Kom hálfur maður í mark

Ingvar Ómarsson tók nýlega þátt í erfiðri hjólakeppni í Bandaríkjunum.
Ingvar Ómarsson tók nýlega þátt í erfiðri hjólakeppni í Bandaríkjunum. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta hefur verið rosalega skemmtilegt og spennandi ferðalag, í raun fylgjandi því að verða alltaf betri á næsta ári, sem hefur ekki enn klikkað. Árið 2012 varð ég fyrst upptekinn af því að æfa hjólreiðar af krafti, og kom nokkuð hratt inn í senuna á næstu tveimur árum, takandi minn fyrsta Íslandsmeistaratitil sama ár. Síðan hef ég alltaf verið að eltast við að gera betur, ná lengra, og setja gott fordæmi fyrir þá sem ætla sér langt í íslenskum keppnishjólreiðum.“

Ingvar var aðframkominn af vökvaskorti í keppninni.
Ingvar var aðframkominn af vökvaskorti í keppninni. Ljósmynd/Aðsend

Ingvar er eini íslensku atvinnumaðurinn í hjólreiðum og segir hann það hafa gefið sér mörg tækifæri í heimi íþróttarinnar. „Árið 2015 bauðst mér samstarf við  fjárfestingafyrirtækið Novator, sem er minn stærsti styrktaraðili í dag. Fyrirtækið greiðir mér laun til þess að ég geti haldið áfram að keppa á alþjóðlegu stigi innan hjólreiða. Þökk sé þeim, ásamt mörgum öðrum styrktaraðilum, hef ég getað tekið þátt í mörgum af stærstu keppnum heims á síðustu árum,“ segir Ingvar sem lauk á dögunum einni erfiðustu malarhjólakeppni heims, Dirty Kanza 200. „Keppnin hefst og endar í Emporia, smábæ í Kansas í Bandaríkjunum, og brautin, sem er 320 km af malarvegum, liggur um svæðið fyrir norðan bæinn, sem er ótrúlega stórt og mikið, en nánast engin byggð. Íslenski hjólaframleiðandinn Lauf hefur komið þangað áður, bæði til að kynna sínar vörur og keppa, en þau eru með ansi flott hjól sem er sérstaklega gert fyrir malarhjólreiðar og er kallað True Grit. Þau buðu mér, ásamt öðrum, að koma með í ár og taka þátt fyrir þeirra hönd, en við vorum alls 10 manns og þar af 9 sem tóku þátt.“

Ingvar og félagar ná smástund á milli stríða.
Ingvar og félagar ná smástund á milli stríða. Ljósmynd/Aðsend

Leiðin sem var hjóluð í keppninni var 320 kílómetra löng og það á malarvegi sem er töluvert mikið erfiðara en að hjóla á malbikuðum vegi eins og Ingvar er þekktastur fyrir. „Þessi keppni var ólík öllu öðru sem ég hef gert á hjóli fram að þessu. Malarvegir gera það að verkum að maður fer ekkert sérstaklega hratt yfir, og það þarf að leggja mikla vinnu á sig til að halda einhverjum hraða frá upphafi til enda. Það sem hafði mest áhrif, og í raun gerði þessa keppni nánast ómögulega fyrir mig, var hitinn. Hitastigið var að meðaltali um 34 gráður, en mest fór hitinn í 43 gráður upp úr hádegi, en það er eitthvað sem maður getur svo sem alveg ráðið við í smástund undir álagi. Ég þurfti að takast á við þetta í 13 og hálfan klukkutíma, og það reyndist of mikið fyrir mig. Ég lenti í ofþornun, tapaði allri orku áður en keppnin var hálfnuð og var gjörsamlega að skrælna upp af vökvaskorti og steinefnaskorti. Það var þó ekki vegna þess að ég var ekki að borða eða drekka, en þökk sé tveimur drykkjarstöðvum þar sem aðstoðarmaður hópsins var gat ég komist í mat og drykk til að reyna að bjarga mér. Það dugði hins vegar ekkert, og þrátt fyrir ótrúlegt magn af orkugelum, samlokum, banönum, salttöflum, hnetum, súkkulaði og samtals 25 lítra af vatni, var mér ekki bjargað frá þessu ástandi. Ég kom að lokum í mark, hálfur maður, og var skutlað beint í sjúkratjaldið þar sem ég fékk að hvíla mig og fékk næringu til að hjálpa mér að komast aftur í gang,“ segir Ingvar og bætir við að næstu daga á eftir svo erfiða keppni þurfi að einbeita sér að tvennu, mat og hvíld. „Þannig er vikan fram undan hjá mér, ég þarf að passa að missa ekki niður of mikinn tíma á milli keppna, þannig að ég legg mikla áherslu á að næra mig vel, er að gera það bæði með góðum mat og svo fæ ég góðar vörur frá Hreysti sem hjálpa mér að ná mér enn hraðar. Svo er það svefninn sem er besta lausnin við öllum þessum vandamálum, að reyna að sofa sem lengst og vera ekki að eyða of miklum tíma vakandi nema til að klára þau verkefni sem ég þarf að klára.“

Það væri gaman að vita hvað Ingvar er að hugsa …
Það væri gaman að vita hvað Ingvar er að hugsa þarna á lokametrunum í Bláalónsþrautinni í fyrra. Ljósmynd/Arnold Björnsson

Miðað við lýsingar frá keppninni er blaðamaður hissa á því að Ingvar sé strax kominn í startholurnar fyrir næstu keppni en á honum er ekki nokkurn bilbug að finna. „Ég er mjög skipulagður og veit nokkurn veginn hvað ég ætla að gera í upphafi árs, en á þessu ári stefni ég á að ljúka rúmlega 40 keppnum, með um helming af þeim erlendis. Næsta keppni er algjör klassík í sportinu á Íslandi, en það er Bláalónsþrautin. Ég sigraði keppnina í fyrra, þannig að ég mæti aftur til leiks til að verja titilinn,“ segir Ingvar að lokum strax tilbúinn í næstu keppni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert