sem munu berjast um sæti fari leiðina á um sex og hálfri klukkustund að sögn Guðbergs. Aðrir reyndir malarhjólarar geti farið á 8-9 klst. og meirihluti keppenda verði á 8-11 klst. Eru tímamörk sett við 14 klst. og lýkur þá keppni. Munu keppendur sem komast í mark fyrir mjaltir, en það er rúmlega 11 klst. eftir að keppni hefst, fá sérstök verðlaun og segir Guðberg að það sé eitt af persónulegu markmiðunum sem allir geti reynt að setja sér.

Ljósmynd/Arnold

Öðruvísi undirlag en menn venjast erlendis

Guðberg segir að flestir erlendir keppendur séu að taka með sér fjölskyldur í lengra frí hér á landi og telur hann að heildarfjöldi erlendra ferðamanna sem muni koma í tengslum við keppnina verði á bilinu 400-600 þegar allt verði komið.

Hann segir að auðvelt hafi verið að selja í keppnina hingað til þrátt fyrir að lítið hafi farið fyrir auglýsingum og markaðssetningu þetta fyrsta ár. „Ísland er enn mjög heitur áfangastaður og marga hefur dreymt lengi um að koma hingað. Flestir hafa fylgst með okkur á samfélagsmiðlum lengi og séð myndir af okkur hjóla í svörtum sandi og slíku landslagi og vilja nú upplifa það,“ segir Guðberg og bætir við að erlendis hjóli menn helst í leir og sandsteini. „Það er öðruvísi hér. Við erum bæði með skarpari steina eins og hraunmola, og þess á milli er mjög pakkað undirlag sem er næstum eins og malbikið. Að lokum erum við svo með svarta sandinn.“ Þetta segir hann nokkuð öðruvísi en í flestum keppnum í miðríkjum Bandaríkjanna sem eru Mekka malarhjólreiðanna. „Þar eru þetta helst sveitavegir á milli akra, þú horfir bara á sjóndeildarhringinn og sólblóm. Hér er þetta allt annað, svona einskonar „gourmet gravel“, algjört heimsklassa malarlandslag,“ segir Guðberg. Bendir hann á að hér fái fólk fjallalandslagið, meðal annars á Heklu, stóran hluta keppninnar. Segir hann að helst fái menn fjölbreytt landslag í svipuðum keppnum í Suður-Arizona eða Suður-Kaliforníu, en þá sé fólk líka komið í heitt eyðimerkurloftslag.

Á næstunni ætla skipuleggjendur að fara að kynna keppnina af fullum þunga hér á landi og segir Guðberg að vonir standi til að það fyllist í öll 250 hólfin fyrir lok maímánaðar. Gangi skráning og keppnishald vel standi svo til að halda keppnina árlega héðan í frá og segir hann að hjá Lauf horfi menn á að keppnin geti orðið að 500 manna viðburði á komandi árum.

Frá gaffli yfir í hjólaframleiðslu

Lauf hefur í hálfan áratug hannað og framleitt sérstaka demparahjólagaffla sem eru ekki eins og hefðbundnir demparagafflar, heldur með fjöðrum úr glertrefjum. Með þessu hefur tekist að búa til léttari gaffla en áður var mögulegt. Vegna eiginleika sinna hefur gaffallinn notið mestra vinsælda meðal malarhjólara og ákvað fyrirtækið að færa sig að mestu yfir í þá senu fyrir tveimur árum þegar fyrsta hjól fyrirtækisins kom á markað undir nafninu True Grit, en það var búið gafflinum fyrrnefnda. Var það fyrsta fjöldaframleidda íslenska hjólið.

Fyrr á þessu ári kom svo annað hjól fyrirtækisins á markað, undir nafninu Lauf Anywhere, en nú með þeirri nýbreytni að vera ekki með demparagafflinum. Í miðríkjum Bandaríkjanna, þar sem malarhjólreiðar eru vinsælastar, komast hjólarar nokkuð fljótt út á malarvegi þegar hraðbrautum lýkur og þar passar True Grit-hjólið vel. Hins vegar hafi þeir séð að markaður var fyrir hefðbundnari hjól nær bæði austur- og vesturströndinni, þar sem hjóla þurfti mögulega 50 kílómetra fyrst áður en komið er út á mölina.

Leiðin um Pokahryggi er nokkuð gróf, en þar í nágrenninu …
Leiðin um Pokahryggi er nokkuð gróf, en þar í nágrenninu er einnig að finna tvær bröttustu brekkurnar sem keppendur þurfa að klifra upp. Ljósmynd/Arnold

Guðberg segir að þeim hafi upphaflega þótt fáránleg hugmynd að framleiða hjól sem ekki væri byggt á grunnhugmyndinni um demparagaffalinn. „Við hugsuðum að það væri eins og öll önnur hjól. Það vantaði Lauf-kryddið,“ sem hann segir að hafi alla tíð verið þessi auknu þægindi. Því hönnuðu þeir nýtt stýri sem er bæði úr sömu glertrefjum og notaðar eru í fjaðrirnar á demparanum og svo koltrefjum. Með þessu næst að taka í burtu stóran hluta víbrings af smærri möl sem og að 6-8 mm fjöðrun fæst við stærri högg í grófari ójöfnum. Gaffallinn, sem var nú kominn með hefðbundið útlit, fékk svo nafnið táknræna „Just a fork“.

Nýleg var greint frá því að Lauf hefði fengið 300 milljóna króna hlutafjáraukningu. Spurður út í næstu skref hjá fyrirtækinu segir Guðberg að unnið sé að því að fjölga sölustöðum í Bandaríkjunum samhliða því að auka söluna. Stefna þeir á að vera í 300 búðum, en í dag eru hjólin seld í 55 búðum í Bandaríkjunum, þremur í Evrópu og einni á Íslandi. Nú séu þeir með tvö hjól og vöruframboðið því orðið fjölbreyttara, en að þeir loki ekki fyrir að bæta við hjóli.

Segir hann að þar horfi þeir sérstaklega í grófari hjólreiðar en malarhjólreiðar, eins konar fjallahjólreiðar með hrútastýri sem geti einnig flokkast undir hjólaferðamennsku. „Þetta er samt lítill geiri, en við skoðum hvað við gerum og þetta er spennandi,“ segir hann. Til viðbótar sótti Lauf nýlega um einkaleyfi á nýjum hnakk sem er með fjöðrun. Segir Guðberg að það sé hnakkur sem geti hentað báðum hjólunum sem þeir framleiði. Það eigi þó eftir að koma í ljós hvað þeir geri með hnakkinn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »