„Þetta er bara stórkostlegt“

Heiðrún og Magnea við með fána SJÓR, Sjósunds- og sjóbaðsfélags …
Heiðrún og Magnea við með fána SJÓR, Sjósunds- og sjóbaðsfélags Reykjavíkur, við upphaf sundsins. Alcatraz-fangelsið aflagða er í baksýn. Ljósmynd/Aðsend

Þær Magnea Hilmarsdóttir og Heiðrún Hauksdóttir syntu í morgun frá Alcatraz-fangelsiseyjunni utan við San Fransiskó í Bandaríkjunum og í land og urðu fyrstu íslensku konurnar til þess að synda þessa tveggja kílómetra leið á hefðbundnum sundfötum.

„Þetta er bara stórkostlegt. Þetta tók alveg á, og svona á tímabili fannst manni maður ekkert komast áfram, maður var bara svona að skoppa í sjónum, sko. En þetta var stórkostlegt,“ segir Heiðrún í samtali við mbl.is, en sundið tók þær rétt innan við klukkutíma.

Straumarnir báru þær og Steve Walker, bandarískan sundfélaga þeirra, töluvert af leið og var heildarferill þeirra í vatninu um 4,5 kílómetra. „Maður þurfti að hafa sig við til að reka ekki of langt af leið,“ segir Heiðrún.

„Við erum ótrúlega ánægðar með að þetta hafi tekist, mér sýnist að Magnea sé fyrsta íslenska konan sem að syndir þetta í hefðbundnum sundfötum og ég fylgdi á eftir,“ segir Heiðrún.

Magnea, Heiðrún og Steve á sundi í dag. Golden Gate-brúin …
Magnea, Heiðrún og Steve á sundi í dag. Golden Gate-brúin í baksýn. Ljósmynd/Aðsend

Þær syntu skriðsund nær alla leið og segir Heiðrún að það hafi á stundum reynst erfitt, en fylgdarfólk þeirra, sem sigldi meðfram þeim, lagði mikla áherslu á að þær myndu synda skriðsund og vildu ekki sjá að þær færu að synda á bakinu.

„Við tókum í mesta lagi 2-3 bringusundstök, þegar við þurfum að komast upp og ná andanum,“ segir Heiðrún, en hún segir að sjórinn hafi verið nokkuð úfinn og því hafi þær þurft að leggja nokkuð á sig til að forðast að gleypa of mikinn sjó.

Erfiðleikar sundsins gleymdust þó fljótt, er þær stöllur stigu hæstánægðar á land.

Allir komnir í land, á sandströnd í San Fransiskó.
Allir komnir í land, á sandströnd í San Fransiskó. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is