Bannað að fara til Sviss án þess að borða ost

Atli Arnarsson hljóðmaður, Steingrímur Jón Þórðarson, Ólafur Örn og Höskuldur …
Atli Arnarsson hljóðmaður, Steingrímur Jón Þórðarson, Ólafur Örn og Höskuldur Hauksson með Raclette á vínekrunni. Ljósmynd/Hannes Arason

 „Við lentum í Zurich en fórum líka dáldið víða í sveitirnar í kring. Ég vissi ekki mikið um Sviss áður en ég kom þangað, annað en það væri frægt fyrir ost, súkkulaði, úr og vasahnífa. Hafði einhverja hugmynd um að það væri vínrækt þar, enda viðmælandinn vínbóndi svo það hlaut að vera. Zurich er stærsta borgin í Sviss,  falleg evrópsk borg sem er alþjóleg miðstöð fyrir banka og fjármálastarfsemi og þess vegna er mannlífið mjög fjölbreyttt þar,“ segir Ólafur Örn þáttasjórnandi. 

Viðmælandinn að þessu sinni Höskuldur Hauksson vínbóndi og víngerðarmaður sem býr í úthverfi Zurich en vinnur í sveitinni. „Höskuldur er stærðfræðingur og vann lengi í bankageiranum áður en hann ákvað að söðla um og fara að rækta og búa til vín. Hann byrjaði smátt með litla víngerð í kjallaranum heima hjá sér. En núna, nokkrum árum seinna, er hann búinn að festa kaupa á víngerð og landsvæði þar sem hann er að rækta þrúgur í vínið sitt, Hauksson Wine.“
Víngerðin hjá Höskuldi er afar fögur.
Víngerðin hjá Höskuldi er afar fögur. Ljósmynd/Ólafur Örn
Að sögn Ólafs Arnar er gamla Zurich gullfalleg borg þar sem tilvalið er að ganga um á árbakkanum að kvöldi til. „ Fólk ætti líka að kíkja inn í eitthvað af þessum fallegu byggingum, Grossmunster kirkjuna til dæmis. Zurich-vatn er fallegur staður og er vinsæll baðstaður yfir sumartímann. Óperuhúsið og torgið þar í kring er skemmtilegt að heimsækja og verslunargatan Banhoffstrasse er með mikið úrval af alls konar fíneríi.“
Svisslendingar borða mikinn ost og segir Ólafur Örn það nánast vera bannað að fara til Sviss án þess að borða Raclette. „Það er ostur sem er bræddur yfir kartöflur og borinn fram með súrum gúrkum, pylsum og skinkum. Vegna þess hvað Zurich er alþjóðleg borg er mikið úrval af góðum veiktingastöðum, svo það ætti ekki að vefjast fyrir fólki að borða vel þar. Kaffi- og kökuhúsið Kumiko er skemmtilegt. Litríkar og fallegar kökur og chai latte. Caduffs Wine loft er með einhvern mest impónerandi vínkjallara sem ég hef komið í og maturinn frábær. Mikið af villibráð sem eigandinn veiðir sjálfur.“
Alla þáttaröðina af Kokkaflakki má finna í Sjónvarpi Símans Premium en þeir eru einnig í opinni dagskrá í Sjónvarpi Símans. Þættirnir eru framleiddir af SKOT Production.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert