Ílengdist í Rússlandi

Pétur Óli Pétursson unir sér vel í St. Pétursborg.
Pétur Óli Pétursson unir sér vel í St. Pétursborg. Ljósmynd/Aðsend

„Ég kom hingað fyrst árið 1995 í vinnuferð fyrir franskt fyrirtæki og ætlaði bara að vera í nokkra mánuði,“ segir Pétur sem unir sér vel í borginni. Hann þekkir orðið svæðið eins og lófana á sér og tekur reglulega að sér að leiða fróðleiksfúsa ferðalanga um þessa heillandi borg og það er svo sannarlega nóg að gera.

Pétur ásamt samstúdentum úr Menntaskólanum á Laugarvatni en hópurinn heldur …
Pétur ásamt samstúdentum úr Menntaskólanum á Laugarvatni en hópurinn heldur vel saman og fer reglulega í menningarferðir. Hérna eru þau saman komin fyrir framan Vetrarhöllina. Ljósmynd/Aðsend

Aðspurður hvað sé ómissandi að sjá í borginni segir Pétur það aðallega vera söfnin og þá Vetrarhöllina sem hýsir Hermitage-safnið en það er talið að sé að finna mesta listaverkasafn heims. „Sumarhallirnar er líka gaman að skoða, þ.e. gosbrunnagarðinn í Peterhof, Katrínarhöllina í Pushkin, St. Isaks-kirkju, Mariinsky-óperuna og ballethúsið, Philharmoníuna og margt, margt fleira.  Borgin kemur ferðamönnum sem hingað koma í fyrsta sinn verulega á óvart.“

Allir dagar eru draumadagar

Þegar Pétur er beðinn um að lýsa draumadegi í borginni segir hann þá alla vera draumadaga og þá sérstaklega þegar ferðamannahópar frá Íslandi eru í borginni. „Það eru líka draumadagar þegar ég kemst í golf, sem ég er nýbyrjaður að spila ásamt hinum félaganum í Íslendingafélaginu í borginni, Sigurjóni Bjarnasyni.“ Líklega myndi svo Pétur enda daginn á öðru hvoru af eftirlætisveitingahúsum sínum í borginni „Síðan í desember 1996 hefur eftirlætisveitingastaðurinn minn verið Gamla tollhúsið sem er frábær staður. Á sunnudögum er uppáhaldsveitingastaður minn „Sunday brunch“ á Grand Hotel Europa, það er ógleymanlegt hverjum þeim sem þangað fer.“

Pétur ásamt Terem-kvartettinum sem verður með konsert í Hörpu 12. …
Pétur ásamt Terem-kvartettinum sem verður með konsert í Hörpu 12. maí. Forseti Rússlands, Vladimir Putin, horfir yfir öxlina á þeim og vill fylgjast með hvað sagt er. Ljósmynd/Aðsend

Aðspurður hvað sé helst að gerast í borginni um þessar mundir segir hann að í dag sé mesti hátíðisdagur í Rússlandi. „Sigurdagurinn er í dag, 9. maí. Þá munu milljón manns ganga um aðalgötu borgarinnar sem heitir Nevsky prospekt með myndir af ástvinum sem létust í seinni heimsstyrjöldinni. Undirbúningur fyrir þessi hátíðarhöld er mikill og hefur staðið yfir í nokkra daga,“ segir Pétur sem hefur í nógu að snúast í þessari spennandi borg.mbl.is