Miðaldra kona kynnist fjallahjólinu

Pistlahöfundur á fleygiferð.
Pistlahöfundur á fleygiferð. Ljósmynd/Unnur Magnúsdóttir

Margir spyrja hvernig ég get æft svona oft í viku. Málið er að ég verð að æfa svona oft. Ég hef einfaldlega svo lítinn bakgrunn í öllum þessum íþróttum. Það eru ýmsir sem halda að ég hafi verið íþróttaálfur þegar ég var yngri. Til að taka af allan vafa, þá hataði ég allar íþróttir á mínum yngri árum. Fannst jafnleiðinlegt að stunda þær eins og að horfa á þær. Helst kannski að ég hafi reynt að þykjast vera áhugasöm þegar ég sá Maradonna spila í Napoli. Það var samt bara vegna þess að ég vissi að það myndi alltaf þykja smart að hafa gert það, ekki afþví að mig langaði svo mikið á þennan blessaða leik. Að hafa séð Maradonna spila trompar yfirleitt allt. Þegar ég þarf að tala um fótbolta segi ég yfirleitt. Eftir að ég sá Maradonna spila í Napoli þá fannst mér bara hápunktinum náð og ég hef bara ekki fundið meira spennandi leik. Ég þróaði samt með mér áhuga á íþróttum eftir að börnin fæddust en hann var mjög skilyrtur við þær íþróttagreinar sem þau voru að spila hverju sinni. 

Fí Landvættahópurinn saman kominn á æfingu.
Fí Landvættahópurinn saman kominn á æfingu. Ljósmynd/Róbert Marshall

Ég hef samt alltaf dáðst af afreksíþróttafólki og íhugaði lengi hvort að ég gæti ekki orðið Íslandsmeistari í einhverju sem væri ekki of erfitt. Það er til dæmis keppt í pönnukökubakstri á Landsmóti UMFÍ, kannski væri það eitthvað fyrir mig? Svo fann ég þetta, ég verð Íslandsmeistari í blóðgjöf. Það er ekkert svo flókið, mæta á staðinn, láta taka smá blóð og fá kaffihlaðborð í verðlaun. Þeir sem gáfu 100 sinnum fengu viðurkenningu og mynd af sér í blöðunum, þetta steinlá alveg. Þegar ég flutti til Reykjavíkur ákvað ég að hefja glæstan feril sem blóðgjafi. Nei, þú ert nýkomin frá Suður Ameríku, þú mátt ekki gefa blóð. Næstu 15 ár eða svo fóru í að láta hafna mér, þú ert ólétt, þú ert með barn á brjósti, þú ert að koma frá vafasömu landi, þetta var bara ekkert að ganga alltof vel. Loksins gekk allt upp, ég mætti í Blóðbankann og þeir tóku próf. Ásdís mín, þú mátt ekki gefa blóð, þú ert bara með svo lélegt blóð. Ég var ekki einu sinni sett á varalistann ef allir blóðgjafar í landinu væru uppteknir að þá yrði hringt í mig. Eins og konan sagði, það er bara ekki öllum gefið að geta gefið blóð. Þegar ég heyri auglýsingar frá Blóðbankanum, allir geta gefið blóð, þá finnst mér vanta, sko allir nema Ásdís. 

Þegar ég setti upp maí æfingarplanið þá fannst mér það eitthvað svo tómlegt. Það vantaði heila íþróttagrein, það eru víst engin gönguskíði á sumrin. Þó að ég hafi sett upp 8-10 æfingar á viku, þá eru þær sannarlega mislangar og miserfiðar. Ég reyni að hafa eitt langt hlaup í viku, svo eru 1-2 stutt, svona 5-6 km. Það er bara til að vöðvarnir muni hvað þeir heita. Reyndar er farið að styttast í ansi margar þrautir þannig að hlaupin eru farin að lengjast. Ég stilli þessu líka upp að þegar ég er með krakkana þá eru aðeins færri æfingar.

Mikil stemning á æfingu hópsins.
Mikil stemning á æfingu hópsins. Ljósmynd/Ásdís Ósk Valsdóttir

Þegar ég tók ákvörðun um fara í Landvættina þá grunaði mig að þetta tæki tíma. Það sem ég vissi ekki var að mér þætti þetta svo svakalega gaman að ég liti ekki á þetta sem kvöð heldur eintóma gleði. Þegar ég fer á langar hjólaæfingar er ég ekkert að líta á klukkuna og vona að þessu fari að ljúka. Ég er bara úti að leika með skemmtilegu fólki. Önnur hliðarverkun er að ég þarf að borða meira. Þetta er bara í fyrsta skipti í áratugi sem ég get bara borðað allt sem ég vil og ég grennist. Eitthvað sem ég sá nú ekki alveg fyrir en ætla ekki að kvarta yfir því. 

Eins og aðrir þá hef ég bara 24 tíma í sólarhringnum. Það segir sig sjálft að kona bætir ekki inn 8-10 æfingum ofan á allt annað. Ég var þegar búin að taka út sjónvarp en það dugði ekki til því að ég á erfitt með kvöldæfingar. Þá sofna ég seint og næ ekki að vakna kl. 05:00. Líkaminn er bara ekki tilbúinn að fara að sofa beint eftir æfingu sem líkur kl. 22.00. Hvað gerir kona þá? Ég tók ákvörðun um að sleppa bara öllu nema börnunum, vinnunni og æfingunum. Þetta er tímabil sem þarf allan minn fókus. Í febrúar hætti ég að deita. Þetta var áskorun frá einum af mínum þjálfurum að taka mér pásu frá Tinder í mánuð, pínu eins og veganúar. Ég ákvað að prófa það og svo bara allt í einu átti ég svo mikinn tíma afgangs. Eftir að ég var búin að úthýsa sjónvarpi og Tinder, gat ég æft eins og ég vildi án þess að þurfa að fórna neinu öðru, eins og tímum með krökkunum. Margir fá smá áfall þegar ég segist nú ekkert æfa svo mikið, bara svona 2-3 tíma á dag. Fáir virðast finna tímann í það. Þá brosi ég bara og spyr hversu lengi þeir horfa á sjónvarp. Oft kemur svarið, bara alls ekkert svo mikið, bara svona 2-3 tíma á dag. Ég fæ líka oft spurninguna hvort að ég sé fíkill eða alkólisti því þessi hegðun sem ég er farin að sýna sé svona dæmigerð fíklahegðun. Þessu er auðsvarað. Ég náði aldrei tökum á áfengi. Ég prófaði að drekka þegar ég var 21 árs. Fannst bæði áhrifin og bragðið vont þannig að ég hætti bara að drekka 21 árs og hef hvorki prófað að reykja né eiturlyf.

Ég hef hitt svona fólk áður, fólk sem var að undirbúa sig fyrir ákveðið markmið og „fórnaði“ öðru í staðinn. Ég skildi þetta aldrei. Hvað meinar þú, hefur þú ekki áhuga á að deita eða gera hitt eða þetta? Núna er ég þetta fólk og það er annað fólk sem skilur ekkert í mér.

Einn af kostunum við að byrja að stunda íþróttir korter í fimmtugt er að vöðvarnir eru meira og minna ónotaðir. Ég hugsa að mínir séu svona 5 ára miðað við notkun og eiga því miklu meira en nóg eftir.

Þar sem ég kunni ekkert að hjóla úti, ákvað ég að skrá mig á hjólaæfingar hjá Hjólreiðadeild Breiðabliks. Þetta er eitt af fáum félögum sem heldur úti nokkrum getustigum, A, B, B- og C. Ég skráði mig í C og mætti á fyrstu æfinguna. Hún gekk bara nokkuð vel fyrir utan eitt smáatriði. Við vorum ekki búin að hjóla lengi þegar þeir sem voru að hjóla á undan mér byrjuðu að sveifla höndunum. Þetta voru allskonar hreyfingar og gífurlega samhæfðar, allir í takt, þ.e. allir nema ég. Ég var ennþá að læra að halda jafnvægi á hjólinu. Ég renndi yfir inntökuskilyrðin í huganum, gat verið að ég hefði skráð mig í rangan flokk, var þetta eitthvað svona dans á hjólum dæmi. Upplifunin var svona svipuð og að vera á fótboltaleik og allir gera ölduna.  Á næsta stoppi var farið yfir þetta. Þetta voru sem sagt mjög útpældar leiðbeiningar um hindranir á veginum. Ef það var hola þá var veifað svona, ef það var hjólari á móti þá var veifað á annan hátt. Eftir smá stund var ég farin að geta veifað líka og fannst ég hrikalega góð. Eftir nokkrar æfingar ofmetnaðist ég svo gífurlega að ég skráði mig í morgunæfingu, það er B hópur. Var svo heppin að Hjalti var þjálfari. Ég hef þekkt hann lengi, eða alveg síðan hann byrjaði sem sumarnemi hjá mér þegar ég vann hjá EJS. Hjalti er gífurlega ljúfur drengur. Þessi æfing gekk alveg ágætlega. Hópurinn þurfti bara að bíða aðeins eftir mér. Voru búin að fá sér latté og skella sér í hand- og fótsnyrtingu þegar ég ég náði þeim. Veit ekki alveg með þau en ég fékk hinsvegar 10 kórónur eftir þessa ferð á Strava og mikið hrós frá Strava um dugnaðinn í mér. Hjalti setti hins vegar inn reglu eftir þessa æfingu. Lágmarksgetustig fyrir morgunæfingar er B, það hvarflaði sko ekki að mér að taka þetta persónulega. Þetta var pottþétt útaf einhverjum öðrum.

Götuhjólaæfingar duga hins vegar ekki eingöngu þegar kona er að fara í Bláalónsþrautina því það er fyrir fjallahjól. Ég var svo heppin að kynnast Dísu og Dóra, eigendum Fjallakofans á Siglufirði um páskana. Var að fara yfir vesenið með að þurfa að kaupa 2 hjól á sama tíma. Dísa skildi mig og bauð mér að fá hjólið sitt lánað, bæði fyrir æfingar fyrir Bláalónið sem og í keppnina sjálfa. Þetta var virkilega vel boðið og ég er mjög þakklát fyrir það.

Það sem stendur upp úr bæði hjá Breiðablik og FI Landvættir er hvað allir eru góðir og þolinmóðir. Ég reyni örugglega á þolrifin þegar ég er með hvað ef spurningarnar mínar, pínu eins og fimm ára barn. Það er hins vegar alveg sama við hvern ég tala og hvað mig vantar. Þetta er útskýrt þar til ég skil þetta og mér líður vel og örugglega. Ég hef áttað mig á því að það er engin spurning of vitlaus og ég er pottþétt, held ég, aldrei fyrsta manneskjan í heiminum sem spyr að þessu. Þannig að ef þú ert að stíga þín fyrstu skref þá er bara að spyrja nógu mikið. Ég fæ alltaf svar sem er hrokalaust og ég upplifi aldrei að neinum finnist ég of vitlaus til að gera eitthvað. Málið er nefnilega einfalt. Það hafa allir verið byrjendur og lélegir í upphafi. Allir nema Hákon Hrafn þjálfari hjá Breiðablik, ég hef fyrir því áreiðanlegar heimildir að hann hafi fæðst hjólandi.

Ég ræddi fjallahjólaæfingaleysi við vinkonur mínar í Breiðablik. Þær voru boðnar og búnar að koma út að leika. María Sæmundsdóttir fór með mig í fyrstu ferðina. Ég sótti hjólið hennar Dísu í bílskúrinn og sagði, er þetta ekki bara ansi gott hjól. Jú sagði María en bætti svo við, Ásdís mín, það er samt betra að snúa stýrinu fram. Við fórum í Heiðmörkina, þvílík forréttindi að hafa svona útivistarsvæði í bakgarðinum. 

Daginn eftir fór Halldóra Matthíasdóttir Proppé með mér. Hún stakk upp á því að hittast við Hagkaup í Garðabæ. Það er snilld, ég kann að festa demparann (afþví að María kenndi mér það),  sem og að skipta um gíra og get því hjólað á malbiki. Þetta er líka stutt fyrir mig. Ég ákvað að taka göngustíginn hjá Arnarnesveginum og hjóla þá leiðina. Það gekk samt ekki betur en svo að allt í einu sá ég IKEA. Tók aðra ranga beygju og endaði í Fjarðarkaup. Eitthvað var Halldóru farið að lengja eftir mér þannig að hún hringdi. Ásdís mín, hvar ertu?  Ég er í Fjarðarkaup, nú sagði Halldóra, sagði ég ekki Hagkaup. Ég íhugaði í millisekúndu að segjast hafa misskilið hana en viðurkenndi svo bara að hafa villst af leið. Hún kom til mín, fannst það öruggara.

Ég hef nefninlega fullt af góðum kostum, rata er bara ekki einn af þeim. Fáir hafa líklega orðið glaðari en þegar kortaöppin komu í símana og hægt var að keyra eftir þeim. Þegar ég flutti til Reykjavíkur frá Dalvík leigði ég í Hlíðunum með Huldu vinkonu og mömmu hennar. Hulda var svo elskuleg að lána mér bílinn niður í Háskóla Íslands. Ég keyrði beina leið en fannst ég vera pínu lengi á leiðinni og allt í einu sá ég skilti sem stóð á Breiðholt, Keflavík. Ákvað að það væri því best að snúa bara við og keyra aftur sömu leið til baka. Þarna voru engir gsm eða google maps til að redda konu.

Fall er fararheill og hjólatúrinn með Halldóru var algjörlega frábær og ég orðin aðeins öruggari á hjólinu. 

25.maí var síðan komið að Hjólabúðum Landvættanna. Nei, við fórum ekki saman að kaupa hjóladót heldur voru þetta tveir pakkaðir dagar af hjólaferðum.

Að venju sendi Brynhildur Ólafsdóttir annar af forsvarsmönnum FI Landvætta út nákvæman upplýsingapóst fyrir helgina. Ólíkt póstinum sem kom fyrir Landmannalaugar sem olli töluverði stresskasti þá fannst mér þessi bara alveg frábær. Þar spilaði helst inn í að ég kannaðist við megnið af því sem var í póstinum. Þetta voru hugtök sem ég þekkti og ég var búin að hjóla ansi mikið, reyndar bara búin að fara tvisvar á fjallahjól eða samtals 37,7 km. Ég er nefnilega farin að tala hjólísku.

Hjólað út í náttúrunni.
Hjólað út í náttúrunni. Ljósmynd/Ásdís Ósk Valsdóttir

Tilgangurinn með þessum æfingabúðum er ekki að mastera Bláa Lónið heldur að undirbúa okkur sem best fyrir þrautina. Nota hjólið sem við ætlum að nota, prófa útbúnaðinn og mikilvægast af öllu. Læra að vera sjálfbær, geta græjað bilaða keðju eða slöngu ef það springur á dekkinu. Þarna kann ég reyndar ekkert þó að ég hafi í gamla daga alveg getað þrætt keðju upp á tannhjól. Þetta átti að snúast um úthald og að venjast hnakkinum. Við fengum mjög ítarlegar leiðbeiningar um hvernig krem átti að bera á og hvar. Hnakksærindi eru nefninlega ekkert grín, ég get sko alveg vottað það, því eftir fyrstu hjólatímana mína leist mér bara alls ekkert á blikuna. Prófa hvaða nesti við vildum nota í Bláa Lónið og hvaða fatnað okkur leið vel með.

Við fengum lista yfir hvaða græjur við þurftum að eiga fyrir þrautina. Ég ákvað að skella mér í Fjallakofann og kaupa það sem vantaði upp á. Fannst það skynsamlegast þar sem hjólið er jú þaðan. Fann í leiðinni hjólaföt fyrir keppnina. Þrátt fyrir að vera ekki með langan hjólaaldur þá hef ég prófað nokkrar buxur. Flestir vilja kaupa hjólabuxur með axlaböndum en ég var ekki alveg að fíla þær. Mér finnast böndin óþægileg og svo er meiriháttar mál ef það þarf að skreppa á salernið.  Fara úr jakkanum, peysunni og bolnum til að komast að buxunum. Ég fann buxur án axlabanda í Fjallakofanum og það verður að játast að það bara hentar mér svo miklu betur, að létta á sér í náttúrunni án þess að þurfa að berhátta sig alveg er bara eitthvað svo meira ég. Þær eru líka dásamlega mjúkar og þægilegar og ég finn ekkert fyrir neinum hnakksærindum í þeim. Það skiptir nefninlega höfuðmáli að vera í góðum hjólabuxum. Skemmtileg hjólaferð getur breyst í martröð ef hjólari fer að finna fyrir óþægindum á þessu svæði og kannski 15-20 km í mannabyggðir.

Ég fékk far með Unni Magnúsdóttur eiganda Dale Carnegie á laugardeginum. Ég var búin að redda mér kúlu en átti alveg eftir að redda mér hjólagrind á kúluna. Þarna var ég komin í smá vandræði. Ég spurði hjólavini mína hvernig hjólagrind ég ætti að fá mér. Ásdís, það er ENGINN með hjólagrind á kúlunni, það eru allir með hjólin sín á toppnum. Mér fannst þetta ekki svona auðvelt. Ég er 1.65 og ég næ ekki einu sinni upp á toppinn á mínum bíl, hvað þá að ég geti fest eitthvað hjól í einhverjar festingar. Ásdís mín, þú ert klár kona, settu bara tröppur í skottið eða stígðu í hurðarfalsið, hitt eyðileggur hjólið. Ég sá reyndar fyrir mér töluvert meiri eyðileggingu á bæði bíl og hjól þegar ég misstígi mig með hjólið í fanginu og bryti bæði bílrúðu og beyglaði hjólið. Svo er það víst þekkt vandamál að fólk gleymdi hjólunum á toppnum og keyri í lágan bílakjallara með slæmum afleiðingum fyrir hjólið. Ég íhugaði í smá stund að opna Tinder og auglýsa eftir kærasta sem hefði áhuga á hjólreiðum og næði upp á topp en fannst svo bara miklu minna vesen að fá far með Unni. Lofa hins vegar að þegar ég er orðin atvinnukona í hjólreiðum og farin að keppa í Tour de France, að fá mér eitthvað á toppinn.

Ég vaknaði snemma á laugardeginum, fékk mér ommelettu, smurði kremum þar sem þurfti að smyrja og makaði mig í sólarvörn númer 50. Ákvað síðan að undirbúa hjólið. Teipaði slönguna undir sætið og festi pumpuna á hjólið. Mér fannst ég bara algjör nagli og hlakka mikið til að verða sjálfbær í hjólaviðgerðum. Þetta er að vinda upp á sig þar sem ég hef ákveðið að lakka útihurðina fljótlega, finnst ég bara geta allt núna.

Laugardagurinn var bara alveg að mestu frábær. Við fórum hluta af Bláalónsþrautinni. Ég labbaði upp fyrstu brekkurnar. Ég skil núna hvers vegna 1/3 af æfingum hjá Breiðablik eru brekkusprettir og mikilvægi þess að taka virkan þátt í þeim æfingum. Ég sá líka að þetta myndi líklega útiloka mig frá Bláalónsþrautinni, ég myndi einfaldlega falla á tíma. Þannig að eftir nokkrar brekkur þar sem allir tóku framúr mér þá fór ég að hjóla upp brekkurnar líka. Til að vera alveg hreinskilin þá var það mjög erfitt. Samt ekki alltaf jafn erfitt eins og að fara svo niður brekkuna þegar ég var komin upp. Þetta gekk samt frábærlega og mér leið vel á fjallahjólinu, við vorum alveg orðin eitt. Ég sá samt að ég yrði að fá mér hjólaskó. Ætlaði að sleppa því fyrir Bláalóns þrautina og fá mér bara fyrir götuhjólið en allir segja að brekkurnar verði miklu auðveldari og þú eigir inni töluverða bætingu í hraða og það er eitthvað sem mér veitir sannarlega ekki af. Halldóra vinkona var búin að bjóðast til að lána mér skó þannig að ég þarf bara að fá mér pedala í vikunni. Ég var búin að vera ansi ánægð með mig, búin að fara í fullt af brekkum og ekki vottur af lofthræðslu. Sagði  við sjálfa mig, nei sko, þú ert bara alveg komin með þetta. Einmitt, dramb er falli næst... aldrei segja aldrei. Þegar við komum að brekkunni við Syðrastapa rétt hjá Kleifarvatni, tók við þessi fína brekka niður, allt sem fer upp fer víst líka niður. Hún var ekkert svo há en það var fjandi bratt niður hægra megin, þeim megin sem við eigum að hjóla. Eftir smástund var ekkert annað í stöðunni en að flytja sig vinstra megin og vera alveg útí kantinum. 2 bílstjórar spurðu hvort að ég væri íslensk og bentu á að ég ætti að vera hinum meginn. Ég brosti frekar aumingjalega og sagði að ég hefði bara panikkað og orðið rosalega lofthrædd þarna og þeir sýndu því mikinn skilning sem betur fer. Ég ræddi þetta daginn eftir við Elvu Tryggvadóttur. Hún sagði, ertu að meina brekkuna sem við brunuðum niður, já akkúrat, allir nema ég sko.

Restin af leiðinni var pínu erfið, þessi lofthrædda var alltaf að bíða eftir annari brekku sem kom samt aldrei. Ég hjólaði því hægt og varlega og kom einna síðust til baka. Það er mögulega hundleiðinlegt að koma alltaf síðust og þú þarft virkilega að berjast við hausinn á þér þarna. Við vorum tvær að tala saman restina af leiðinni. Ásdís, þetta er ansi mikill aumingjaskapur í þér þarna í þessum brekkum. Ásdís mín, þetta verður allt í lagi þú massar þetta bara, það kemur pottþétt ekki önnur brekka á leiðinni. Ásdís, hvernig ætlar þú að tækla Bláalónið ef þú getur ekki brekkurnar. Ásdís, mannstu hvernig þetta var inn í Landmannalaugar, erfitt fyrri daginn en frábært þann seinni.  Við Kleifarvatn er vegrið, ég fann hvernig kvíðahnúturinn óx eftir því sem ég nálgaðist það. Mín reynsla af vegriðum er nefninlega sú að þau byrja of seint og hætta of snemma. Þetta vegrið var hins vegar fullkomið og erfitt að hrapa niður þarna. Ég hugsaði um það smá stund hvort að ég ætti að heyra í Landvættagenginu mínu, og fá betri útskýringar á leiðinni á morgun en ákvað svo að það væri ekki góð hugmynd og tók möntruna á þetta, ekki hugsa, bara gera. Þetta hefur nefnilega alltaf bara reddast. Hjólaferðin var frábær, leiðin var stórkostlega fallega (líka Kleifarvatn). Ég kom heim með brunnin læri, ekki afþví að það væri svo mikil sól heldur af ofnotkun, skellti mér í Krónuna til að kaupa súkkulaðirúsínur og Snickers fyrir seinni daginn því fyrri daginn tókum við „bara“ 44 km, seinni dagurinn var 55 km. Ég var rosalega þreytt eftir daginn og ekki frá því að vöðvarnir mínir hafi elst um ár, orðnir 6 ára. Svaf eins og steinn og engin tími til að stressa sig á brekkum morgundagsins. Ef ég hefði bara vitað fyrir ári síðan þegar ég gat ekki sofið fyrir stressi að það „eina“ sem ég þyrfti að gera til sofa eins og steinn væri að hjóla svona 40-50 km á dag þá hefði ég getað sparað mér skammt af Sopril.

Seinni dagurinn var algjörlega frábær, engar hættulegar brekkur, bara miserfiðar. Við fórum út um víðan völl og flestir voru að koma á svæði sem enginn hafði komið á áður. Samt var þetta allt í hjólafæri við höfuðborgarsvæðið. Veðrið lék við okkur og ég hjólaði á stuttermabol og stuttbuxum og fékk mitt fyrsta íþróttasólarfar. Fengum einnig örnámskeið frá Haffa og Maríu Ögn hjá Hjólakraftur og verkstæði. Þarna var farið í að hvernig á að skipta um slöngu, redda keðjunni og allskonar hagnýt atriði sem geta skipt sköpum þegar þú ert á Fjallahjóli. Enduðum svo daginn í pottinum í Árbæjarlaug. Það skrýtna var að ég var ekki nálægt því eins þreytt eftir seinni daginn eins og þann fyrri, samt var þetta töluvert lengri hjólatúr.

Núna eru ekki „nema“ 2 vikur í Bláalónsþrautina. Ég verð að viðurkenna að ég hélt að ég væri orðin aðeins betri á hjólinu og með meira úthald en góðir hlutir gerast víst hægt. Er því búin að endurskoða aðeins markmiðin mín fyrir keppnina. 

  1. Klára, lifa af og brjóta mig ekki
  2. Vera undir 4.30 klst
  3. Ekki vera síðust, helst amk 10 á eftir mér.

Nokkur góð ráð til að líða vel á fjallahjólinu

  1. Ekki spara í hjólabuxum
  2. Ekki spara í hjólabuxum
  3. Grínlaust ekki spara í hjólabuxum

Fyr­ir þá sem vilja fylgj­ast með Ásdísi Ósk má fylgja henni á In­sta­gram: as­disoskvals

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert