Átta saknað í Himalaja-fjöllum

Himalajafjallgarðurinn. Leit stendur nú yfir að átta fjallgöngumönnum, sem voru …
Himalajafjallgarðurinn. Leit stendur nú yfir að átta fjallgöngumönnum, sem voru á leið á fjallið Nanda Devi. AFP

Hópur átta fjallgöngumanna er nú týndur í Himalajafjöllunum. Fólkið var á leið upp annað hæsta fjall Indlands, Nanda Devi, sem er 7.816 metra hátt, er það týndist.

Þegar hópurinn skilaði sér ekki aftur í grunnbúðir líkt og ráð hafði verið gert fyrir voru björgunarsveitarmenn sendir út að leita þeirra. Yfirvöld í Pithoragarh héraðinu hafa hins vegar varað við því að úrhellis rigning og mikil snjókoma hamli leitaraðgerðum.

Gert er ráð fyrir að þyrla frá indverska hernum muni taka þátt í leitaraðgerðum á morgun, en Guardian segir mikið snjóflóð hafa fallið á svæðinu.

Fjallgöngumennirnir voru frá Bretlandi, Ástralíu, Bandaríkjunum og Indlandi, en Martin Moran sem fór fyrir hópinum á að baki margar ferðir í Himalajafjöllum.

Hann birti myndir á Facebook-síðu sinni daginn áður en hópurinn hóf uppgönguna. Í pósti sem hann skrifar 22. maí  þegar hópurinn var kominn upp í aðrar búðir, sem eru í 4.870 metra hæð, gefur hann í skyn að þau ætli að reyna að fara á tind í fjallinu sem ekki hefur áður verið klifinn.BBC segir fregnum af því hvenær hópurinn átti að skila sér til baka í grunnbúðir ekki bera saman. Indverskir fjölmiðlar fullyrða þó að hann hafi átt að vera kominn til baka í grunnbúðir í gær og til nágrannaþorpsins  Munsiyari í dag.

BBC hefur eftir breska utanríkisráðuneytinu að þar séu menn í sambandi við indversk yfirvöld varðandi fregna af að nokkurra Breta sé nú saknað í Himalajafjöllum.

mbl.is