Langþreyttur skrifstofumaður sigrar sjálfan sig

Langþreytti skrifstofumaðurinn Baldur, mættur í mark.
Langþreytti skrifstofumaðurinn Baldur, mættur í mark. Ljósmynd/Aðsend

Þessi 35 ára tveggja barna fjölskyldufaðir sem kemur upprunalega frá Akureyri hefur búið í Reykjavík í tæp tuttugu ár. Hann er menntaður lögfræðingur sem starfar í ráðuneyti og hans helstu áhugamál eru samvera með fjölskyldu og vinum og að sjálfsögðu hlaupin. „Ég byrjaði að hlaupa árið 2014. Það ár tók ég þátt í Reykjavíkurmaraþoninu og hljóp 10 km. Hætti þó fljótlega. Byrjaði svo aftur sumarið 2017 og hef hlaupið nokkuð reglulega síðan. Hlaup eru skemmtileg, góð hreyfing (heldur +30 bumbunni í skefjum) en síðast en ekki síst þá er þetta gott fyrir andlegu hliðina. Maður fær útrás, hreinsar hugann og slakar á. Maður er aldrei betri en eftir góða laugardagslengju í góðu íslensku haustveðri.“

Ástæðan fyrir hlaupahvíldinni í tvö og hálft ár var sú að hann vantaði hlaupafélaga. „Það er mjög mikilvægt að hafa einhverja félaga með sér í þessu. Þess vegna hef ég í dag umkringt mig stórhlaupurum sem eru tilbúnir að hlaupa í öllum veðrum allt árið um kring. Ég hleyp nefnilega eingöngu úti. Stór hluti af þessu sporti er sjálf útiveran. Þó að ég hafi raðað í kringum mig hlaupafélögum þá hleyp ég oft einn en það er hins vegar mikilvægt að hafa einhverja til að ræða við og miða sig við þess á milli,“ segir Baldur sem er duglegur að nota hlaupaforritið Strava til að halda utan um árangurinn og fylgja öðrum eftir, ekki síst til að fá hugmyndir að nýjum hlaupaleiðum.

 

Slysaðist inn í fyrsta maraþonið

Baldur var, að eigin sögn, plataður til að skrá sig í sitt fyrsta maraþon og var ansi hissa þegar hann komst að í New York-maraþoninu í fyrstu tilraun. „Stór hlaupavinur minn plataði mig til að skrá mig í lottóið, hann taldi það hættulaust því litlar líkur væru á því að við yrðum dregnir út. Hann sagði að þar sem ég væri nú byrjaður að hlaupa þá væri gott að hafa markmið til að stefna að, þetta var í byrjun árs 2018.  Á þessum tíma hafði ég hlaupið lengst 15 km í kirkjuhlaupinu úti á Seltjarnarnesi en félaginn var auðvitað tilbúinn í þetta enda með einn Íslandsmeistaratitil undir beltinu í Reykjavíkurmaraþoninu árið 2015.“ Vinirnir voru svo heppnir að vera dregnir út og segist Baldur ekki sjá eftir því í dag þótt vitanlega hafi honum brugðið við tíðindin. „Það var svo algjör lukka að einn af mínum bestu vinum ákvað að slást í för þannig að maður hafði nóg af vinum til að þjást með í undirbúningnum. Ég kom mér í stand og hljóp svo í New York-maraþoninu í nóvember á síðasta ári. Hlaupið sjálft var ekki upp á marga fiska, ég fékk magakrampa eftir 25 km og þurfti því að staulast í mark síðustu 17 km. Ég hef aldrei upplifað aðra eins pínu og kláraði á 4:14.Eftir New York var ég farinn að efast um að lengri hlaup en 35 km væru fyrir mig.“

Fann mig brenna

Viku eftir að hafa tekið þátt í maraþoninu í New York var Baldur plataður á ný og það í annað maraþon. „Faðir minn bauð mér að koma með sér í Boston-maraþonið þ.e. hann sem áhorfandi, þjónn og styrktaraðili. Á þeim tímapunkti var þetta versta hugmynd sem ég hafði heyrt enda nýkominn úr hræðilegu hlaupi. Eina reynsla föður míns af hlaupum eru bransasögur frá vini sínum sem hefur hlaupið yfir 30 maraþon, það gefur honum skakka mynd af átökunum sem fylgja þessum hræðilegu hlaupum og minni getu. Ég stökk hins vegar á þetta enda ekki á hverjum degi sem maður hefur tækifæri til að hlaupa Boston-maraþonið.“ Baldur sló til en af biturri reynslu úr New York-maraþoninu ákvað hann að hlaupa ekki of hratt í þetta skiptið og sleppa því að fá sér orkugel. „Ég tengi magakrampann, sem ég fékk í New York-maraþoninu, við gelin sem ég fékk mér. Ég er ekki með sterkasta magann þarna úti enda í IMO-félaginu.“ Baldur lenti þó í annars konar áskorun í hlaupinu en í stað þess að berjast við magapínu var það toppstykkið sem fékk að kenna á því í þetta sinn. „Það var mjög hlýtt í veðri meðan á hlaupinu stóð. Ég hugsaði um lítið annað en hvað það væri andskoti heitt. Fann mig brenna. Gerði ráð fyrir rigningu allan tímann en fékk sól. Kollvikin fengu því að kynnast góðri sól og uppskáru mikinn bruna. Toppurinn í hlaupinu var að fá vatnsgusu á sig frá áhorfendum eða sólarvörn. Fékk svo ósk mína uppfyllta þegar það kom mígandi rigning síðustu 6 km.“

Rigningin kom eins og kölluð í Boston-maraþoninu.
Rigningin kom eins og kölluð í Boston-maraþoninu. Ljósmynd/Aðsend

Að sögn Baldurs var hlaupið frekar krefjandi þar sem helstu áskoranirnar voru brekkur, bæði upp og niður. „Þetta var algerlega óþolandi, ástarsorgarhæðin (e. Heartbreak Hill) stóð undir nafni og var mjög krefjandi. Ég smjattaði á rauðum lakkrís upp brekkuna og hugsaði um hvað hann væri vondur í stað þess að hugsa til þess að lappirnar mínar væru að eyðileggjast. Hlaupið er allt öðruvísi en New York, þar ertu í borg en þarna í Boston er verið að hlaupa í gegnum smábæi. Stemmningin er eilítið minni enda ekki eins margt fólk,“ segir Baldur sem kláraði hlaupið án frekari vandræða á 4:01.

Erfiðara að hætta í miðju hlaupi ef maður er peningalaus

Baldur segir mikilvægt að æfa vel áður en lagt er að stað í svona hlaup og algjör nauðsyn að fá æfingaplan frá þjálfara eða ná í þau á netinu. „Ef þú nærð í þannig er gott að reyna að miða þau við þína eigin getu og hafa einhvern til að ræða um hlaupaþjálfunina. Í prógramminu eru oft hlaup sem henta manni sjálfum ekkert endilega á þeim degi, alltaf hægt að breyta en halda samt fast í löngu hlaupin, þau hjálpa mér alla vega. Til að fá sjálfstraust og þjálfa lappirnar fyrir átökin í hlaupinu sjálfu. Ekki gleyma því að sumt virkar fyrir þig en eitthvað allt annað virkar fyrir einhvern annan. Það er það sem ég fíla við hlaup. Maður er fyrst og fremst að keppa við sjálfan sig, bæta eigin tíma en ekki sigra aðra. Það er algjörlega tilgangslaust að miða sig við einhverja aðra því þeir hafa mögulega allt annan grunn en ég eða líkamsbyggingu.“ Hann segir einnig mikilvægt að gæta þess að finni maður til þurfi maður að hvíla og taka styrktaræfingar í stað þess að keyra á miklum hraða og enda í kjölfarið í meiðslum. „Ég er meira fyrir að reyna á þolmörkin og keyra mig í meiðsli og þrot, þetta mun vonandi lærast.  Allt sem ég skrifa miðast auðvitað bara við langþreyttan skrifstofumann sem hefur ekki það mikinn hlaupabakgrunn. Fyrir mér eru hlaupin fyrst og fremst áhugamál og til að halda heilsu fyrir líkama og sál. Ekki til að vinna einhvern annan. Ég er fyrst og fremst að þessu til ná markmiðum mínum sem eru flest raunhæf. Þó er gott að hafa nokkur óraunhæf. Í hlaupinu sjálfu er ég með nokkur markmið, klára á ákveðnum tíma, ef ekki þá á einhverjum öðrum og svo framvegis en ef allt er komið í þrot þá er mikilvægt að klára ef þú ert í stóru hlaupi. Aldrei hætta nema langvinn meiðsli séu hættan eða lífið sjálft, labba frekar. Fyrir mig persónulega er mjög mikilvægt að klára. Ég labbaði eitthvað í New York og skokkaði til skiptis, það kom ekkert annað til greina en að klára, enda var ég peningalaus og lengst frá hótelinu. Ég myndi aldrei taka pening eða annað til að bjarga mér út úr hlaupinu. Ef maður er peningalaus þá er maður ekkert betur settur með að hætta en að halda áfram - nema auðvitað að maður sé í einhverri hættu en þá er alltaf hægt að stinga af inn í sjúkratjald. Smá sársauki er bara hluti af stemmingunni,“ segir Baldur.

Baldur tók lítið sem ekkert með sér í hlaupið og …
Baldur tók lítið sem ekkert með sér í hlaupið og segir eitt besta ráðið vera að fara peningalaus því þá sé erfiðara að hætta í miðju hlaupi. Ljósmynd/Aðsend

 Þarf líklega að læra að pissa á mig á hlaupum

„Hluti af undirbúningnum fyrir hlaup er að ná góðum svefni dagana á undan. Fyrir Boston fór svefnundirbúningurinn út um gluggann enda var flogið aðfaranótt sunnudags og hlaupið á mánudegi. Mæli ekki með því en ég var svo óheppinn að fluginu var frestað um 11 tíma og þetta varð raunin. Mér þykir samt góður svefn daginn fyrir hlaupið ekki það mikilvægur, maður er hvort sem er það peppaður og tilbúinn í þetta. Maður má ekki stressa sig of mikið á honum. Ég á tvö ung börn og hef mögulega misst of mikinn svefn á síðastliðnum árum til að vera dómbær á þetta.“ Þegar kemur að því hvað eigi að borða fyrir hlaup þá reynir Baldur að borða tvær ristaðar brauðsneiðar, banana og vatnsglas. „Í þessum stóru hlaupum úti fer þetta allt í rugl. Maður sættir sig við bara eitthvað svo lengi sem það fer vel í magann. Fyrir Boston var það beygla, þrír bananar og vatn. Og láta a.m.k. tvo tíma liða áður en maður leggur í hann. Ekki vera að drekka rétt fyrir hlaup, ég asnaðist að taka einhverja sopa rétt fyrir hlaup og neyddist til að stoppa í byrjun hlaups og pissa. Ekki gott. Tekur allt of langan tíma, ná sér niður, pissa og koma sér af stað aftur. Ég þarf væntanlega bara að læra að pissa í mig á hlaupum. Það kemur kannski seinna.“ Að loknu hlaupi er svo komið að rúsínunni í pylsuendanum, verðlaununum. En með hverju skyldi Baldur verðlauna sig eftir svona erfiði? „Mín verðlaun að loknu svona löngu hlaupi er bjór, eins fljótt og hægt er. Næri mig strax eftir hlaup af því sem maður fær gefins í lok hlaups eða af einhverju hollu sem er mikilvægt að fá sér strax eftir hlaup. Píni matinn og vökvann í mig en svo er það bara bjór. Svo góð steik um kvöldið.“


Þeir sem hafa áhuga á því að taka þátt í svokölluðum elítuhlaupum, eins og Boston-maraþonið er, þurfa í flestum tilfellum að hafa náð tilteknum lágmarkstíma í  maraþoni sem miðaður er við aldur hlauparans til að öðlast þátttökurétt. Lágmarkstíminn fyrir 35 ára er eitthvað í kringum þrjá tímana. „Það er ekki hlaupið að því að ná þessum tíma, ég býst alla vega ekki við því. Ég fór því í gegnum ferðaskrifstofuna Bændaferðir sem fær úthlutað ákveðið mörgum sætum í Boston-maraþonið á hverju ári.“ Nánari upplýsingar um hlaupaferðirnar má finna hér.

mbl.is