Kambódía: Hæstu hæðir og lægstu lægðir

Spírurnar á Bayonmusterinu brosa framan í gesti, rétt eins og …
Spírurnar á Bayonmusterinu brosa framan í gesti, rétt eins og heimamenn gera sjálfir. Ljósmynd/AI

Það væri skiljanlegt ef þeir sem sækja Kambódíu heim freistast til að kenna í brjósti um innfædda. Forfeður þessa heillandi fólks byggðu upp mikið veldi, sem frá 9. til 15. aldar lagði undir sig stóran hluta Suðaustur-Asíu, en í dag búa landsmenn við sára fátækt og eru nærri því ósýnilegir á milli nágranna sinna: ferðamannaparadísarinnar Taílands til vesturs, en til austurs Víetnams sem svo mörgum þykir – eins undarlegt og það kann að virðast – sveipað ákveðnum ljóma eftir stríðsbrölt Bandaríkjamanna þar á sínum tíma.

Og hver veit; kannski myndi heimsbyggðin varla vita að Kambódía væri til ef ekki væri fyrir hallarbyggingarnar og musterin sem franskur landkönnuður rambaði á í frumskóginum á 19. öld, skammt frá borginni Siem Reap sem þá var bara agnarsmátt þorp. „Hér eru byggingar sem jafnast á við musteri Salomóns, sem hljóta að hafa verið reist af einhvers konar Michelangelo fyrri alda,“ skrifaði Henri Mouhot í ferðabókum sínum. Í dag þykja Angkor Wat-musterisbyggingarnar einhver merkustu undur veraldar.

Eitt af undrum veraldar og staður engum öðrum líkur: Angkor …
Eitt af undrum veraldar og staður engum öðrum líkur: Angkor Wat. Ljósmynd/AI

Það var í þessu sama landi, þar sem konungar létu byggja risavaxin og óviðjafnanleg mannvirki, sem framdir voru einhverjir ljótustu glæpir okkar tíma: þegar Rauðu kmerarnir – Kommúnistaflokkur Kampútseu – komust til valda og murkuðu lífið úr fjórðungi landsmanna. Voðaverk þeirra voru slík að margir ferðamenn, og jafnvel fólk sem búið hefur og starfað lengi í höfuðborgini Phnom Penh, hafa ekki geð í sér til að heimsækja safn sem þar er að finna í gamalli skólabyggingu sem notuð var sem fangelsi, pyntinga- og aftökustaður þeirra sem lentu í sigti Pol Pot og undirsáta hans. Þar voru 20.000 konur, karlar, ungmenni og börn leidd inn en aðeins tólf auðnaðist að komast þaðan á lífi.

Hörmungarnar áþreifanlegar

En þar byrjum við ferðina um Kambódíu, enda er S-21-fangelsið staður sem öllum er hollt að vitja, þó ekki væri nema til að muna hve brýnt það er að sitja ekki aðgerðalaus hjá þegar illskan lætur á sér kræla.

Það er erfitt, en um leið mikilvægt, að heimsækja S-21 …
Það er erfitt, en um leið mikilvægt, að heimsækja S-21 fangelsið. Ljósmynd/AI

Safnið lætur ekki mikið yfir sér, séð frá götunni, enda byggingin upphaflega ósköp venjulegur skóli í ósköp venjulegu hverfi Phnom Penh. Skólastofunum var einfaldlega breytt í pyntingaklefa, eða hólfaðar niður með múrsteinum til að búa til agnarsmá box þar sem hlekkjaðir fangarnir biðu örlaga sinna. Það sem gerir heimsókn í S-21 svo áhrifaríka er að nánast engu hefur verið breytt og eins og pyntingatólin hafi síðast verið notuð í gær. Í fyrstu byggingunni sem gestir heimsækja, þar sem pyntingarnar fóru fram, standa ennþá úti á miðju gólfi sömu rúmgrindur og fangarnir voru festir við. Uppi á veggjum herbergjanna hanga myndir sem sýna fangana þar sem þeir lágu – liðin lík – í þessum sömu rúmgrindum, því þegar kvalarar þeirra lögðu á endanum á flótta gættu þeir þess að drepa fórnarlömb sín fyrst. Kmerarnir starfræktu a.m.k. 150 önnur fangelsi af svipuðum toga.

Vönduð hljóðleiðsögn leiðir gesti frá byggingu til byggingar, frá herbergi til herbergis, og við lok ferðarinnar má staðnæmast við lítið hús þar sem einn af föngunum sem komust lífs af er stundum til taks ásamt túlki, reiðubúinn að fjalla um það sem hann upplifði á þessum sama stað. Sagan er ekki fjarlægari en svo.

Í átt til himins

Eftir heimsókn í S-21 er ekki úr vegi að róa sálina og fá far með túk-túk að konungshöllinni. Hallarsvæðið er að stærstum hluta opið almenningi og þar má finna friðsæld í skrautlegum viðhafnarbyggingum og musterum sem teygja sig upp til himins. Léttklæddir ferðamenn geta keypt léttar síðar buxur við innganginn til að hylja hnén eða sjöl til að hylja efri hlutann, því þyrpingin öll er helgur staður og trúarhefðirnar kalla á að sýna vissa virðingu í klæðaburði. Rétt er að benda sérstaklega á lítinn skála sem Napóleon III gaf konungi Kambódíu á 19. öld. Skálinn lítur næstum út eins og stórt dúkkuhús í evrópskum stíl og er gerður úr járni.

Angkor Wat-svæðið er risavaxið.
Angkor Wat-svæðið er risavaxið. Ljósmynd/AI

Þar með eru áhugaverðustu áfangastaðir Phom Penh upptaldir, ef undan er skilinn Vattanac-turninn sem gnæfir yfir borginni og var opnaður árið 2014. Þessi nútímalegi turn er nokkuð vel heppnaður og á efstu hæðunum má finna smekklega hannaða veitingastaði að ógleymdum bar á stórum svölum með útsýni í allar áttir.

Leifar stórveldis

Frá Phnom Penh liggur leiðin til Siem Reap, og best að fara með flugi. Rútuferðir eru í boði, en taka hálfan daginn og ekki svo dýrt að setjast í staðinn upp í flugvél í 30 mínútur. Í báðum borgum eru flugvellirnir smáir og auðveldir við að eiga.

Þó svo töluverður fjöldi ferðamanna heimsæki Angkor Wat er sjaldan þvaga á svæðinu, enda breiða musterin úr sér um risastórt svæði. Fyrir vikið er upplifunin mjög ekta og hægt að komast í einstakt návígi við söguna. Byggingar sem áður voru eflaust aðeins aðgengilegar konungum og æðstuprestum eru í dag staðir þar sem gestir frá öllum heimshornum gapa af undrun yfir nákvæmum lágmyndum af æsilegum orrustum og hverfa á vit löngu liðinna tíma innan um steinsúlurnar.

Þeir sem kæra sig um geta hæglega varið heilli viku í að rannsaka Angkor Wat. Svæðið spannar rösklega 160 hektara og hafa fornleifafræðingar fundið meira en 70 stór musteri innan um frumskógargróðurinn og alltaf er eitthvað nýtt að koma í ljós.

Flestum dugar samt einn dagur og geta hótelin í bænum komið í kring ferð með einkaleiðsögumanni og túk-túk fyrir lítið. Þykir ágætis dagspakki að sjá aðalmusterið, sem Angkor Wat-svæðið er nefnt eftir, Bayon-musterið, þar sem stór andlit hafa verið höggvin út í steininn, og loks Ta Prohm – sem sumir kalla Tomb Raider-musterið, eftir að atriði í samnefndri mynd Angelinu Jolie var tekið þar upp. Í Ta Prohm hefur viðgerðum af ásetningi verið stillt í hóf svo gestir geti séð hvernig trjágróðurinn tók svæðið yfir eftir að mannfólkið hvarf.

Gesturinn ræður ferðinni og getur leyft leiðsögumanni og ökumanni að snúast í kringum sig eins og honum hentar, en þó er gert ráð fyrir hádegishléi til að hvílast og matast og er þá ekið stuttan spöl að jaðri musterasvæðisins þar sem sæmilegur matur er í boði á ágætum og snyrtilegum veitingastöðum.

Að öðru leyti er ekki margt að sjá í Siem Reap, en í miðbænum má finna þyrpingu veitingastaða, öldurhúsa og verslana með túristavarning, og þökk sé stöðugum straumi bakpokaferðalanga er stutt í gleðina á kvöldin.

Svo miklu meira en musteri

Tilviljun réð því að í Phnom Penh gafst tækifæri til að taka stutt viðtal við kambódíska prinsessu. Hennar hátign Sita Norodom er frænka sjálfs konungsins og sölustjóri á hótelinu þar sem gist var. Hún vildi endilega nota tækifærið þegar hún komst á snoðir á um að blaðamaður væri kominn á svæðið. Sita segir umheiminn nefnilega vera rétt að byrja að uppgötva töfra Kambódíu og mikils virði fyrir landsmenn ef þeir ná að laða að fleiri góða gesti.

Hennar hátign, Sita Norodom, segir svo ótalmargt fallegt að sjá …
Hennar hátign, Sita Norodom, segir svo ótalmargt fallegt að sjá og reyna í Kambódíu. Ljósmynd/AI

„Það er margt fleira að sjá en musterin umhverfis Angkor Wat og nú síðast eru ferðamenn farnir að venja komur sínar til musterisins Preah Vihear í norðurhluta landsins. Ástand vega var áður þannig að erfitt var að komast að musterinu öðruvísi en í gegnum Taíland, en núna er leiðin greið,“ segir prinsessan. „Svo höfum við einstaka náttúru og dýralíf og mikil upplifun að sjá t.d. Kratie-höfrungana sem lifa í Mekong-fljótinu. Með því að fræða veiðimenn hefur tekist að vernda þennan viðkvæma stofn og ferðalangar heimsækja staði á borð við Kong Kracheh bæði til að upplifa náttúruna og komast í návígi við hefðbundið líf landsmanna.“

Prinsessunni þykir miður að meirihluti ferðamanna skuli aðeins staldra stutt við og verja yfirleitt ekki meira en einum eða tveimur dögum í Siem Reap, og sjá þannig rétt varla nema yfirborðið á heillandi samfélagi, fjölbreyttu lífríki og stórbrotinni náttúru. „Og vilji ferðalangar láta gott af sér leiða má benda á samtök á borð við Nginn Karet sem bæði halda á lofti fornri hefð helgidansa með reglulegum sýningum í Siem Reap samhliða því að fræða og þjálfa ungt fólk sem býr við þröngan kost og bæta velferð samfélaganna á svæðinu með ýmsum hætti.“

Hagnýt ráð fyrir ferðalanginn

Hvenær er best að heimsækja?

Ferðamenn virðast almennt forðast Siem Reap á rigningatímabilinu. Rigningin kemur samt yfirleitt ekki að sök, því þó að rigni mikið kemur yfirleitt bara ein stór skúr (sem gerir boð á undan sér) og þá hægt að skjótast inn á veitingastað á meðan eða gæða sér á nesti. Rigningamánuðirnir eru því ekki slæmur tími til að heimsækja og þeim fylgja bæði meira næði og lægra verð á hótelunum.

Hvað þarf af lyfjum og bólusetningum?

Þótt hættan á smiti í örstuttri ferð sé ekki mikil er alltaf betra að vera með bólusetningarnar í lagi. Hjá göngudeild sóttvarna má fá nýjustu upplýsingar og allar sprautur. Auk þess að endurnýja grunnbólusetningar, ef þess þarf, má t.d. reikna með að læknir ráðleggi bólusetningu gegn lifrarbólgu A og taugaveiki. Oft er heimsókn til Kambódíu hluti af stærra ferðalagi um SA-Asíu sem kallað gæti á frekari bólusetningar.

Ferðalangar ættu að ræða við lækninn sinn um malaríuvarnir og er skynsamlegt að hafa líka meðferðis lyf sem hjálpa við magaveiki, auk plástra s.s. til að verjast blöðrum og hælsærum.

Hverju á að klæðast?

Velja ætti létta og góða gönguskó sem anda vel og höfuðfat til að verjast sterkri sólinni. Í musterum og höllum má reikna með að þurfa að klæðast fatnaði sem nær niður fyrir olnboga og hné og sýnir ekki of mikið af barminum. Nær alltaf er sölumaður í kallfæri með sjal eða „fílahirðabuxur“ til sölu, sem dugar til að fullnægja musterisreglunum.

Hvernig er best að komast þangað?

Hjá ferðaskrifstofunni Farvel eru seldar ferðir til Kambódíu og nágrennis. Ekkert evrópskt flugfélag er með beina tengingu við Siem Reap eða Phnom Penh. Þægilegt getur verið að fljúga með Icelandair og Thai Airways til Bangkok, ýmist í gegnum Arlanda eða Kastrup, en fjöldi daglegra tenginga er á milli Bangkok og Kambódíu. Íslendingar búsettir á svæðinu mæla iðulega með leitarvélinni Ticket 2 Travel (www.t2t.is) til að finna hagstætt verð á flugi til þessa heimshluta.

Ferðalangar ættu að hafa Bandaríkjadali meðferðis, m.a. til að borga 30 dali fyrir vegabréfsáritun við komu í Kambódíu.

Umvafin lúxus og sjarma nýlendutímans

Ef fjárhagurinn leyfir gerir það ferðalög alltaf þeim mun eftirminnilegri að gista á framúrskarandi hótelum með merkilega sögu. Í Kambódíu er valið þá ósköp einfalt: Raffles.
Flestir mektarmenn og -konur sem heimsótt hafa landið hafa valið …
Flestir mektarmenn og -konur sem heimsótt hafa landið hafa valið að gista hjá Raffles. Ljósmynd/AI

Lífskúnstnerar ættu að þekkja Raffles-hótelin vel, en fyrsta hótelið með þessu nafni hóf rekstur í Singapúr seint á 19. öld. Undanfarna áratugi hefur Raffles-merkið breitt úr sér og eignaðist árið 1997 tvö sögufræg hótel í Kambódíu: Grand Hotel d'Angkor í Siem Reap og Hotel Le Royal í Phnom Penh.

Raffles starfrækir sögufræg lúxushótel bæði í Siem Reap og Phnom …
Raffles starfrækir sögufræg lúxushótel bæði í Siem Reap og Phnom Penh. Ljósmynd/AI

Bæði kambódísku hótelin búa yfir einstökum töfrum, og hafa hýst gesti á borð við Charlie Chaplin, Jackie Kennedy Onassis, Charles de Gaulle og Michelle Obama. Þá hefur kambódíska konungsfjölskyldan ræktað náið samband við hótelin, og t.d. býður veitingastaðurinn í Siem Reap upp á margréttaða veislumáltíð eftir uppskrift sem fengin var að láni frá sumarhöll konungsins.

Er óhætt að mæla með konunglegu máltíðinni á Restaurant Le Grand í Siem Reap –hún er ein af þessum sjaldgæfu matarupplifunum sem sprengja alla skala og hleypa svo miklum gleðihormónum af stað að gesturinn er í móki lengi á eftir. Í Phnom Penh er það aftur á móti helgar-brönsjinn þar sem kampavínið, gæsalifrarkæfan, wagyu-nautakjötið og humarhalarnir flæða. Í báðum tilvikum er um að ræða hápunkta þess sem veitingastaðir borganna hafa upp á að bjóða, og verðskulda sérstaka ferð ef fólk gistir annars staðar.

Barinn á Raffles í Phnom Penh er með fallegri rýmum …
Barinn á Raffles í Phnom Penh er með fallegri rýmum í borginni til að fá sér drykk. Ljósmynd/AI

Helst ættu lesendur, ef þeir eiga þess kost, að reyna að taka frá eins og einn dag á hvorum stað til þess eins að njóta hótelsins, panta einn eða tvo kambódíska kokkteila, fá nudd við sundlaugarbakkann og gæla við skilningarvitin – því aðra eins meðferð er erfitt að finna annars staðar, nema þá á margfalt hærra verði.

Blaðamaður gisti á Raffles í boði hótelkeðjunnar AccorHotels.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert