Tekur fagnandi á móti sumri eftir annasaman vetur

Kolbrún Pálína sækir sína orku út í náttúruna.
Kolbrún Pálína sækir sína orku út í náttúruna. Ljósmynd/Aðsend

„Ég hreinlega elska Ísland á sumrin, sérstaklega svona þegar vindar blása með okkur svo planið þetta sumarið er að njóta landsins og náttúrunnar sem allra best,“ segir Kolbrún Pálína Helgadóttir verkefnastjóri hjá Árvakri og þáttargerðarkona sem nýlega lauk tökum á sjónvarpsþáttum sínum um ást, samskipti og skilnaði ásamt Saga Film, Sjónvarpi Símans og Kristborgu Bóeli Steindórsdóttur.

Kolbrún Pálína ásamt Kristborgu Bóel en þær vinna að sjónvarpsþáttum …
Kolbrún Pálína ásamt Kristborgu Bóel en þær vinna að sjónvarpsþáttum sem fjalla um ást, samskipti og skilnað. Ljósmynd/Aðsend

 „Það tekur alltaf á að ryðja hjartans verkefnum og hugmyndum í framkvæmd og af þessari er ég einstaklega stolt af og hlakka til að deila með áhorfendum í haust.“ Hún segir náttúruna hafa haldið sér gangandi á milli anna. „Ég geri mjög mikið af því að fara út í náttúruna og skoða nýja staði, ganga í kringum vötn og viðra mig og mína og því verður án efa haldið áfram í sumar. Ég ætla líka að synda reglulega í sjóm og ám sem er mín uppáhalds iðja um þessar mundir, spila golf, ganga fjöll, fara í lautarferðir og bara vera dugleg að fara út að leika og  vera, enda er maður aldrei betri en þegar lungun eru full af íslensku súrefni. Einnig er á plani sumarsins að sigla til Hríseyjar og heimsækja vestfirsku strendurnar svo það er margt að hlakka til en umfram allt ætla ég að nýta núið vel og sólina þegar hún skín.“

Börn Kolbrúnu Pálínu í fallegri íslenskri náttúru.
Börn Kolbrúnu Pálínu í fallegri íslenskri náttúru. Ljósmynd/Aðsend

Hægt er að fylgjast með Kolbrúnu Pálínu og vinnslunni við sjónvarpsþáttinn á Instagramsíðu hennar: kolbrunpalina

mbl.is