Svona heldurðu bílnum hreinum á ferðalagi

Það getur verið mikil áskorun að halda bílnum hreinum á …
Það getur verið mikil áskorun að halda bílnum hreinum á ferðalagi með fjölskyldunni. mbl.is/Colourbox

Stundum er bíllinn til að mynda stútfullur af alls kyns óþarfa dóti sem sumum finnst ómissandi í útileguna, það þarf sem sagt ekki mikið til þess að bíllinn sé í rúst. Ferðavefurinn hefur tekið saman nokkur ágætisráð til að halda bílnum í þokkalegu horfi á milli þess sem hann er tekinn í gegn.

Ekki borða í bílnum

Næstum allt það rusl sem verður til í bílnum er vegna þess að það er borðað í bílnum. Að auki getur það hreinlega verið áhættusamt fyrir bílstjórann að raða í sig mat við stýrið. Er það ekki líka ágætishugmynd fyrir alla að standa aðeins upp og fá sér bita í næstu sjoppu eða finna fallegan útsýnisstað þar sem hægt er að njóta nestisins?

Kipptu með ruslapoka

Það er alltaf eitthvert rusl sem virðist birtast í bílnum við minnsta tilefni, jafnvel þótt matar sé ekki neytt í bílnum. Það er því ágætisvani að muna eftir ruslapokanum áður en lagt er af stað og henda rusli í hann í stað þess að fylla öll hólf af drasli.

Bensínstoppin nýtt til fulls

Hvort sem þú þarft að stoppa ferð þína til að taka eldsneyti eða hlaða bílinn þá er sú stund kjörið tækifæri til að rífa upp tusku og renna yfir bílinn að innan. Þetta tekur örstutta stund en hefur mikil áhrif.

Karfa fyrir krakkana

Kipptu með körfu sem krakkarnir geta notað undir dótið sitt. Það er fljótt að safnast upp alls konar dót og drasl sem börnin vilja endilega hafa með sér í ferðalagið og ljómandi að geyma það allt í körfu þegar ekki er verið að nota það.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert