„Því miður, við getum ekki hleypt þér um borð.“

Myndin er sviðsett en fangar að vissu leyti léttinn yfir …
Myndin er sviðsett en fangar að vissu leyti léttinn yfir því að vera komin í flugvél með gilt vegabréf. Ljósmynd/Colourbox

Ég trúði ekki mínum eigin eyrum og hló, hélt hreinlega að hún væri að gera í mér gott grín. En svo var ekki, mér var ekki hleypt um borð og ég horfði á eftir ferðafélögum mínum týnast inn í vélina. Ég stóð þarna með kökkinn í hálsinum, nú voru góð ráð dýr. Var draumur minn um að komast í grunnbúðir Everest að verða að engu á einu augnabliki? Þegar ég rankaði við mér og púslaði saman orðunum sem flugvallarstarfsmaðurinn sagði við mig áttaði ég mig á stöðunni og ástæðunni fyrir því að mér var ekki hleypt um borð.

Í Nepal og í fleiri löndum gilda nefnilega þær reglur að ferðamenn sem sækja svæðið verði að hafa gilt vegabréf í að minnsta kosti sex mánuði áður en lagt er upp í ferðina. Vegabréfið mitt gilti í 5 mánuði og þrjár vikur til viðbótar, hvílíkt svekkelsi og sveiattan. Ég var strandaglópur í Kaupmannahöfn og nú voru góð ráð dýr. Til allrar lukku náði ég sambandi við sendiráð Íslands í Danmörku sem vildu allt fyrir mig gera, mikið ósköp er ég enn í dag þakklát fyrir starfsfólkið sem þar vinnur.

Ég bókaði næsta hótel sem ég fann og lagðist á koddann hugsi yfir örlögum mínu, var þessu öllu lokið? Ég pantaði mér mat upp á herbergi og þegar hótelstarfsmaðurinn kom með matinn greip ég tækifærið og sagði honum frá óförum mínum, aumingja ég að vera svona mikill kjáni og aumingja hann að þurfa að hlusta á mig. Æ, mig auman.

Morguninn eftir vaknaði ég eldsnemma og fór yfir leikskipulagið sem framundan var, það mátti ekkert út af bregða. Mig vantaði endurnýjað vegabréf og það strax, ég hafði nefnilega tekið þá áhættu að bóka annað flug til að ná í skottið á félögum mínum, mögulega yrði ég greind sem spennufíkill af einhverjum mér vitrari. Ég hékk á húninum á sendiráðinu og á móti mér tók þetta dásamlega fólk sem þar vinnur. Ég var svo fljótmælt og óðmála að ég þakka fyrir að þau skyldu eitt orð af því sem ég sagði. Af mér var tekin mynd, sem er enn í notkun þrátt fyrir að ég líti út eins og hreindýr í háu ljósunum. Til að gera langa sögu stutta þá komst ég loks á áfangastað, heil heim á ný og svo sannarlega reynslunni ríkari. Þið sem eruð á flakki viljið þið í öllum bænum skoða vegabréfin ykkar í þaula áður en lagt er af stað, það er ekki gefið að allt gangi upp. 

mbl.is