Líf okkar breyttist algjörlega

Hjónin, Kolbrún Anna og Ólafur William, ventu kvæði sínu í …
Hjónin, Kolbrún Anna og Ólafur William, ventu kvæði sínu í kross eftir erfiðleika í einkalífi. Ljósmynd/Aðsend

Örlögin leiddu þau til Spánar þar sem þau ganga núna Jakobsveginn frá upphafi til enda, tæpa 900 kílómetra. „Þessi leið sem við göngum er kölluð franska leiðin. Hún hefst í St Jean Pied de Port í Frakklandi og endar í Santiago Compostela á Spáni,“ segir ÓIafur en hann gekk þessa leið einn síns liðs fyrir nokkrum árum. „Ég fór í júlí og gekk fram í miðjan ágúst. Það var rosalega heitt en mikil upplifun. Þessi ferð verður alltaf eftirminnileg fyrir þær sakir að í henni tók ég þá ákvörðun um að biðja Kolbrúnar og hérna erum við saman komin fimm árum síðar.“

Kolbrún gengur hér á blómlegum göngustíg.
Kolbrún gengur hér á blómlegum göngustíg. Ljósmynd/Aðsend

Hjónin voru sammála um það að ferðin þyrfti að hafa jákvæðan tilgang, ekki bara fyrir þau heldur aðra um leið og ákváðu því að skipta ferðinni upp í þrennt og tileinka hvern hluta einhverju styrktarfélagi. „Fyrsti kaflinn er sá líkamlegi og er erfiður fyrir fæturna. Það er um brekkur og þrönga stíga að fara. Þennan fyrsta kafla tileinkum við Stuðningsfélaginu Krafti,“ segir Ólafur. „Krabbamein heggur mjög nærri öllum og það er svo mikilvægt að ungt fólk með krabbamein og fjölskyldur þess fái alla þá hjálp sem hægt er að veita. Sjálf gefum við 100 krónur fyrir hvern genginn kílómetra og hvetjum aðra til að styrkja félagið um leið,“ segir Kolbrún. Að þessum kafla loknum tekur sléttan við en þar er minni gróður og meiri hiti og landslagið breytist lítið svo dögum skiptir. „Þessi kafli hefur verið tileinkaður huganum enda reynir hann á þolinmæðina og maður verður að vera sjálfum sér nægur,“ segir Ólafur og bætir við að þau hjónin eigi eftir að ákveða hvaða félag þau styrki næstu tvo kafla leiðarinnar. „Þriðji og síðasti kaflinn er svo tileinkaður sálinni en þar byrjar maður að klífa inn í Galisíu þar sem stórbrotið landslag og gróður verðlauna þá sem hafa gengið sléttuna. Hér hugsar pílagrímurinn um allt andlegt, enda ekki annað hægt eftir 600 km göngu. Næstu 300 km eru erfiðir en lokamarkmiðið drífur mann áfram,“ segir Kolbrún. Aðspurð hvort þetta taki ekki á svara hjónin því játandi en þó alveg þess virði. „Maður kemur vonandi á leiðarenda sem betri manneskja og í líkamlega góðu formi.“ 

Á leiðinni gefst hjónunum tækifæri á að kynnast fjölbreyttum félagsskap.
Á leiðinni gefst hjónunum tækifæri á að kynnast fjölbreyttum félagsskap. Ljósmynd/Aðsend

Hægt er að fylgjast með ferðum hjónanna á Facebook-síðu þeirra en þar geta áhugasamir sótt um að vera félagar.

mbl.is