Miðaldra konan sett í keppnisbann

Pistlahöfundur ásamt Tinnu, dóttur sinni.
Pistlahöfundur ásamt Tinnu, dóttur sinni. Ljósmynd/Viktor Logi Þórisson

Búin að vera á innihjólaæfingum hjá Þríþrautafélagi Kópavogs síðan í október 2018 og svo útiæfingar allan maí. Að vísu á götuhjóli en kona þarf að ná í sig hjólakílómetrum og sannarlega læra að elska hnakkinn sinn. Ég var síðan svo heppin að fá lánað fjallahjól hjá Dísu eiganda Fjallakofans til að æfa fyrir þrautina sem og að nota í sjálfri keppninni. Það kom mér skemmtilega á óvart að ég elska að vera á fjallahjóli og það er sannarlega komið á listann að fjárfesta í einu slíku sem fyrst.

Fyrsta æfingin fyrir Bláa Lónið var í byrjun maí. Þetta var sameiginleg hjólaæfing hjá FÍ Landvættum sem ég komst reyndar ekki á þar sem ég átti enn eftir að kaupa mér götuhjól. Eftir æfingu var síðan fræðsla á vegum Maríu Agnar og Haffa í Hjólaþjálfun og verkstæði. Þau fóru yfir allt það helsta.

· Ekki vera of vel klædd, það verður alltaf heitt

· Vera með góð gleraugu til að fá hvorki flugu né drullu í augun, líka þegar rignir

· Æfa sig að drekka úr brúsa á ferð.

Þetta með að klæða sig ekki of mikið var sem sagt ekki bara bundið við gönguskíðin. Mantran hans Róberts Marshall annars forsvarsmanna FÍ Landvætta glumdi í kollinum á mér.

„Ásdís, það er betra að vera kalt í startinu en að stikna úr hita í marga klukkutíma“. Já, ég var sko alveg búin að læra þetta eftir að hafa verið ofklædd í 2 skíðagöngumótum. Það er í alvörunni pínu eins og að fara í sauna í dúnúlpu. Kannski í lagi í 5 mínútur en alls ekki í 3-4 tíma.

Eftir fyrsta fjallahjólatímann með Landvættum kom líka í ljós að þetta flugudæmi var raunverulegt nema okkar fóru allar í munninn. Þó að skordýr þyki gífurlega próteinrík þá er ekki málið að gleypa þær á miklum hraða. Þær festast í hálsinum og þarna hefði verið frábært að kunna að drekka úr brúsa á ferð.

Tæknihefta konan þarf að græja sig upp

María og Haffi töluðu um hvaða tæki og tól við þyrftum að eiga til að geta bjargað okkur ef það t.d. springi á hjólinu eða keðjan slitnaði. Þú verður einfaldlega að geta bjargað þér. Mér fannst þetta pínu stressandi og flókið, því þó ég komi úr mikilli bifvélavirkjafjölskyldu, (pabbi, afi og föðurbróðir minn eru alli bifvélavirkjar) þá hef ég lagt mikinn metnað í að vita sem minnst um allt sem tengist viðgerðum og bara kallað til sérfræðinga þegar eitthvað kemur upp á. Þetta viðhorf reyndist vera risaeðla, algjörlega útdautt og núna var bara kominn tími fyrir konu að verða sjálfbær og kaupa nokkur verkfæri og græjur. Einu sinni kunni ég helling, var meira segja mjög snögg að skipta um dekk, svo hætti ég að nenna þessu. Það virkar ekki á fjallahjóli þar sem þú nennir bara ekki að labba með fjallahjól tugi kílómetra til byggða af því að keðjan slitnaði, og það er sannarlega enginn að koma að sækja þig enda yfirleitt ekki bílfært þar sem er verið að hjóla. Þau hömruðu á því að vera með græjurnar því jafnvel þó að þú kunnir ekki að skipta um dekk, væru alltaf góðar líkur á því að einhver kynni það og myndi stoppa til að redda þér.

Þrátt fyrir að vera með nokkrar háskólagráður og ein af þeim er kerfisfræði, er ég ekkert rosalega tæknilega sinnuð. Ég þoli hvorki að þurfa að skipta um síma né að fá nýja uppfærslu af hugbúnaði. Vil bara að allt virki alltaf. Það var því rosalega mikil áskorun þegar ég keypti mér Garmin úr að láta það tengjast bæði Training Peaks og Strava. Það fór svo á endanum að ég bugaðist og hringi neyðarsímtal til Margrétar Pálsdóttur, sem reddaði öllu á

núlleinni. Ég hef ekkert svo miklar áhyggjur af því að falla á tímamörkum þ.s. ég er komin með fínt úthald, heldur muni ég annað hvort villast eða það verði tæknilegir örðugleikar sem fella mig. Núna þarf bara kona að girða í brók og gerast tæknitröll með innbyggðan áttavita.

María talaði um að keppendur væru á bilinu 1.20 klst til 4.30 klst og það væri því mikilvægt að nesta sig í samræmi við það. Þarna kem ég nú sterk inn. Ekki ennþá mætt þar sem ég er ekki ofnestuð en eins og með annað þá lærist það smátt og smátt. Ég ákvað að skoða nestisplön miðað við 4.30 tíma og nei, ég ætla hvorki að læra að borða né drekka á ferð. Ég er búin að æfa síðan í október fyrir þetta mót og ætla ekki að taka neina sjensa að ég fari brjóta mig með því að detta á ferð þegar ég missi jafnvægið á meðan ég borða. Hversu glatað yrði það nú? Mér fannst bara ekki skipta neinu máli hvort ég yrði, 4:20, 4:25 eða 4:30. Mér fannst skipta meira máli að klára þrautina óbrotin og komast í mark.

Keppnin hefst kl 20.00. María sagði að það væri nú ekkert endilega ekki kostur að geta sofið út, þá er bara lengri tími til að stressa sig og fá í magann. Þrátt fyrir að eiga ekki langan íþróttaferil að baki þá sef ég alltaf illa nóttina fyrir keppni og fæ í magann.

Góður hjólahópur saman komin á sólríkum degi.
Góður hjólahópur saman komin á sólríkum degi. Ljósmynd/Halldóra Gyða

Er hægt að smitast af lofthræðslu?

Svo fór María að tala um hækkanir og þá datt ég aðeins út. Málið er að ég hef ekkert alltaf verið lofthrædd. Þegar ég var tvítug, ferðaðist ég í sex mánuði um Suður Ameríku með Rebekku vinkonu minni . Fór með allskonar kláfum og litlum flugvélum hingað og þangað og naut þess. 2006 fór ég upp í Holmenkolmen, gamla skíðastökkpallinn í Oslo og gjörsamlega sturlaðist þarna uppi. Þessi lofthræðsla hefur ekkert háð mér mikið, ég bara keyri ekki út á land eða fer út á svalir í skýjaklúfum. Hins vegar eftir að ég byrjaði í Landvættunum kom í ljós að lofthræðslan var farin að há mér verulega. Sem hluti af undirbúningi fyrir Bláalónsþrautina hjóluðum við sjálfa leiðina í bútum. Einn daginn tókum við síðasta bútinn. Það var ekkert mál að fara upp Ísólfsskálabrekkuna en þegar við fórum niður þá fannst mér bara geðveikt bratt báðum megin og það endaði á því að ég fór af hjólinu og labbaði niður brekkuna. Brynhildur Ólafsdóttir, yfirlandvættur var þarna rétt á eftir mér og eftir brekkuna sagði hún. Ásdís, þú getur ekki labbað niður brekku á miðjum veginum, það er bara stórhættulegt. Hvers vegna varstu ekki hægra megin. Nú, afþví að það var svo bratt. Hún skildi ekki alveg hvað ég var að tala um. Þegar ég kom í mark einna síðust afþví að það tefur konu frekar mikið að labba niður brekkur, skildi enginn hvað ég var að tala um. Það var á þessu augnabliki sem bæði ég og Brynhildur áttuðum okkur á því hversu slæm lofthræðslan er. Málið hefur því verið sett í hendur á fagaðila því ég ætla ekki að láta lofthræðsluna koma í veg fyrir neitt framar. Þetta skipti ekki svo miklu máli þegar ég var ekki að stunda íþróttir og var alveg sama hvort ég gæti hjólað hringinn í kringum landið eða ekki. Núna stend ég hins vegar frammi fyrir því að ég mun ekki geta tekið þátt í WOW cyclothon, farið í hjólaferðir erlendis eða klifið Kilimanjaro og þá er þetta bara ekki hægt lengur. Fyrir utan þetta smáatriði að það er víst stórhættulegt að labba á miðjum veginum. Málið er einfalt, í hvert skipti sem þú lúffar fyrir fóbíu, fer hausinn á þér í smá spað og það er erfitt að berjast í keppni þegar hausinn vinnur á móti þér, þegar þér finnst þú vera aumingi. Eftir hjólaferðina skoðaði ég Strava hjá hinum. Þau fóru niður brekkuna á 40 km hraða, ég á 12 km.

Gullfallegi fákurinn í sínu náttúrulega umhverfi.
Gullfallegi fákurinn í sínu náttúrulega umhverfi. Ljósmynd/Ásdís Ósk

Loksins komin með hjólaskó

Sunnudaginn 2. júní var hjólaæfing hjá Breiðablik. Þetta eru bestu æfingarnar. Við hjólum í ca 3 klst, náum svona 60 km og tökum gott stopp á kaffihúsi á leiðinni. Algjörlega fullkominn sunnudagur. Mér stóð reyndar líka til boða að fara á fjallahjólaæfingu. Ég ákvað að taka götuhjólaæfinguna. Mig langaði að prófa nýju hjólaskóna mína á götuhjóli áður en ég prófaði hjólaskó á fjallahjólinu. Ég var líka með nokkrar fjallahjólaæfingar planaðar. Við Hilda

ætluðum að taka fjallahjólaæfingu seinni partinn og ég var skráð á fjallahjólanámskeið hjá Tindur tvo daga í næstu viku auk Landvættaæfingar. Ég var búin að æfa mig helling að fara í og úr skónum og tók svo einn hjólatúr með krökkunum þar sem heyrðist reyndar F... reglulega því ég var í vandræðum með að festa þá á hjólið, aldrei að losa þá. Ég gjörsamlega dýrka þessa skó. Þeir sem fara í hjólaskó tala um mikinn mun á hraða auk þess sem það er miklu auðveldara að fara upp brekkur og mér veitti sko ekkert af því að auka aðeins hraðann. Mér leið mjög vel í skónum og ekkert mál að losa mig í og úr. Við Hörpu datt ég reyndar næstum því en var svo heppin að hann Rúnar var við hliðina á mér og rétti mig af. Við hjóluðum upp í Mosfellsbakarí, þeir selja alveg frábært avocadobrauð. Við stoppuðum, ég losaði hægri skóinn og fannst ég hafa losað vinstri skóinn og steig af baki vinstra megin. Regla númer eitt. Það er ekki nóg að finnast eitt eða neitt. Þú verður að vera alveg viss. Það sem gerðist næst var eins og hæg endursýning á Strandvörðum þar sem Pamela Anderson hleypur þokkafull eftir ströndinni, nema ég er dökkhærð og alveg kjurr á gangstétt. Ég vissi bara ekki að það væri hægt að detta svona rosalega hægt. Heppnin var með mér. Það var fullt af áhorfendum sem sáu mig detta. Ég rauk á fætur, eða sko ætlaði að gera það en var ennþá föst við hjólið. Náði loksins að losa mig og við fórum inn í bakarí. Var pínu aum í hendinni en hélt að þetta væri bara smá mar og fannst líklegt að ég myndi þurfa að fresta fjallahjólaferðinni með Hildu seinni partinn. Eftir góða kaffipásu hjóluðum við til baka. Hópurinn minn spurði reglulega hvort ég væri í lagi. Hélt það nú, það var samt pínu vont þegar ég bremsaði og svo heyrðist hátt F... þegar ég hjólaði óvart ofan í holu. Þá vildi Halldóra mín senda mig heim í bíl. Mér fannst það algjör óþarfi, var bara smá aum. Lofaði samt að kæla þetta þegar ég kæmi heim og láta kíkja á hendina ef hún skánaði ekki.

Kona breytir um plan

Kom heim, kældi mig og ákvað svo að fara úr sveittum hjólafötum. Það var á því augnabliki að ég áttaði mig á því að líklega væri þetta aðeins meira en mar þegar ég gat ekki klætt mig úr peysunni fyrir sársauka. Fékk mér klakapoka og fékk eldri strákinn minn, hann Axel Val til að skutla mér uppá slysó. Á leiðinni reyndi ég að sjóða saman plan hvernig ég kæmist að á eðlilegum tíma, helst undir þremur tímum, því þarna var ég að verða ansi verkjuð og miðaldra konur komast eiginlega bara framfyrir miðaldra menn á slysó.

Það reyndust óþarfa áhyggjur. Það var akkúrat enginn að bíða og á móti mér tekur yndisleg kona, setur mig í hjólastól svo ég þurfi ekki að halda undir höndina og ég skrái mig inn. Axel rúntar síðan með mig á næstu hæð. Ég var ennþá pollróleg með að vera marin, max tognuð og planið var að hvíla fram að móti. Pínu klúður því mér veitti sannarlega ekki af æfingunni. Var búin að hlakka mikið til 2ja daga fjallahjólanámskeiðisins hjá Tindur á mánudag og miðvikudag. Læknirinn rétt svo skoðar hendina og segir, ég er ansi hrædd um að þú sért brotin. Ég ætla að senda þig í röntgen. Það er pínu klúður segi ég. Ég er að fara að keppa í hjólreiðum eftir viku. Nei, það er nú ekki alveg að gera sig sagði læknirinn. Fór í röntgen og júbb, brot við olnboga. Vægt brot en samt gifs í 10 daga og lítið sem má gera í 4-6 vikur. Þarna dó Landvættur 2019 og var uppfærður í 2020 á núlleinni. Ég ætla ekkert að slá sundið eða hlaupið út af borðinu alveg strax samt. Læknirinn sendi mig síðan í gifsun og ég fékk 2 frábæra nema. Fæ mér sæti og það fyrsta sem ég rek augun í er tilkynning um námskeið um gifsun á úlnlið næstkomandi miðvikudag. Ákvað að spyrja nemana. Eruð þið búin að fara á þetta námskeið? Nei reyndar ekki. Já ok, en námskeið um gifsun á olnboga. Nei, ekki heldur, hmm...er ekki kostur að taka þau? Þau bentu góðlátlega á að þau væru að gifsa svona 3-4 á dag þannig að þau væru alveg meðetta. Rétt áður en þau byrja að gifsa ákvað ég að spyrja hvernig ég kæmist svo úr hjólabolnum þegar ég væri komin með gifs. Þú getur mögulega komið erminni yfir eða við getum klippt hann. Nei það gengur nú ekki. Þetta er uppáhaldsbolurinn minn, hann er í stíl við bæði hjólið og skóna. Það varð því úr að þau lánuðu mér bol sem ég lofaði að skila í endurkomunni. Ég hef nefninlega ekki mikla reynslu af því að vera gifsuð. Síðast þá var ég minnir mig sex ára. Datt á skautum og flækti mig í hjóli og braut hægri hendina. Mér fannst þjónustan á slysó alveg frábær og fékk meira að segja að velja mér lit á gifsið, pínu eins og að vera orðin sex ára aftur. Valdi fjólublátt þar sem það er í stíl við flest fötin mín. Svo mikið að stundum tekur fólk bara ekkert eftir því. Fékk samt engan sleikjó fyrir að vera dugleg.

Ég er ekki fastagestur á slysó þó að ég hafi komið með börnin stundum. Það virðist pínu fylgja því að hvert barn brjóti sig að minnsta kosti einu sinni.

Ég sjálf kom síðast á slysó í desember 2014. Þá var ég búin að æla í viku og búin að útiloka flensu. Þegar ég kom uppeftir þá var salurinn næstum því innsiglaður og fyrsta spurningin sem ég fékk var hvort ég væri nýkomin frá Vestur Afríku. Þetta var nefninlega á Ebolatímabili og þeim leist bara ekkert á mig. Þurfti samt bara næringu í æð og magabólgupillur til að hressa mig við.

Ég er bara einhvern veginn alltaf fáránlega heppin. Þrátt fyrir að ég lendi í brekkum reglulega þá fer þetta alltaf vel þannig að ég er bara spennt að sjá hvert þessi beygja leiðir mig.

Það sem stendur upp úr er að þetta er besta hjólaferðin mín. Ég fékk 49 kórónur á Strava sem þýðir að ég bætti mig gífurlega. Ég mæli hiklaust með svona skóm, það þarf bara að æfa sig vel eins og með allt annað. Ég hef fengið mjög mikið af athugasemdum síðustu daga um hversu hættulegar hjólareiðar séu og ennþá meira um þessa blessuðu skó. Ég brosi bara og spyr hvort að viðkomandi þekki einhvern sem hafi lent í árekstri, jú flestir kannast við einhvern. Ég spyr þá á móti, og er þetta fólk í alvöru ennþá að keyra bíl, hætti það því ekki strax?

Svo er ég auðvitað pínu nagli að hafa hjólað heim 20 km handleggsbrotin. Auðvitað hefði ég aldrei gert það ef mig hefði grunað að þetta væri eitthvað meira en slæmt mar.

Góð heilsa er gulli betri

Mér finnst ég rosalega heppin. Ég er í góðu formi og það er sannarlega allt auðveldara þegar þú ert ekki að burðast með 25 aukakíló. Þetta er lífsstílsbreyting, ekki ein hjólakeppni. Auðvitað er pínu svekkjandi að missa Fossavatnið út þar sem það verður að klára allar þrautirnar á 12 mánuðum en ég var hvort sem er búin að ákveða að fara 50 km á næsta ári. Ég hugsaði oft hversu svekkjandi yrði það nú að slasa sig og missa af móti. Hversu heppin er þá kona að gera þetta á öðru móti en ekki því síðasta?

Þetta er frábær áminning hversu mikilvægt það er að vera við góða heilsu og vera heilbrigð. Bara að vera í gifsi á vinstri tekur á. Þú getur ekki hent þér í langa heita sturtu án undirbúnings, ekki farið í sund í sólinni. Þú ert alveg hrikalega lengi að pikka á lyklaborð með annari. Þú getur ekki einu sinni reimað skóna þína eða sett hárið í teygju.

Tiu ára dóttir mín spurði, mamma fórstu að gráta þegar þú dast. Nei, þetta var ekkert svo vont. Vá, sagði hún. Mikið svakalega ertu dugleg.

Ég er búin að fá ótrúlegt magn af fallegum kveðjum og símtölum. Ég er þakklát fyrir allt yndislega fólkið í kringum mig og að þetta er bara tímabundið bakslag. Það eru 2 þrautir eftir, sund og hlaup. Ég mun vonandi ná þeim báðum. Í versta falli næ ég að skoða aðstæður og verð best undirbúni Landvætturinn 2020. Ekki margir sem fá að prófa allar þrautir fyrir keppni, svona generalprufa í hreysti.

Núna taka við nokkrar vikur þar sem ég æfi mig í æðruleysi og þakklæti og ég er búin að virkja bókasafnskortið mitt.

Ég þakka fyrir að vera í deitbanni þar sem einhent kona er bara í lágmarks viðhaldi. Það er til dæmis engin að nenna að slétta á sér hárið með annarri. Ég þarf nú samt eitthvað að endurskoða þetta deitbann sem átti að vera þar til ég klára Landvættinn enda var jú planið að klára hann 2019.

Pistlahöfundur lætur ekkert stöðva sig.
Pistlahöfundur lætur ekkert stöðva sig. Ljósmynd/Viktor Logi Þórisson

Kostir og gallar við breytt plan

Helsti gallinn sem ég sé við þessa breytingu á planinu er að ég er ekki lengur krúttlegi nýliðinn sem get komist upp með að klára þrautirnar á lágmarkinu afþví að ég er svo nýbyrjuð að æfa og kann ekki neitt og það er bara afrek að komast í mark. Nei, ekkert svoleiðis. Þegar ég fer í Bláa Lónið 2020 er ég reynslubolti sem er búin að æfa síðan í október 2018 og búin að eiga útihjól í rúmt ár. Þarf pottþétt að fara undir 3 klst. Kosturinn við það er að ég mun þá komast frítt ofan í Bláa Lónið sem ég var ekki að gera ráð fyrir að ná í ár. Annars er ég búin að stórgræða á þessu falli. Seldi Bláalónsmiðann minn, hvítasunnuhlaup miðann minn og fékk Fjallahjólanámskeiðið endurgreitt. Að vita að ég muni svo pottþétt fá frítt ofan í Bláa Lónið á næsta ári er bara punkturinn yfir i-ið.

Hvað er þá næst á dagskrá? Eyða hvítasunnuhelginni í þunglyndi bara afþví að ég missti af einu hjólamóti. Held nú ekki. Sjaldan verið svona gott veður. Á meðan óbrotnir Landvættir eyddu deginum í stress að bíða eftir mótinu, telja orkugel og endurraða í bakpokanum sínum fór ég í sólbað á pallinum með góða bók. Það eru að vísu nokkrir hnökrar á því að vera í sólbaði með gifs. Þú getur ekki borið sólarvörn á hina hendina, þú getur bara legið á bakinu og þegar gifsið verður tekið mun vera hressilegur litamunur á handleggjunum.

Ég mætti svo galvösk í Bláa Lónið rúmlega 23:00 til að kíkja á mitt fólk og anda að mér stemmingunni og svo auðvitað fá mér súpu. Ég var alveg búin að vinna fyrir þessari súpu þó að ég hafi ekki hjólað akkúrat þetta kvöld. Það voru samt allir með pening um hálsinn nema ég. Það var allt í lagi, ég á fullt af þeim, eða sko nákvæmlega 5. Einn fyrir róður á sjómannadaginn, eitt keilumót fyrir 20 árum, 10 km í Reykjavíkurmaraþoni og 2 gönguskíðamót.

Ég hef núna heilt ár til að undirbúa klæðnað og næringu þannig að ég verð best undirbúni keppandinn. Rúsínan í pylsuendanum er síðan að ég er næstum Landvættur 2019 og verð svo Landvættur 2020 sem þýðir að ég mun eiga tvær Landvættapeysur og kynnast tveimur hópum af Landvættum.

Ég þurfti bara aðeins að endurskoða planið mitt. 2020 ætlaði ég nefninlega að gerast FÍ Landkönnuður, fara í 2 Goldmaster worldloppet skíðagöngur og taka hálfan járnkarl og eitt maraþon. Eftir smá íhugun þá var það eina sem ég þurfti að fresta var FÍ Landkönnuður, allt hitt er meira og minna sama prógrammið.

Eru þetta metnaðarfull markmið? Svo sannarlega. Get ég þetta? Alveg sannfærð um það. Ég hef bara aldrei verið í betra formi en í dag. Eða laugardaginn fyrir viku. Í dag er ég aðeins off. Þegar ég byrjaði að hlaupa í maí 2018 gat ég ekki hlaupið meira en 1 mínútu í einu, þannig að ég veit að þetta er bara spurning um að setja upp plan, mæta, æfa og halda áfram að bæta sig.

Þetta er bara fín áminning um að tileinka sér æðruleysi og gera allt aðeins hægar. Fækka bara verkefnum og vera bara í núinu og njóta. Það þarf ekkert að fylla alla daga af verkefnum og verkefnalistum. Stundum er bara alveg nóg að njóta þess að vera bara til.

 

Fyrir þá sem vilja fylgjast með Ásdísi Ósk má fylgja henni á Instagram: asdisoskvals

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert