Lofthrædda fjallageitin

Pistlahöfundur í Esjugöngu.
Pistlahöfundur í Esjugöngu. Ljósmynd/Hrafnhildur Tryggvadóttir

Að venju voru hjónin Brynhildur Ólafsdóttir og Róbert Marshall, forsvarsmenn FÍ Landvættir við stjórnvölinn.  Einnig voru Birna Bragadóttir og Kjartan Long fararstjórar.  Þau hafa bæði klárað Landvættaprógrammið og eru hokin af reynslu.  Við fengum póst frá Brynhildi þar sem allar nauðsynlegar upplýsingar komu fram.  Fyrir svona stressbolta eins og mig þá er utanumhaldið hjá Landvættum fullkomið.  Hvert einasta smáatriði er tilgreint og ég þarf því bara að mæta og lifa af.  Planið var að hittast hjá Olís í Norðlingaholti og vera í vetrarhlaupafötum.  Taka með Primaloftúlpu til að nota í nestispásunni og vera í utanvegaskóm til að skokka niður fellið.  Förinni var heitið á Vífilfell. 

Ég hef haft mjög einfalda stefnu eftir að ég byrjaði í Landvættum sem hefur gefist mjög vel.  Bara henda mér í djúpu laugina og kynna mér ekki aðstæður, enda treysti ég Brynhildi og Róbert fullkomnlega til að sjá um það smáatriði.  Á síðustu stundu greip ég úlpuskelina mína og utanyfirbuxur.  Hitti hópinn á Olís þar sem við sameinuðumst í bíla og ég var svo heppin að fá far með Birnu og Kjartani.  Ég var  ansi ánægð með mig að hafa bara tekið með mér 2 flatkökur og nokkrar súkkulaðirúsínur í nesti.  Kjartan og Birna litu á mig,  brostu í kampinn yfir byrjandanum og sögðu í kór, við erum nú bara með eitt próteinbar.  Ó, eina ferðina enn er ég of nestuð.  Þau bentu á að því oftar sem maður færi í ferðir því minna nesti tæki maður með.  Greinilega eitt af því sem lærist með reynslunni og það má svo sannarlega segja að reynslubankinn minn sé að bólgna út.

Glaður Landvættahópur á göngu.
Glaður Landvættahópur á göngu. Ljósmynd/RóbertMarshall

Ég hef alveg gengið á eitt og eitt fjall í gegnum tíðina.  Tölti meira að segja um í Andésfjöllunum í mínu ungdæmi enda var það áður en ég þróaði með mér lofthræðslu.  Ég hef gengið nokkrum sinnum á Esjuna sem og eitt og eitt fjall á Íslandi.  Einnig á þrjú fjöll sem enda á Fell, Úlfarsfell og Helgafell í 2 bæjarfélögum.  Ég taldi því að Vífilfellið myndi flokkast með þeim og  fannst metnaðurinn í þeim Brynhildi og Róberti óvenju lítill.  Sá samt fyrir mér að hlaupið niður Vífilfell yrði þægilegt og frábært utanvegahlaup.

Þegar við komum að Vífilsfelli tók Brynhildur smá kynningarfund.  Þá kom í ljós að við vorum bara ekkert að fara eitthvað krúttlegt Fell.  Ég hætti að heyra almennilega eftir að Brynhildur fór að nota orðin reipi, keðjur og lofthræðsla.  Ég hugsaði A... hvers vegna kynnti ég mér ekki hvert við vorum að fara, ég er pínu lasin og hefði bara átt að vera heima.  Hvers vegna var ég að fá far með Birnu.  Ætli ég geti fengið lyklana hjá henni og beðið í bílnum.  Hvað ætli þau verði lengi að labba þetta og hversu kalt verður mér ef ég verð bara eftir.  Engin af þessum hugmyndum var samt raunhæf, þannig að ég ákvað bara að rölta af stað og finna út úr þessu á leiðinni.  Í gegnum Landvættina hef ég tileinkað  mér möntruna: Ekki hugsa, bara gera

Kosturinn við Landvættina er að hópurinn er stútfullur af fólki með mjög mikla reynslu af útivist.  Bæði fararstjórarnir sem og allir snillingarnir sem eru í Landvættunum.  Brynhildur og Róbert eru þvílíkir reynsluboltar að það hálfa væri nóg.  Kjartan er reyndur fjallaleiðsögumaður og í björgunarsveit.  Ragnar Antoniussen sér um nýliðaþjálfun hjá björgunarsveitunum.  Elva Tryggvadóttir, hún er  hvorki meira né minna en formaður svæðistjórnar á svæði 1 á höfuðborgarsvæðinu og í aðgerðastjórn höfuðborgarsvæðisins hjá björgunarsveitinni.   Þessar upplýsingar róuðu mig reyndar helling.  Hvað er betra en að vera upp á fjalli með konu sem er með þyrluna á hraðvali í símanum?

Gangan upp gekk að mestu áfallalaust til að byrja með, svo kom klettabelti sem mér leist bara ekkert á.  Þá kom styrkur Landvættananna vel í ljós.  Brynhildur var búin að biðja hópinn að passa upp á mig.  Um leið og ég lenti í vandræðum var alltaf komin útrétt hönd til að grípa í.  Málið er einfalt, það borgar sig alltaf að upplýsa um sína annmarka, þá eru allir boðnir og búnir að aðstoða. 

Að lokum vorum við næstum því komin upp.  Kjartan og Birna sögðu, það er bara örstutt eftir.  Þetta örstutta bugaði mig næstum því.  Ég þurfti að ganga meðfram óþægilega mjóum stíg, troða mér upp sprungu og hoppa svo í lausu lofti upp á næstu klettabrún.  Þarna fraus ég einfaldlega og komst hvorki lönd né strönd í smá stund.  Fann svo betri leið, en þá tók nú ekki betra við.  Við þurftum að klifra upp með aðstoð reipis.  Mér varð hugsað til allra tímanna í grunnskóla Dalvíkur þar sem við áttum að klifra upp reipi og ég náði því aldrei.  Var komið að því, komst ég ekki lengra?  Með aðstoð og jákvæðri hvatingu náði ég upp.  Ég var samt ekki fyrr komin upp en ég mætti Róberti með hóp á leiðinni niður.  Bíddu, hvað er eiginlega í gangi, hvar er nestispásan mín, hvar er samstundin okkar.  Nokkrar hugsanir fuku í gegnum hausinn á mér.  Eruð þið í alvörunni að segja mér að ég hafi farið upp allt þetta til að stoppa í 2 mínútur.  Það var ekkert útsýni af toppnum, bara hvasst og þoka.

Eftir á að hyggja er ég gífurlega fegin að hafa verið dregin upp því að ég sigraðist á Vífilfelli.  Í hvert skipti sem ég sigrast á einhverju sem var algjörlega ómögulegt að ég gæti gert, blæs þægindaramminn minn út og ég get gert svo miklu meira.  Ekki bara í fjallaklifri heldur í lífinu almennt. 

Æsispennandi aðstæður á Vífilfelli.
Æsispennandi aðstæður á Vífilfelli. Ljósmynd/Aðsend

Leiðin niður var vandræðalega auðveld þegar ég var búin að klöngrast niður sprunguna.  Hana fór ég með Brynhildi.  Hún fór á undan og sagði mér hvar hendur og fætur ættu að fara, þetta var samt ekki nema 1 mínúta sem það tók og allir lifðu af.  Klettabeltið sem ég barðist við að fara upp, var allt í einu ekkert mál og þegar við komum niður þá langaði mig eiginlega að fara aftur.  Mér leið eins og ég hefði gengið upp á Everest og ég get ekki beðið eftir því að ganga á næsta Fell, hvaða fornafn sem það ber.

Ég hefði hins vegar ekki getað þetta ein, þetta var sannarlega hópefli.

Ef þú ert að stíga þín fyrstu skref í fjallgöngu þá er gífurlega mikilvægt að vera rétt útbúinn.  Við vitum aldrei hvernig veðrið verður.  Það var fínasta veður þegar við lögðum af stað en svo kom þoka og rok.  Það sem ég mæli með er hreinlega að fá lánuð föt hjá vinum og vandamönnum til að prófa.  Skemmtileg gönguferð getur nefninlega breyst í algjöra martröð ef fólk er illa útbúið og verður kalt og blautt.

Ef þú ert að glíma við lofthræðslu eins og ég en vilt samt ganga á fjöll þá eru hérna skotheld ráð.

3 ráð fyrir lofthræddar fjallageitur

- Farðu með reynslumiklu fólki og treystu þeim í blindni. Ég vissi að í þessum hóp er fólk sem ég get treyst fyrir lífi mínu.  Sama hvað myndi gerast þá myndu þau koma mér í gegnum þetta

- Upplýstu samferðamenn þína um lofthræðsluna og vertu viss um að þau séu skilji vandamálið

- Ekki ofhugsa þetta. Það sem virkar fyrir mig er að kynna mér ekki of mikið í upphafi því þá fer ég að hafa áhyggjur af hlutum sem kannski verða ekki vandamál.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert