Á hlaupum frá því hún flutti til Íslands

Fjölskyldan lætur fátt stöðva sig.
Fjölskyldan lætur fátt stöðva sig. Ljósmynd/Úr einkasafni

Upphaflega ætlaði Daria að búa á landinu í ár en fann að hún elskaði land og þjóð og skynjaði að það væri svo sannarlega gagnkvæmt. Eftir að hafa búið í tvö ár á Íslandi venti Daria kvæði sínu í kross, fór í Háskóla Íslands og kláraði BA í íslensku sem annað mál og rússnesku. Í dag vinnur hún sem íslenskukennari fyrir útlendinga auk þess sem hún kennir spinning á líkamsræktarstöðinni Lífsstíl í Keflavík. Daría er mikill hlaupagarpur og byrjaði að hlaupa fyrir alvöru eftir að hún flutti til landsins, í dag hleypur hún 3-4 sinnum í viku og er dugleg að taka þátt í ýmiss konar hlaupakeppnum sem haldnar eru á landinu.

Daría og Elvar Þór með Júlían Þór á vökudeild Barnaspítala …
Daría og Elvar Þór með Júlían Þór á vökudeild Barnaspítala Hringsins. Ljósmynd/Úr einkasafni

Daría og Elvar Þór, kærastinn hennar, eignuðust soninn Júlían Þór í fyrra en Daría missti legvatnið þá einungis gengin 32. vikur. „Júlían Þór fæddist tveimur vikum seinna og þurftum við að vera á vökudeildinni á Barnaspítala Hringsins fyrstu tíu dagana. Það var mjög stressandi og erfitt svona í fyrstu en hann stækkar hratt og það gengur vel núna. Við vorum mjög heppin að fá að kynnast því góða fólki sem vinnur á Vökudeildinni, þau voru frábær.“ Eftir að sonurinn braggaðist ákváðu þau Elvar Þór að kaupa hlaupakerru svo þau gætu farið öll saman út að hlaupa. „Ég hef tekið þátt í nokkrum hlaupakeppnum með Júlían í kerrunni, hann unir sér vel þar og finnst gott að sofa í kerrunni á meðan ég hleyp.“

Daría er ein af þeim sem ætlar að hlaupa fyrir vökudeild Barnaspítala Hringsins í Reykjavíkurmaraþoninu í ágúst en þau mæðginin stefna á 10 km. „Ég ætla að hlaupa fyrir allar hetjurnar á vökudeildinni. Við erum óendanlega þakklát starfsfólki deildarinnar fyrir alla þá hjálp og ráðleggingar sem við fengum á þeim tíma sem við vorum þar. Við vonum að okkar framlag komi að góðum notum fyrir deildina.“

Hægt er að styrkja Daríu og Júlían Þór hér og einnig má fylgjast með fjölskyldunni á Instagram-síðu Daríu: darkabiegarka

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert