Hróður Knúts hefur víða farið

Þáttastjórnandinn Ólafur Örn stillir sér upp fyrir myndavélarnar í Falkenberg.
Þáttastjórnandinn Ólafur Örn stillir sér upp fyrir myndavélarnar í Falkenberg. Ljósmynd/Atli Arnarsson

„Í bænum búa um tuttugu þúsund manns og á sumrin iðar hann af lífi og ferðafólki. Sveitirnar og skógarnir þarna í kring eru gullfalleg og sjórinn hlýr, alla vega á sumrin. Svo er Ätran-áin full af laxi,“ segir Ólafur Örn Ólafsson þáttastjórnandi.

Viðmælandinn Knútur Kristjánsson reiðir fram kræsingar fyrir gestina frá Íslandi.
Viðmælandinn Knútur Kristjánsson reiðir fram kræsingar fyrir gestina frá Íslandi. Ljósmynd/Atli Arnarsson

Viðmælandinn í þættinum er Knútur Kristjánsson, íslenskur kokkur sem á rætur sínar að rekja til Hafnarfjarðar en hefur unnið í Svíþjóð um árabil. „Knútur er mjög metnaðarfullur og áður en hann flutti til Falkenberg vann hann meðal annars lengi á Michelin-stjörnustaðnum Oaxen í Stokkhólmi og fleiri háklassastöðum. Hann hefur, þrátt fyrir að vera ungur að árum, náð langt í sínu fagi og lent ofarlega í keppninni um besta matreiðslumann Svíþjóðar. Knútur vinnur á eina ,,fine dining”-staðnum í Falkenberg en hann heitir Kjöket og er staðsettur á Spa hóteli. Hróður hans hefur farið víða og kemur fólk um langan veg til að prófa framúrstefnulegan mat sem hann framreiðir.“

Knútur er fjölhæfur og hefur náð langt í sínu fagi …
Knútur er fjölhæfur og hefur náð langt í sínu fagi þrátt fyrir ungan aldur. Ljósmynd/Aðsend

Að sögn Ólafs Arnar er Falkenberg pínulítill bær þar sem hægt er að skoða allt það markverðasta í stuttum göngutúr. „Bærinn er gamall og fallegur að skoða. Í gegnum hann miðjan rennur laxveiðiá sem er gaman að labba meðfram og ströndin er líka skemmtileg. Það eru skógar sem umkringja bæinn og þar er gaman að fara og fá sér sundsprett í tjörnum og vötnum sem eru þar úti um allt.“ Matarmenningin er greinilega í hávegum höfð í bænum og hvetur Ólafur Örn ferðalanga til að gera sér ferð til Falkenberg, þó það væri ekki einungis nema til að gæða sér á einum af réttum Knúts. „Svo er líka upplagt að fara á Lilla Napoli en þar fékk ég sjúklega góðar pizzur. Þar er reyndar ekki hægt að koma beint inn af götunni í slæsu, því það er svo mikið að gera þar að það þarf að vera búið að panta að minnsta kosti degi fyrr hvað þú ætlar að fá margar pizzur til að borða þann daginn. Á Borgmestergården er geggjað kaffi og morgunverður og þótt ég hafi ekki fengið neinar kökur þar, þá litu þær afar vel út.“

Kokkaflakk er fram­leidd­ur af SKOT producti­on og verður sýnd­ur í op­inni dag­skrá í Sjón­varpi Sím­ans í kvöld en alla þáttaröðina má finna í Sjón­varpi Sím­ans Premium.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert