Fann taktinn á tónleikaferðalagi með Björk

Elín Edda ásamt Villa kærastanum sínum á hlaupum.
Elín Edda ásamt Villa kærastanum sínum á hlaupum. Ljósmynd/Aðsend

„Eftir á að hyggja var þetta bara eins og hugleiðsla fyrir mig því ég skokkaði alltaf bara frekar rólega og varð ekkert þreytt við þetta.“ Elín Edda er alin upp í miðbæ Reykjavíkur en er í dag búsett í Vesturbænum. Hún er ansi fjölhæf og á mörg áhugamál utan læknisfræðinnar og koma hlaupin þar sterkust inn. „Ég hef einnig mikla ástríðu fyrir ferðalögum, matargerð og söng.  Ég var í kórnum Graduale Nobili fyrir nokkrum árum og hann fékk það verkefni að syngja inn á plötu með Björk Guðmundsdóttur. Í framhaldinu fórum við með henni á tónleikaferðalag um heiminn. Á þessum ferðalögum uppgötvaði ég hvað það er magnað að skoða heiminn á hlaupum. Við stoppuðum stutt á hverjum stað og það var því iðulega það fyrsta sem ég gerði þegar við komum á nýjan stað að hoppa í hlaupagallann og búa til minn eigin útsýnistúr á hlaupum. Ég hef því náð að tvinna saman hlaupa- og ferðaáhugann og haldið áfram að hlaupa á ferðalögum um heiminn eftir að tónleikaferðalaginu lauk.“ Það kom fljótlega í ljós að hlaupin áttu vel við Elínu Eddu og fyrir tveimur og hálfu ári síðan hóf hún að æfa með meistaraflokk ÍR. „Eftir það hef ég tekið hlaupin á annað stig og fengið að kynnast því hvernig það er að fara í skipulagðar æfingabúðir og keppnishlaup erlendis. Nú er það svo að ég er að fara í mína aðra landsliðsferð erlendis og vonast til að geta gert meira af því á næstu árum.“

Fátt dásamlegra en að skoða nýtt umhverfi á hlaupum.
Fátt dásamlegra en að skoða nýtt umhverfi á hlaupum. Ljósmynd/Aðsend

Var samt aldrei neitt svakalega áhugasöm

Elín Edda segist ekki hafa verið mikið í íþróttum sem barn en alltaf verið góð og prófað sig áfram í sundi, frjálsum íþróttum, tennis og fleiru. „Ég var samt aldrei neitt svakalega áhugasöm og stundaði aldrei neina íþrótt í langan tíma. Þegar ég var í menntaskóla var ég meira að spá í félagslífinu og lítið að hreyfa mig.“ Annað er uppi á teningnum núna á fullorðinsárum þar sem Elín Edda hefur náð framúrskarandi árangri í hlaupaíþróttinni og náði nýlega öðrum besta tíma íslenskrar konu í maraþoni frá upphafi. „Aðdragandinn var langur, en ég ákvað eftir Reykjavíkurmaraþonið í fyrra að hlaupa mitt fyrsta maraþon í Hamborg um vorið 2019. Byrjaði á mikilli grunnþjálfun og styrk fram að jólum 2019, skellti mér svo í smá frí og afslöppun til Mexíkó og keyrði maraþonplanið formlega í gang í janúar 2019. Á æfingatímabilinu hljóp ég gott hálfmaraþon í Mílanó á 01:19:38 og fór í háfjalla æfingabúðir í Boulder Colorado,“ segir Elín Edda og bætir við að verkefnið hafi verið mjög krefjandi en um leið eitt það skemmtilegasta sem hún hafi tekist á við. „Það er að mörgu að huga og skipulagningin á hlaupinu sjálfu minnir á að skipuleggja langt ferðalag. Ég vissi að það myndi vera ákveðin kvíðastilling fyrir mig að vera búin að hugsa út öll þau atriði sem ég hefði stjórn á sjálf, en ég gerði líka ráð fyrir að eitthvað myndi fara úrskeiðis og sætti mig við að það er ekki hægt að hafa stjórn á öllum aðstæðum, til dæmis veðri. Ég var búin að hugsa mikið út í næringu í hlaupinu, hlaupabúnað og svefn. Svo endaði ég á að vera með í maganum helminginn af hlaupinu, sofa nánast því ekki neitt og kaupa örlagaríkt skópar einum og hálfum sólarhring fyrir hlaup.“ Þó eitt og annað hafi komið upp á í hlaupinu þá gekk allt vonum framar og Elínu Eddu leið vel þar sem hún var andlega undirbúin fyrir átökin. „Ég fór af stað á 4:00mín/pace eins og við þjálfarinn minn höfðum lagt upp með og ég hélt því nánast út allt hlaupið. Af myndunum úr hlaupinu að dæma þá var ég í banastuði, skælbrosandi og hress! Ég skipti hlaupinu upp í tímabil sem ég var búin að tileinka ýmsum aðilum. Það styrkti mig á leiðinni og þannig var að þó að ég hafi verið að farast í maganum þá þótti mér samt sorglegt þegar ég fattaði að ég væri alveg að verða búin með þetta. Ég fann fyrir svakalegum sárauka þegar ég kom í mark og minnist þess mjög skýrt að hafa sagt „þetta geri ég ekki aftur!“. Hins vegar þá náði vellíðunartilfinningin mjög fljótlega yfirhöndinni og dempaði niður þennan líkamlega sársauka. Ég var strax byrjuð að tala um að gera þetta aftur þegar ég var að staulast heim með Vilhjálmi kærasta mínum og Mörthu þjálfara sem voru með mér þarna úti. Nú eru liðnar rúmar tvær vikur frá maraþoninu og ég get ekki beðið eftir að byrja að æfa af fullum krafti í þessari viku.“

Elín Edda náði öðrum besta tíma ís­lenskr­ar konu í maraþoni …
Elín Edda náði öðrum besta tíma ís­lenskr­ar konu í maraþoni frá upp­hafi. Ljósmynd/Aðsend

Hvetur fólk til að lifa lífinu núna

Framundan er heilmikið um að vera hjá Elínu Eddu því næst á dagskrá eru Smáþjóðaleikarnir í Svartfjallalandi þar hún mun keppa fyrir Íslands hönd í 10.000 og 5.000 metrum á braut. „Ég stefni á annað maraþon síðar á þessu ári og fram að því langar mig að ná inn bætingum í styttri vegalengdum á götunni.“ Elín Edda hefur sankað að sér heilmikilli reynslu og fróðleik um hlaup frá því að hún fór að taka íþróttina föstum tökum og fannst tilvalið að miðla þessum upplýsingum til þeirra sem hafa áhuga. „Við Villi kærasti minn erum búin að vera með þá hugmynd í kollinum um nokkurt skeið að búa til hlaðvarpsþátt um hlaup. Við létum loks til skarar skríða fyrir skemmstu og erum búin að gefa út fyrsta þáttinn af Hlaupalíf Hlaðvarp. Hægt er að nálgast hann á helstu miðlum eins og spotify, itunes, android. Við munum einnig deila þættinum á instagramsíðum okkar elinedda og @villisvans og facebooksíðu þáttarins. Þetta er ein af þessum hugmyndum sem við náðum að ræða og útfæra meðan við vorum að hlaupa og dæmi um hvað hlaupin geta leitt af sér góða hluti,” segir Elín Edda að lokum og bætir við að henni finnist mikilvægt að hvetja fólk til að lifa lífinu núna og láta drauma verða að veruleika.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert