Á morgnana er gengið í þögn

Markþjálfinn og ferðaskipuleggjandinn Sigrún Ásdís Gísladóttir.
Markþjálfinn og ferðaskipuleggjandinn Sigrún Ásdís Gísladóttir. Ljósmynd/Aðsend

„Ég lauk BA nám í HÍ í spænsku árið 2013 en BA ritgerðin mín fjallaði um Jakobsstíginn, upphaf pílagrímaferða um Spán og áhrif þeirra á land og þjóð,“ segir Sigrún eigandi fyrirtækisins Á vegum Jakobs sem skipuleggur gönguferðir á pílagrímaleiðum Spánar. „Ég kynntist Jakobsveginum fyrst þegar ég fór á spænsku námskeið með Háskólanum í Reykjavík til Burgos, en um þá borg liggur einmitt fjölfarnasta leið Jakobs á Spáni, El Camino Francés. Á morgnana á leið minni í skólann mætti ég oft fólki á göngu. Margir báru langa og sérstaka göngustafi og allir höfðu bakpoka með skel og ég dáðist af borgarbúum fyrir hversu duglegir þeir væru og miklir útivistarmenn. Fljótlega áttaði ég mig þó á að þetta var sama leiðin og pílagrímarnir fóru á leið sinni út úr borginni. Þetta vakti mikinn áhuga hjá mér á þessum gönguleiðum. Síðar gekk ég þessa leið ásamt manninum mínum, en langaði að kynnast þeim leiðum Jakobs sem minna eru gengnar og ná alveg niður að norðurströndinni.“

Gegnið í gegnum sjarmerandi þorp.
Gegnið í gegnum sjarmerandi þorp. Ljósmynd/Aðsend

Eins og að vera einn í heiminum

El Camino Norte eða Norðurleiðin liggur frá borginni Írún sem tilheyrir Baskahéraðinu og er skammt frá frönsku landamærunum. Leiðin er í kringum 850 kílómetra og endar í borginni Santiago de Compostela í Galicíu. „Leiðin liggur meðfram norðurströnd Spánar, þar sem skiptast á fallegar  borgir, lítil sjávarþorp, vænar og grænar sveitir. Svo er það El camino Primitivo eða Original Way eins og hún er líka kölluð en hún er ein elsta pílagrímaleiðin og liggur frá Oviedo í Austurias til Santiago de Compostela. Hún er um 330 km löng og liggur um sveitir Austurias, upp á fjalllendi sem gengið er eftir niður til Galiciu,“ segir Sigrún og bætir við að náttúran sé stórbrotin á þessu svæði. „Þetta er stundum eins og að vera einn í heiminum þó svo að leiðin sé vel merkt. Frá þessu svæði liggur svo leiðin niður til bæjarins Lugo í Galiciu og sameinast að lokum El camino Francés.“

Á leiðinni er margt að sjá og mörgum að kynnast.
Á leiðinni er margt að sjá og mörgum að kynnast. Ljósmynd/Aðsend

Miklar andstæður í landslagi

Sigrún er heilluð af svæðinu sem hún þekkir eins og lófana á sér og segir miklar andstæður mætast í landslaginu þar sem skiptast á strendur og fjöll. „San Sebastian er ein af fallegri borgum Spánar og það er stórkostlegt að sjá hana birtast af gönguleiðinni ofan af fjalli. Við kynnum okkur borgina, menningu og ekki síst matinn en tapas menningin er alveg einstök. Baskahéraðið allt er ein náttúruparadís. Baskar eru duglegt fólk og það er gaman að ganga um sveitirnar, sjá bæina og umhverfið þeirra. Það sem einkennir sveitirnar er þessi friðsæld, fuglasöngur og alls konar búpeningur sem gefur frá sér hin ýmsu hljóð. Það er auðvelt að gleyma hinu daglega lífi og njóta augnabliksins,“ segir Sigrún sem býður upp á fjórar ferðir um Jakobsveginn í ár. „Sú fyrsta er núna í byrjun júní og er 10 daga ferð en þá er farinn fyrsti áfangi Norðurleiðarinnar frá Írún til Bilbao. Leiðin hefur upp á allt að bjóða: borgir, þorp, strendur, grösug fjöll og grænar sveitir, þessi áfangi er frekar þægilegur til göngu.  Sú næsta er um miðjan júní, 14 daga ferð. Þá verður síðasti áfangi Norðurleiðarinnar farinn, frá Luarca í Austurias til Santiago de Compostella í Galicíu. Þessi ganga er meðalerfið.“ Í september verða svo tvær ferðir á vegum Sigrúnar en sú fyrri er El Camino Primitivo þar sem gengið er frá Oviedo í Austurias til Santiago de Compostella. „Hún er aðeins erfiðari en hinar tvær og lengri, en samtals eru göngudagarnir 14.“ Seinni ferðin verður svo í lok september og að sögn Sigrúnar sú auðveldasta til göngu því þá verða engar dagleiðir lengri en 25 kílómetrar.

Sigrún Ásdís segir gönguleiðina afskaplega fagra.
Sigrún Ásdís segir gönguleiðina afskaplega fagra. Ljósmynd/Aðsend

Fá næði til að hugsa

Aðspurð fyrir hverja ferðirnar séu segir Sigrún þær vera fyrir alla sem hafi gaman af því að stíga út fyrir þægindarammann og langi að gera eitthvað nýtt. „Ferðin er fyrir þá sem geta gengið 25-30 kílómetra á dag en þess má geta að það er alltaf gengið á stígum en undirlagið getur verið misjafnt. Á morgnana er gengið í þögn en yfir daginn er bæði hægt að ganga í hóp eða út af fyrir sig. Hver og einn stjórnar því sjálfur,“ segir Sigrún og bætir við að ferðin sé tilvalin fyrir þá sem þurfi næði til að hugsa um líf sitt og tilveru, finna nýja valkosti, möguleika og markmið. „Ferðin er fyrir þá sem vilja njóta náttúrunnar og vera í núinu langt frá dagsins amstri og öðlast nýjan kraft.“

Nánari lýsingar á öllum ferðunum og leiðunum má finna á vefsíðu Sigrúnarmbl.is