Gleðin í forgrunni á afmælinu

Dalla og Matthías ásamt börnum sínum á fjalli.
Dalla og Matthías ásamt börnum sínum á fjalli. Ljósmynd/FÍ

Óhætt er að segja að þessi uppskrift að félagsskap hafi virkað með stæl því starfið hefur notið mikilla vinsælda frá fyrsta degi.  Þau eru því orðin býsna mörg börnin sem hafa sótt lengri og skemmri ferðir á vegum Ferðafélags barnanna. 

Þessa dagana fagnar Ferðafélag barnanna tíu ára afmæli. Þessi skemmtilegi angi af miklum meiði Ferðafélags Íslands tók að vaxa frá fyrsta degi en hugmyndin er sótt til Noregs þar sem DNT Ung hefur átt miklum vinsældum að fagna.

Glaðir krakkar að lokinni Laugavegsgöngu.
Glaðir krakkar að lokinni Laugavegsgöngu. Ljósmynd/FÍ

Þegar félög fagna stórafmæli er yfirleitt ástæða til að gleðjast og gera eitthvað til hátíðabrigða. Það verður svo sannarlega gert núna í júní hjá Ferðafélagi barnanna.
„Við ákváðum að hafa gaman í afmælisviku Ferðafélags barnanna en fjörið verður frá 10. til 13. júní,“ segir Dalla. „Leikur og gleði hafa verið í forgrunni hjá okkur samhliða því að leyfa börnum að reyna á sig úti í fallegri íslenskri náttúru. Við hefjum því afmælisvikuna í Heiðmörkinni okkar fallegu þar sem við ætlum á öðrum degi hvítasunnu að hittast í góðum lundi og fara í ýmsa skemmtilega útileiki.“ 

Fjörið í Heiðmörkinni verður tilvalið fyrir yngri börnin og auðvitað alla þá sem eru ungir í anda. „Svo ætlum við að leika okkur á hjólum þriðjudaginn 11. júní í Elliðaárdalnum – reyna okkur á skemmtilegum stígum og æfa hjólataktana,“ segir Matthías.

Hann bætir því við að miðvikudaginn 12. júní verði svo æfingar í hugrekki og þá gefist unga fólkinu einstakt færi á að prófa sjósund í Nauthólsvík.

Mikið ævintýri er fyrir börn að fara í ferð með …
Mikið ævintýri er fyrir börn að fara í ferð með Ferðafélagi barnanna. Ljósmynd/FÍ

„Já,“ segir Dalla og brosir, „við teljum upp að tíu í köldum sjónum og yljum okkur svo í heitu pottunum.“ 
Þau hjónin segja að aðalafmælishátíðin verði svo fimmtudagskvöldið 13. júní þegar farið verður í afmæliskvöldgöngu á Helgafell í Hafnarfirði. „Við ætlum að syngja afmælissönginn og vonandi fáum við góða gesti til að fagna með okkur. Við vonumst sannarlega til að sjá í þeirri göngu alla vini okkar fyrr og nú,“ segir Dalla. Við það tækifæri munum við einnig fagna með samstarfsaðilum okkar í Fjallakofanum sem fagna 15 ára afmæli á þessu ári.

Komum hreinlega alsæl heim eftir hverja ferð 

Þau Dalla og Matthías tóku við umsjón með Ferðafélagi barnanna fyrir tveimur árum og hafa haldið býsna vel um taumana. Þau eru enda ung í anda og eiga líka þrjú börn sem eru jafnan með í hverri einustu ferð. 

Börnin svala þorstanum og drekka ískalt fjallavatn úr bergvatnsá.
Börnin svala þorstanum og drekka ískalt fjallavatn úr bergvatnsá. Ljósmynd/FÍ

Þau hjónin tala nánast í kór um hvað það hafi veitt þeim mikla gleði og ánægju að kynnast fjölda fjölskyldna í þessu verkefni. „Við komum hreinlega alsæl heim eftir hverja einustu ferð. Svo er frábært að geta sinnt svona verkefni sem börn okkar hjóna hafa sömuleiðis gaman af.“

Hjálparsveitarmaðurinn, náttúrubarnið og barnakennarinn

Það fer vel á því að þau Dalla og hjáparsveitarmaðurinn Matthías sinni þessu skemmtilega verkefni með íslenskum börnum. Hann er gamalreyndur hjálparsveitarmaður sem hefur sopið fjölmörg fjallavötnin. Dalla elskar að vinna með börnum enda ætlar hún sér að verða barnakennari þrátt fyrir að hafa lokið námi í lögfræði frá Háskóla Íslands fyrir allmörgum árum. Hún hefur unnið sem lögfræðingur um alllanga hríð en vill nú söðla um og er í kennaranámi í Háskóla Íslands. 

Dalla ólst upp á Nesinu þar sem fuglar eru hvað mest áberandi í borgarlandinu en hún féll samt ekki alveg fyrir íslenskri náttúru fyrr en hún hitti náttúrubarnið Matthías og þau fóru að stinga saman nefjum. Nú er svo komið að Dalla veit ekkert betra en að ganga á fjöll með fjölskyldunni og að synda í Elliðavatni að sumarlagi innan um himbrima, húsendur og urriða.  

Glaðir göngugarpar.
Glaðir göngugarpar. Ljósmynd/FÍ

„Það er svo margt í náttúrunni sem vekur mann hreinlega; gleðin, ævintýrin, áskoranirnar, fegurðin og svo auðvitað félagsskapurinn. Það þarf ekki að fara langt til að upplifa náttúruna en hún endurnærir sál og útivistin eflir líkama,“ segir Dalla sem býr reyndar nánast í villtri náttúru við Elliðavatnið og er í hópi þeirra stálheppnu Íslendinga sem hafa Heiðmörkina í bakgarðinum.


Þríþætt starf með áherslu á ánægjuna
Ferðafélag barnanna er stofnað að norskri fyrirmynd og hefur þrenns konar viðburði í háskerpu í starfi sínu. Í fyrsta lagi er boðið upp á einfaldar göngur innan dagsins þar sem áherslan er á að allir geti komið með litlum eða jafnvel engum fyrirvara. Í öðru lagi er boðið upp á lengri sumarleyfisferðir um stórkostleg svæði í náttúru Íslands þar sem fólk þarf að ákveða sig að fara með nokkrum fyrirvara. 

Fallegur vinskapur á milli barnanna myndast í útivistinni.
Fallegur vinskapur á milli barnanna myndast í útivistinni. Ljósmynd/FÍ

„Nú í sumar verða t.d. farnar þrjár slíkar göngur um Laugaveginn, tvær göngur yfir Fimmvörðuháls auk þess sem við bjóðum í fyrsta skipti upp á göngu um Víknaslóðir. Þetta eru vinsælar ferðir og ótrúlega gaman að upplifa þessar ævintýraferðir með duglegum krökkum þar sem reynt er á hugrekkið, seigluna og andann. Það er alveg einstakt að sjá krakkana fá aukið sjálfstraust,“ segir Dalla.

„Og auðvitað eru þessar ferðir oft líka allnokkur áskorun fyrir fullorðna fólkið,“ bætir Matthías við. „Í fyrra hófum við svo Fjallagarpaverkefni fjölskyldunnar og gengum þá á sex fjöll og fengu krakkarnir sem luku því verkefni nafnbótina Fjallagarpur Ferðafélags barnanna. Það voru um hundrað börn sem luku því verkefni og fór það aftur af stað nú í vor með göngum á önnur sex fjöll.“

Dalla segir að það sé virkilega skemmtilegt að sjá staðfestuna í krökkunum að klára göngurnar í þessum mögnuðu ferðum. 

„Í þriðja lagi eigum við svo í frábæru samstarfi við Háskóla Íslands undir nafninu Með fróðleik í fararnesti. Þar koma flinkir og skemmtilegir vísindamenn frá Háskólanum og bjóða upp á fróðleiksgöngur um t.d. fugla, skordýr, sveppi, fjöruna, landsnámsmenn og stjörnurnar. Þetta eru gríðarlega vinsælar göngur ár hvert og mjög ánægjulegt að geta boðið börnum upp á að njóta náttúrunnar og fá fróðleikinn samhliða,“ segir Matthías, sem er eins og klipptur út úr auglýsingu um fjallamennsku. Hann brosir breitt og berar bjartar tennurnar og má vel við því, enda starfandi tannlæknir. 

Háfjallamaðurinn Matthías

Háfjallamaðurinn Matthías hóf feril sinn á fjöllum sextán ára gamall með björgunarsveitinni Ingólfi og hafði lengi langmest dálæti á Íslandi yfir þann tíma þegar fæstir vilja fara neitt. Yfir háveturinn. Hann hefur gengið þvert yfir landið á gönguskíðum, farið um óteljandi tinda, hlíðar og tinda á fjallaskíðum, gengið á óteljandi toppa á Íslandi auk þess að skreppa á Denali í Alaska, á Matterhorn sem margir tengja við Toblerone-súkkulaðið og svo auðvitað á Mont Blanc, hæsta fjall Evrópu.

„Einfaldleikinn í stórbrotinni náttúru er ómetanlegur og gefur lífinu dýpra og meira gildi,“ segir Matti. „Við sjáum það líka á börnunum okkar að göngurnar hafa gefið þeim aukinn þroska og skilning og virðingu fyrir náttúrunni. Svo finnst krökkum fátt skemmtilegra en að vera úti að leika og vera með fólkinu sínu og það er svo gaman að sameinast á ferðalögum í náttúru Íslands.“

Þess má geta að Ferðafélag barnanna er hugsað fyrir félagsmenn FÍ en engu að síður eru fjölmargar ferðir ókeypis og bara fyrir alla – þetta á t.d. við um fróðleiksferðirnar með Háskóla Íslands. 

Við hvetjum fjölskyldur til að taka þátt í afmælinu fram undan og njóta þess svo í framhaldinu að hreyfa sig í íslenskri náttúru – er eitthvað hollara? Það er alla vega erfitt að finna eitthvað skemmtilegra. 

Börnin læra alltaf eitthvað nýtt á flakki með fjölskyldunni.
Börnin læra alltaf eitthvað nýtt á flakki með fjölskyldunni. Ljósmynd/FÍ

Dagskrá afmælisviku Ferðafélags barnanna:

10. júní, mánudagur: Út að leika í lundi
Brottför: Kl. 14 frá bílastæðinu við Rauðhóla þaðan sem við keyrum í halarófu inn í Heiðmörk.
Þar í fallegum lundi förum við í alls konar skemmtilega, gamla og nýja útileiki. Tilvalið fyrir litla og stóra krakka og líka fyrir fullorðnu börnin. Takið með heitt á brúsa og uppáhaldsnesti barnanna. 2 klst.

11. júní, þriðjudagur: Hressandi hjólafjör
Brottför: Kl. 18 frá gömlu rafstöðinni við Elliðaár.
Hittumst með hjól, hjálma og nesti í bakpoka. Hjólum á skemmtilegum skógarstígum á þægilegum hraða. Borðum nesti í fallegri laut. 1-2 klst. 

12. júní, miðvikudagur: Sullumbull í sjónum
Brottför: Kl. 18 frá Nauthólsvík.
Við ætlum að vera hugrökk og skella okkur í sjósund. Hressandi og ískaldur leiðangur en við fáum líka hita í kroppinn í heita pottinum og getum spjallað saman um ýmis ævintýri, gömul og ný með Ferðafélagi barnanna. Allir taka með sér sundföt og handklæði. 1-2 klst.

13. júní, fimmtudagur: Kvöldsólarganga á Helgafell
Brottför: Kl. 19 frá bílastæði við enda Kaldárselsvegar. 
Afmælisfjallganga! Það elska öll börn að vera úti með fjölskyldunni á fallegum sumarkvöldum. Við ætlum að ganga á Helgafell í Hafnarfirði og njóta kvöldsólarinnar sem lætur örugglega sjá sig. Skemmtileg ganga sem um leið er nokkur áskorun fyrir alla duglega krakka. Stórkostlegt útsýni yfir borgina á toppnum og þar syngjum við afmælissönginn til heiðurs Ferðafélagi barnanna og skrifum í gestabók. Takið með heitt á brúsa og kvöldnesti. 2-3 klst.

mbl.is