Ég gerði samkomulag við sjálfan mig

Eiríkur Ingi hefur víða komið við á ferð sinni um …
Eiríkur Ingi hefur víða komið við á ferð sinni um landið. Ljósmynd/Úr einkasafni

 Í lok janúar það sama ár hafði togarinn farist undan ströndum Noregs og Eiríkur sá eini sem komst lífs af. Áður en hjálp barst þremur tímum síðar var Eiríkur aleinn á reki á reginhafi, hann taldi í sig kjark og söng hástöfum. „Ég gerði sam­komu­lag við sjálf­an mig; ég ætla að tolla í tíu tíma. Ég ætla ekki að gef­ast upp.“

Tveimur árum síðar vantaði Eirík eitthvað skemmtilegt viðfangsefni og var það vinur hans, Jón Eggert Guðmundsson, sem plantaði þeirri hugmynd um að fara í WOW Cyclothon en ekki sem hluti af hóp heldur einn síns liðs. Eiríki fannst þetta kjörin hugmynd og kláraði keppnina á 76 klukkustundum og 40 mínútum. Segja mætti að þetta hafi einungis verið upphafið að því sem koma skyldi því í kvöld mun Eiríkur leggja af stað í sína fimmtu hringferð og markmiðin eru stór. „Mig langar að komast einu sinni hringinn á undir 55 klukkustundum og hefði í rauninni getað gert það í fyrra ef ég hefði ekki verið í svona miklum rólegheitum,“ segir Eiríkur sem var þá 56 klukkustundir og „eitthvað smá“, eins og hann segir sjálfur. 

Eiríkur svaf ekki í nema 1 klukkustund af þeim 56 …
Eiríkur svaf ekki í nema 1 klukkustund af þeim 56 sem hann hjólaði í fyrra. Ljósmynd/Úr einkasafni

Aðspurður hvað sé ólíkt á milli ára segir hann hafa gaman af því hvað leiðin styttist á milli staða eftir því sem maður fer oftar. „Ég veit svo ekki hvort þetta sé í síðasta sinn sem ég keppi í Cyclothoninu, það kemur bara í ljós, aldrei að segja aldrei. Ég væri aftur á móti til í að prófa að taka þetta á hámarkstíma eða 84 klukkustundum, þá gæti ég sofið lengur og haft gaman af.“
Svefninn er einmitt ekki efst á forgangslistanum í svona keppni og svaf Eiríkur ekki nema í klukkustund af þeim 56 sem hann hjólaði í fyrra. „Draumurinn er að geta hjólað án þess að þurfa að sofa en það gerist víst ekki nema ég nái að hvíla mig vel fyrir keppni, mér sýnist það ekki vera að takast í þetta skiptið.“

Sigríður Hallgrímsdóttir, móðir Eiríks, er einn hans helsti stuðningsaðili en hún hefur farið með honum í keppnina í öll skipti nema eitt, þegar hún var að gæta barnanna, og það er ekkert annað uppi á teningnum núna. „Mamma verður aðallega að keyra í þetta skiptið en áður hefur hún séð um nestið og svona.“

Eiríkur, ásamt öðrum í einstaklingskeppninni, og Hjólakraftur leggja af stað klukkan 19 í kvöld en hægt er að fylgjast með Eiríki á Facebook síðu hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert