Svipmyndir frá Saltey

Greinarhöfundur við Hákarlaflóa. Fleiri hákarlaskoðarar í bakgrunni.
Greinarhöfundur við Hákarlaflóa. Fleiri hákarlaskoðarar í bakgrunni. Ljósmynd/Aðsend

Grænhöfðaeyjar eru tíu talsins og rísa úr Atlantshafinu 570 kílómetra vestur af Grænhöfða í Senegal, vestasta odda meginlands Afríku. 

Þeir, strákarnir við Hákarlaflóa, á austurströnd Salteyjar, höfðu raðað upp gúmmískóm á jörðina handa okkur að máta þegar við stigum útúr 20 manna rútunni. Þeir, strákarnir, brostu breiðbrosi, kátir, göntuðust hver við annan; lífsglaðir, brúnir á skinnslit, afkomendur portúgalskra þrælasala og afrískra ambátta, falleg kynþáttablanda. Þeir leigðu skóna á tvær evrur parið, völdu þá á okkur með smiðsauga hins vana skósala og réttu okkur síðan að máta; tóku við greiðslu. Við fórum úr eigin skóm og bisuðum síðan við það berkríkuð á stuttbuxunum að draga á okkur gúmskæðin.
Kofi við Hákarlaflóa á Saltey.
Kofi við Hákarlaflóa á Saltey. Ljósmynd/Aðsend

Svo er vaðið útí volgan sjóinn eftir klöppunum. Pör leiðast gjarna til þess styðja hvort annað á ósléttu grjótinu sem hálfsárt er að stjákla á þrátt fyrir skóbúnaðinn. Sólin skellihlær að tilburðum okkar, brennheit í heiði. Vindurinn syngur hlýr, kominn frá Sahara að blása um Saltey einsog hann hefur gert í þúsaldir og sorfið hana í leiðinni, flatt hana út, klætt hana úr nánast öllum fjöllum, hæðum, hraunum og hólum; reytt burt mestallan gróður, sem kannski var aldrei. Sá sem eftir er hjarir þyrstur og þyrrkingslegur. En vindurinn hefur líka fært Saltey þessar löngu hvítu baðstrendur gerðar úr eyðimerkursandi þar sem sólsleikjur – nábleikir norðurheimsmenn – eiga sinn draumastað; og vindurinn er einnig leikfang þeirra sem stunda flugbrettaíþróttir; hefur þá á loft þöndum flugseglum við ströndina. Og hann er náttúruleg vifta, þurrkar andrúmsloftið, kælir mann, svo að maður svitnar ekki einusinni þótt hitinn fari í 25 – 30 stig um miðjan daginn.

Við vöðum aðeins lengra. Sjórinn glitrar kvikur, marglitur, gylltur sumstaðar, blár eða grænn annarstaðar, gagnsær. En utar er brimgarðurinn hvítbrosandi.

Ég er kominn upp að hnjám í sjónum, og vel það, svo að einstaka glettin sletta nær að bleyta lær og klof, jafnvel rump og mjóhrygg. Ekkert við því að gera. Maður verður hvorteðer ekki rassblautur lengi í hitanum og golunni þegar uppúr er komið.

Menn – við – safnast saman í hálfhring að tillögu innlends fylgdarmanns úr hópi strákanna í landi, draga upp farsíma, kveikja á myndavél, munda tólið, stara í vatnið. Aðstoðarmaðurinn er með einhverjar fiskúrgangstutlur í plastflösku. Dýfir henni í sjóinn, sýgur inn í hana vökva og sprautar síðan úr henni skýi í gagnsæið. Og þeir eru ekki lengi að renna á lyktina, hákarlarnir, koma strax syndandi, kannski fimm, sex, sjö ...; líða hjá með fettum eða renna sér hreinlega á milli fóta manni, kippast við ef tekið er um sporðinn á þeim. En reyndar er þetta bara ungviði, svona eins metra langt hvert og varla það. Þeir fullorðnu hinsvegar á sveimi aðeins utar að gæta þeirra og flíka svörtum bakuggum uppúr sjónum. Þetta eru hákarlar af tegund sem nefnist gulháfur eða sítrónuháfur á íslensku en heitir „tubarão-limão“, með þessu nefmælta ã-i portúgölskunnar sem er opinbert tungumál Grænhöfðeyinga þótt þeir tali sín á milli kreólsku, sambland af móðurmáli herraþjóðarinnar fyrrverandi og afrískra tungna þrælanna fyrr á tíð ...

Korktappar í saltpækli ...

Við stöndum á gígbarminum; komin þangað upp í rútunni, horfum niðrí gíginn, yfir innhlíðar hans, þurrar og vindsorfnar einsog allt hérna. Í gígbotninum eru stórir saltvinnslureitir, ferhyrndir; vinnslan komin mislangt á leið. Þar sem allur sjór hefur gufað upp eru þeir þaktir hvítu saltinu en fjólubláir þar sem minna hefur gufað upp; uppgufun samt orðin talsverð. Sumstaðar eru salthraukar. Fremst er lón, brimsalt, miklu saltara en Dauðahafið, er okkur sagt. Sjór síast inn í gegnum jarðlögin. Þarna niðri eru nokkur úr hópnum okkar. Við þykjumst bera kennsl á þau þar sem þau fljóta eins og litlir korktappar í vatninu. Dásamlegt sögðu þau, eftirá.

Ströndin við Santa Maria – kílómetrar og kílómetrar af hvítum …
Ströndin við Santa Maria – kílómetrar og kílómetrar af hvítum sandi. Ljósmynd/Aðsend

Pedra de Lume, eiginlega kveikisteinn, heitir þessi gígur; varð til í sprengigosi fyrir milljón árum.

Við höfðum komið akandi frá hótelunum sunnar á eynni, í og við bæinn Santa Maria. Þetta er ekki langur akstur; eyjan er ekki nema 216 ferkílómetrar; íbúar tæp 26.000. Þegar við nálgumst Pedra de Lume sjáum við annan grafreita eyjarinnar og hálfbyggða hótelsamstæðu sem Ítalir ætluðu að reisa fyrir nokkrum árum en svo kom kreppa í Evrópu. Hálfköruð húsafylkingin minnir mann á kvikmyndarlegt virki í eyðimörk, svona úr fjarlægð, og mér flýgur Arabíu-Lárens í hug. Þarna er líka kirkja með hvíta útveggi, blámáluð í kringum glugga og dyr, með bláa hurð, og lítinn kross á mæni. Þakið okkurrautt. Það eru líka nokkrir ryðgaðir saltprammar í fjörunni. Einskonar skíðalyfta liggur úr manngerðu skarði í gígnum niðrað sjó. Þessa leið voru saltbaggarnir látnir gossa niðreftir. Þarna er líka yfirgefinn skóli. Flestir íbúar fluttir burt. Saltvinnsluæðið úti, draumurinn búinn. Fyrr á tíð var þarna saltvinnsla, frá 16. öld og framum miðja 20. öld. Saltið eftirsótt. Skip komu úr ýmsum áttum eftir því. Mörg lögðu upp til Brasilíu með það.

Portúgalar finna Grænhöfðaeyjar um miðja 15. öld. Þær eru þá óbyggðar. Antonio da Noli er sagður hafa komið fyrstur manna til Salteyjar. Honum þótti saltmagnið svo mikið í gígnum að hann líkti því við snjóinn í Ölpunum. Skipulagða saltvinnslu má rekja til enda 18. aldar. Nú á dögum er framleitt lítilræði af salti, miðað við fyrri tíma. Til heimabrúks á eynni og líka í ýmsar snyrtivörur og svokallaða sjávarmeðferð á Ítalíu.

Vegna saltsins heitir eyjan Ilha do Sal, þ.e. Saltey ...

Sólin í Sankti Maríu ...

Hitabeltissólin skín beint á skallann á manni hér á Saltey þótt maður taki varla eftir því enda vindurinn í liði með sólinni. Sífelld norðaustanáttin hefur sveigt þau fáu tré sem hjara; engu líkara en að þau líti undan, snúi höminni uppí vindinn.

Saltey er ein kulborðseyja. Á þeim blæs meira en á skjólborðseyjunum. Stærst Grænhöfðaeyja er Santiago sem við getum kallað Jakobsey; tæpir 1000 ferkílómetrar, er skjólborðseyja, fjöllótt og all-gróðursæl. Þar er höfuðborgin Praia. Skammt undan er Fogo, þ.e. Eldey. Þar er hæsta fjall eyjanna, Pico do Fogo, sumsé Eldtindur, 2829 metrar; eina virka eldfjallið á þessum eyjum sem jarðeldar skópu. Síðast varð þar gos 2014-2015

Saltvinnsla í Pedra de Lume.
Saltvinnsla í Pedra de Lume. Ljósmynd/Aðsend

En snúum aftur til Salteyjar. Þessi strönd hér við Santa Maria er hreint ótrúleg, kílómetrar og kílómetrar af hvítum sandi, og utar sést hvissandi aldan brotna og enn utar er safírblár særinn, Atlantshafið í blíðum ham. Það siglir skúta hjá þöndum seglum; tónlist um borð, fólk að njóta lífsins. Og flugbrettamennirnir svífa um við ströndina, einsog fuglager.

Og svo er maður kominn á Bryggjuna, með stórum staf, því að það er bara ein bryggja í Santa Maria. Nokkrir trillukallar eru komnir að með afla. Enginn landburður af fiski en samt nokkrir tittir. Einn sjóarinn stendur þarna á bryggjunni, ungur maður á stuttbuxum og stuttermabol með hattkúf á höfði, og hefur dregið á land hinn vænsta túnfisk, svona rúmlega eins metra langan, þykkan og glæstan. Sjómaðurinn mundar hníf; ætlar að gera að fengnum. En þetta er einhver bévítans kuti sem bítur ekki á blautan skít, og því síður á silfurgljándi túnfiskinn. En hann sargar og sverfur og tekst loks að rista fiskinn á kvið. Slorið vellur út. Hann þreifar um magann, ber kutann að, nær að rjúfa gat og kannar með annarri hendinni innhaldið. Allt í einu dregur hann höndina út, heldur á einhverju í lokuðum lófa en opnar hann svo framaní glápandi ferðamann sem rekur upp stór augu þegar í ljós kemur lítill og lögulegur sæhestur, blóðugur og auðvitað dauður. Sjómaðurinn bregður honum í fötu fyllta sjó, skolar af honum og gefur hann síðan túrhestinum sem veit eiginlega ekki hvað hann á að gera við hnossið/hrossið ...

Mýkt og músík ...

Í Santa Maria búa ríflega 6.000 manns. Þar er eiginlega bara ein aðalgata og við hana eða í grennd við hana er allt. Þar er barinn Buddy: mannþröng við barborðið, þéttsetinn bekkurinn í litlum salnum sem er eiginlega bara stórt herbergi; bekkir og borð utanmeð, fólk útá stétt líka í blíðu kvöldinu.

„Sandlægjur“ og „sólsleikjur“ njóta lífsins á ströndinni við Santa Maria. …
„Sandlægjur“ og „sólsleikjur“ njóta lífsins á ströndinni við Santa Maria. Flugbrettamenn, eins og fuglager, í bakgrunni. Ljósmynd/Aðsend

Luis situr á lágum palli innst umkringdur ýmiskonar raftólum til að flytja og magna tónlist. Hann hefur gítar í fanginu og hljóðnema næstum því uppí sér. Mér er sagt að hann sé Spánverji sem skaut hér rótum fyrir mjööög löngu, orðinn heimamaður. Náungi í kringum fimmtugt, sköllóttur, horaður en syngur af miklum krafti. Núna er hann að syngja Don't Worry, Be Happy og viðstaddir taka margir undir viðlagið í þessari gömlu sumarsmellu.

Tvær ungar konur dansa saman á miðju gólfi þar sem varla er pláss fyrir fleiri. Önnur er enskuleg í fasi og fatnaði, grannvaxin, með slegið ljóst hár niðrá hálft bak, í stuttum blómakjól með hlýrum, hefur fengið sér í eina tána, jafnvel tvær – ekkert tiltökumál hér á þessum stað. Hún dansar með rykkjum og hnykkjum, stígur skarpt til jarðar, hvetur grund frjálsum fæti, einsog Hóras kvað, en stirðum liðamótum. Hin konan er svört, í reynd óvenju dökk fyrir heimamann að vera, hnellin ung Salteyjarstúlka sem látið hefur hrokkið hárið vaxa svo að það er í afróstíl hippatímans og mussan hennar er líka hippaleg. Hún dansar ljúflega, sveigir sig eftir hljómafallinu með þessari áreynslulausu mýkt og músík í kroppnum sem aðeins býr í þeim sem fengið hefur slíkt í vöggugjöf.

Luis er farinn að svitna, syngur af svo miklum krafti en samt á slakan máta sem kveðst einhvernveginn á við einkunnarorð eyjarskeggja en þeir flíka þeim gjarnan á spjöldum eða á kortum handa erlendum streitubúkum að kaupa: NO STRESS!

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert