Fegurð Íslands í forgrunni

Þættirnir eru allir teknir utandyra þar sem íslensk náttúra fær …
Þættirnir eru allir teknir utandyra þar sem íslensk náttúra fær að njóta sín. Ljósmynd/Aðsend

Víða verður farið um landið í þáttunum en í fyrsta þættinum er Norðurland eystra í forgrunni. „Við heimsækjum Mývatn og Tungulendingu í Tjörnesi sem er skammt fyrir utan Húsavík. Við Mývatn hittum við Anton Birgisson ferðamálafrömuð og fjölskyldu hans og veiðum silung í miðnætursólinni við Mývatn. Við gufusuðum silunginn í gufuhver í Bjarnarflagi í Mývatnssveit og bárum fram á beði af stúfuðu spínati. Þá förum við á andareggjaveiðar í Slúttnesi, sem er eyja í Mývatni, og útbúum mývetnska snittu. Eftir ævintýri okkar á Mývatni ókum við til Tungulendingar þar sem við eldum upp úr mývetnsku kindahakki, hnoðum það í bryggjubollur, með Skjálfanda í bakgrunn fyrir ástfangna ferðamenn.“

Gufusoðinn silungur með stúfuðu spínati. Allar uppskriftir má finna á …
Gufusoðinn silungur með stúfuðu spínati. Allar uppskriftir má finna á vefsíðu Ragnars Freys. Ljósmynd/Aðsend

Jók á stoltið

Þættirnir búa yfir þeirri sérstöðu að vera teknir utandyra undir misbjörtum íslenskum himni og að sögn Ragnars Freys gat það verið mikil áskorun á köflum að elda úti í guðsgrænni náttúrunni. „Ég er auðvitað eins og flestir aðrir sem alast upp í nútímalegu eldhúsi með blástursofn og span- eða gashellur í kringum mig. Þarna skárum við við nögl og elduðum allt á opnum eldi eða yfir brennandi kolum. Ég var bara með pönnu eða pott og bara bretti og hníf – eldamennskan er því ofureinföld og allir ættu að geta leikið hana eftir. Ef ég get eldað ljúffengan mat við þessar aðstæður ættu allir að geta gert það heima í eldhúsi.“ Í þáttunum er íslensku hráefni hampað til hins ýtrasta og markmiðið að notast einungis við hráefni úr næsta nágrenni. „Við Íslendingar njótum þess að hafa aðgang að ótrúlega fersku hráefni. Í þessum þáttum leggjum við áherslu á þann mat sem hefur haldið lífi í okkur Íslendingum í gegnum árhundruðin, dásamlegt íslenskt lambakjöt, spriklandi ferskt sjávarfang og ljúffengt íslenskt grænmeti og kryddjurtir. Og svo smjör auðvitað, það verður að vera smjör!“

Sjálfur hefur Ragnar ferðast töluvert um landið en segir að vinnan við gerð þáttanna hafi aukið á stolt hans gagnvart landinu sem við búum í. „Ég vissi að Ísland væri fallegt land en gerði mér enga grein fyrir því að það væri jafn magnað og upplifunin bar vitni. Ég vona að sú tilfinning skíni í gegn í þáttunum. Fyrir mig eru þessir þættir ákveðin sálarró, tónlistin, matseldin og náttúran taka mann einhvern veginn úr amstri hversdagins og yfir í allt annan takt.“

Matreiðsluþættirnir Lambið og miðin eru framleiddir af framleiðslufyrirtækinu Kraumar í samstarfi við Lækninn í eldhúsinu. Þeir eru sýndir á fimmtudagskvöldum klukkan 20:10 í opinni dagskrá í Sjónvarpi Símans. Allar uppskriftir má svo finna á vefsíðu Ragnars Freys.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert