Rosalega stórt persónulegt afrek

Benedikt og Helga Guðrún fylgdu föður sínum, Bjarna Ármannssyni, upp …
Benedikt og Helga Guðrún fylgdu föður sínum, Bjarna Ármannssyni, upp í grunnbúðir Everest. Þar skildi leiðir; unga fólkið hélt niður en Bjarni upp á topp. Systkinin segja að kveðjustundin hafi verið erfið. Ljósmynd/Benedikt Bjarnason

Hinn 24. mars lögðu systkinin af stað ásamt föður sínum og fjölskylduvini, Hilmu Sveinsdóttur, til Himalajafjalla. Í Nepal biðu ævintýrin, því á dagskrá var að ganga upp í grunnbúðir og eiga í leiðinni góðar stundir saman. Þar myndi leiðir skilja; þau þrjú halda niður á ný en faðir þeirra, Bjarni Ármannsson, myndi reyna við hæsta tind heims.

Flottustu fjöll í heimi

„Mér fannst mjög skrítið að koma til Lukla og vera þar í Himalajafjöllunum. Þau eru alveg jafn klikkuð og maður ímyndar sér. Það er svo gaman að sjá þessi flottustu fjöll í heimi,“ segir Helga Guðrún. Benedikt tekur undir það. „Manni fannst maður mjög lítill einhvern veginn í þessum stóru fjallasölum. Þarna voru endalausir fjallgarðar. Þegar maður komst nálægt tindum sá maður hvað þeir voru ógnvænlega háir.“

„Manni fannst maður mjög lítill einhvern veginn í þessum stóru …
„Manni fannst maður mjög lítill einhvern veginn í þessum stóru fjallasölum. Þarna voru endalausir fjallgarðar. Þegar maður komst nálægt tindum sá maður hvað þeir voru ógnvænlega háir,“ segir Benedikt. Ljósmynd/Benedikt Bjarnason

 Frá Lukla var lagt af stað eftir stígum í átt að grunnbúðum Everest, og tók gangan alls tíu daga, með hvíldardögum. Göngufólkið þurfti að bera léttan dagpoka en burðarmenn báru afganginn af farangrinum; svefnpoka og vistir. Gangan hefst í 2.600 metra hæð en endar í 5.400 metrum og því mikil hætta á hæðarveiki. Gengið var í fimm til sex tíma á dag með hvíld og gist í svokölluðum tehúsum á leiðinni. Þar var spilað, snætt og spjallað og kröftum safnað fyrir komandi göngudag. 

Tehúsin voru oft í litlum þorpum eða bæjum og því gafst tækifæri á að skoða sig um og drekka í sig framandi menningu Nepals.
„Í sumum bæjum voru markaðir þar sem gaman var að ganga um og skoða,“ segir Helga Guðrún og þau segja að afar skemmtilegt hafi verið þegar þau fengu að kynnast innfæddum á bakaleiðinni og sjá hvernig þau búa, fjarri túrismanum. Það hafi í raun staðið upp úr þegar þau horfa til baka. „Að hitta fólkið og upplifa menninguna var það merkilegasta,“ segir Helga Guðrún.
Benedikt tekur undir það. „Við fengum að fara heim með einum fararstjóranum og sjá hvernig hann býr og það var alveg magnað.“

Aldrei liðið eins illa

Í grunnbúðum er gist í tjaldbúðum sem búið er að reisa áður en göngufólkið mætir á svæðið. Þar má finna fjöldann allan af tjaldbúðum ýmissa fyrirtækja en alls dvelja þar um 2.000 manns á þessum tíma. Í hópnum þeirra voru ellefu göngumenn og álíka margir sjerpar sem ætluðu á toppinn, þar á meðal Bjarni faðir þeirra. Systkinin gistu eina nótt í grunnbúðum og fannst það alveg nóg. Hæðarveikin hafði gert vart við sig á leiðinni og einnig var ekki hættulaust að dvelja þarna ofan á jökli.
„Við erum ofan á jökli en í raun ekki á ís, heldur steinum. Þetta er mjög hrjóstrugt og allt á hreyfingu,“ útskýrir Benedikt. „Um nóttina upplifðum við að finna ísinn brotna undan tjaldinu og heyra í og sjá snjóflóð uppi í jöklinum, yfir skriðjökulinn þar sem pabbi var að fara að labba,“ segir hann.

Gangan reyndi á og þó sérstaklega vegna háfjallaveikinnar sem bankaði …
Gangan reyndi á og þó sérstaklega vegna háfjallaveikinnar sem bankaði upp á. Ljósmynd/Benedikt Bjarnason

„Ég myndi segja að það væri rosalega stórt persónulegt afrek fyrir Helgu að hafa náð í grunnbúðir. Hún lagði af stað veik.“
Bæði segjast hafa upplifað hæðarveiki einhvern tímann á leiðinni. „Þetta er versta tilfinning sem ég hef upplifað, mikil vanlíðan,“ segir Benedikt.
Hvorugt þeirra segist hafa viljað gefast upp á leiðinni, þrátt fyrir erfiða göngu og veikindi. „Mér fannst þetta stundum heldur langt ferðalag. Á degi átta eða níu var ég orðin spennt að komast í sturtu, á venjulegt klósett, fá venjulegan mat og vera ekki alltaf kalt,“ segir hún.
„En mér fannst þetta aldrei líkamlega erfitt og sé ekki eftir að hafa farið.“
Þau segjast hafa skipst á að vera veik á leiðinni. Púlsinn var hár og öll áreynsla reyndi á. „Þegar ég var kominn í grunnbúðir og við vorum að ganga að okkar búðum leið mér hræðilega; mér hefur aldrei liðið eins illa á ævinni,“ segir hann og Helga Guðrún bætir við: „Þá var ég orðin mun betri en Benni alveg búinn.“
Eftir einn sólarhring í grunnbúðum ákváðu systkinin að ganga niður, ásamt Hilmu, en í boði var að taka þyrlu. „Við þáðum ekki að fara með þyrlunni; okkur langaði að klára þetta.“

Að takast á við áskoranir

Systkinin segja bæði að gaman hafi verið að deila þessari reynslu með föður sínum og eru þau reynslunni ríkari. „Mér fannst það mjög skemmtilegt af því að þetta var svo krefjandi og reyndi á,“ segir Helga Guðrún.
„Pabbi sagði strax í upphafi að þetta væri ferðalag en ekki frí,“ segir Benedikt.
„Já, ég myndi aldrei segja að ég hefði farið í frí til Nepals. Það er ekki alveg lýsandi. Þetta var leiðangur,“ segir hún.
„Maður hafði nógan tíma til að hugsa og það var oft smá stressandi að þurfa að passa upp á allt,“ segir hann.
„Mér fannst ég læra það hvernig ég bregst við erfiðleikum. Ég hafði aldrei prófað neitt svona erfitt áður; þetta var áskorun. Og ég sá hvernig ég myndi standa mig. Ég er kannski minnsta fjallageitin af okkur fjórum Íslendingunum sem vorum þarna í hópi þannig að mér fannst gaman að finna að ég gæti staðið mig,“ segir hún og bætir við að hún hafi lært að meta ýmislegt betur eftir að hafa farið í þessa ferð.

Bjarni og Helga Guðrún ræða málin í grunnbúðum Everest.
Bjarni og Helga Guðrún ræða málin í grunnbúðum Everest. Ljósmynd/Benedikt Bjarnason

 Erfið kveðjustund

Áður en lagt var af stað niður þurftu systkinin að kveðja föður sinn. Bjarni fylgdi börnum sínum að stíg þar sem leiðir skildi. Benedikt segir að kveðjustundin hafi verið tilfinningaþrungin.
„Það var erfiðara en ég hélt að það yrði,“ segir Helga Guðrún. „Ég var ekki búin að hugsa almennilega út í það en þegar kom að því var það mjög erfitt,“ segir hún.
„Því laust niður í huga minn að þetta gæti verið í síðasta skipti sem ég sæi hann. Það voru 2,5 % líkur á að hann dæi og það var ekki hægt að líta framhjá því,“ segir Benedikt en Helga Guðrún segist ekki hafa hugsað um það. „Eftir að hafa verið í grunnbúðum í einn dag vissi maður hvað aðstæðurnar voru erfiðar. Ég gat ekki ímyndað mér að hann ætti eftir að vera þarna í margar vikur í viðbót, við miklu verri aðstæður en við vorum í. Mér fannst erfitt að vita af honum þarna, svona langt í burtu og að eiga eftir þessa þrekraun,“ segir hún.

„Allt getur gerst,“ segir Benedikt og viðurkennir að þessi síðasta vika þegar hann vissi af föður sínum á niðurleið hafi tekið á taugarnar.

Í grunnbúðum eru tjaldbúðir svo langt sem augað eygir. Landslagið …
Í grunnbúðum eru tjaldbúðir svo langt sem augað eygir. Landslagið er afar hrjóstrugt og undir grjóti er jökull sem er á sífelldri hreyfingu. Krakkarnir sáu snjóflóð falla úr fjöllunum fyrir ofan. Ljósmynd/Benedikt Bjarnason

 Endir á okkar ferðalagi líka

Eins og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum komst Bjarni á toppinn, áttundi Íslendingurinn sem það afrekar. Þaðan komst hann heill á húfi niður, en fjallið tók mörg mannslíf síðustu vikur. Bjarni sagði í samtali við mbl.is að átakanlegt hefði verið að ganga fram á nýlátið fólk og segir: „Það er auðvitað mjög sorglegt að sjá þegar fólk er að fylgja draumum sínum að þetta sé verðið og það kosti það lífið.“
„Við vorum fegin að komast niður og ég get ekki ímyndað mér hvernig honum hefur liðið,“ segir Helga Guðrún.

„Ég talaði við hann í síma og hann var mjög djúpt snortinn eftir þennan dag. Það var erfitt fyrir hann að vera stoltur af sjálfum sér þegar hann svo gengur fram á fólk sem var að gera það nákvæmlega sama og hann og borgaði fyrir það með lífi sínu,“ segir Benedikt.
Þau systkinin áttu von á föður sínum þetta sama kvöld sem viðtalið var tekið. „Það að hann komi heim er líka svolítill endir á okkar ferðalagi. Það verður rosalega gott að fá hann heim í kvöld. Við vorum að grínast með það að setja tjald inn í svefnherbergið hans og allar vistir með,“ segir Benedikt og hlær.

Ítarlegt viðtal er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »