Geta miðaldra konur lært að hlaupa?

Pistlahöfundur sigursæl að loknu miðnæturhlaupi Suzuki.
Pistlahöfundur sigursæl að loknu miðnæturhlaupi Suzuki. Ljósmynd/Úr einkasafni

Ég þoldi ekki fótbolta í leikfimi enda fólust allt of mikil hlaup í honum. Í menntaskóla þurftum við stundum að hlaupa úti.  Í minningunni var þetta hálfmaraþon, þó að líklega hafi þetta verið meira eins og 1 - 2 km. Hluti af vandamálinu var mögulega að ég átti engin almennileg útihlaupaföt enda var það aldrei efst á óskalistanum hjá mér. Ef ég hefði getað valið þá hefði ég frekar vaskað upp eftir hádegismat á heimavistinni, vaskað upp eftir alla, ekki bara mig, heldur en að fara út að hlaupa. Einn af okkar íþróttakennurum var Bryndís Þorvaldsdóttir, mamma hans Þorvaldar Örlygssonar atvinnumanns í fótbolta. Hún elskaði útihlaup og það hefði nú verið gaman að kunna að meta það á sínum tíma. Svona eftir á að hyggja hefði líklega verið frábært að byrja minn hlaupaferil í Menntaskólanum á Akureyri, frekar en að bíða í 30 ár. Nokkrum árum eftir útskrift bjó ég í New York og var að spjalla við mann frá Bretlandi. Hann sagðist vera frá Nottingham.  Fótboltaalfræðiritið hún Ásdís greip þá tækifærið til að slá heldur betur um sig. Heldur þú þá ekki með Notthingham Forrest? Andlitið datt af aumingjans manninum sem hafði aldrei hitt bandaríska konu sem vissi eitthvað um evrópskan fótbolta. Ekki batnaði það þegar ég bætti við: Bryndís mamma hans Þorvaldar er sko góð vinkona mín.

Allar afsakanir nýttar til að geta ekki hlaupið

Þegar ég eltist og fór að reyna að koma mér í form, datt mér oft í hug að það gæti verði sniðugt að byrja að hlaupa. Ég hætti þó yfirleitt við það, enda vissi ég að ég gæti ekki hlaupið. Þó fór ég stundum af stað og sótti hlaupaprógram sem heitir C25k (From Couch to 5 km in 9 weeks). Ég hef ekki tölu á því hversu oft ég byrjaði á þessu prógrammi og  hversu oft ég hætti í miðjum klíðum. Ég  náði meira að segja að klára það nokkrum sinnum. Aldrei gat ég samt fundið löngunina til að halda áfram að hlaupa. Mér fannst þetta bara svo drepleiðinlegt og erfitt. Ég fékk alltaf hlaupasting og beinhimnubólgu og einu sinni endaði ég með millirifjagigt, beinhimnubólgu og magabólgur. Það var augljóst að hlaupaferlinn yrði aldrei glæstur.

Ég leitaði allra leiða til að réttlæta að hlaup væru bara ekki fyrir mig.  Ég las einu sinni blaðaviðtal við einhvern sjúkraþjálfara sem sagði að fólk ætti aldrei að byrja að hlaupa eftir fertugt.  Það varð pínu mín mantra.

Það var ekki fyrr en í lok apríl 2018 að ég byrjaði að hlaupa með markmið í huga. Fyrr um árið hafði ég skráð mig bæði í 5 km miðnæturhlaup Suzuki sem og 10 km hlaup í Reykjavíkurmaraþoninu.  Til að tryggja að ég myndi ekki klikka eina ferðina enn, setti ég það á Facebook. Það voru ansi blendin viðbrögð við þessum yfirlýsingum. Mögulega þar sem fyrri afrek bentu ekki til annars en að ég myndi gefast upp eina ferðina enn og því margir sannfærðir um að ég myndi ekki klára þetta. Ekki ósvipuð viðbrögð og ég fékk þegar ég skráði mig í FI Landvættina og tilkynnti það á Facebook. Ég sótti app sem heitir 10 Km, fannst óþarfi að byrja á 5 km og fara svo í 10 km. Ég var svo heppin að ég átti mikið af ónotuðu íþróttadóti, bæði föt og skó sem ég hafði keypt í Boston 2011, þegar ég ætlaði að sigra heiminn eitt skiptið enn. 

Fyrsta hlaupið sem ég tek þátt í sjálfviljug – skyldi ég ná að klára?

Svo byrjaði ég að hlaupa. Dagur 1 var að hlaupa í 1 mínútu og labba í 1,5 mínútur, alls sex sinnum, hvíla í einn dag og svo endurtaka leikinn nema næst alls 8 sinnum. Þegar ég byrjaði að hlaupa gat ég ekki einu sinni hlaupið á milli ljósastaura. Í fyrsta skipti náði ég að halda fókus og halda mig við efnið. Ég hljóp 3var til 4 sinnum í viku. 21. júní 2018 var svo komið að fyrsta hlaupinu. 5 km miðnæturhlaupi Suzuki. Þá hafði ég hlaupið mest 3 km í einu og var frekar stressuð fyrir þetta hlaup. Ég hafði aldrei tekið þátt í neins konar hlaupi sem ég hafði þurft að skrá mig í sjálfviljug. Magga vinkona kom með mér í hlaupið. Ég drekkti henni í alls konar spurningum. Hvað ef ég verð síðust og villist? Hvað ef ég tek vitlausa beygju og villist? Hvað ef ég verð orkulaus? Hvað ef ég næ ekki að klára? Hvað ef allir verða farnir þegar ég kem loksins í mark? Hvað ef, hvað ef, hvað ef? Mér fannst þetta gífurlega erfitt og flókið verkefni og íhugaði að hætta við en ákvað að slá bara til. Stutta útgáfan, ég villtist ekki, ég varð ekki síðust, það var fullt af fólki við marklínuna þegar ég kom í mark og flögutíminn minn var 32.48 mín. Það var gífurlega gott að hafa tekið þátt í þessu hlaupi þar sem fyrstu mótin eru í raun og veru bara æfing í að læra að taka þátt.  Svo hélt ég bara áfram að hlaupa. 

Pistlahöfundur ásamt utanvegahlaupahópnum sínum þeim Ara Víði, Önnu Sigríði, Berglindi …
Pistlahöfundur ásamt utanvegahlaupahópnum sínum þeim Ara Víði, Önnu Sigríði, Berglindi og Starra Frey. Ljósmynd/Úr einkasafni

Þegar Reykjavíkurmaraþonið nálgaðist byrjaði sama stressið. Hvað ef ég tek vitlausa beygju? Hvað ef ég villist? Hvað ef ég örmagnast? Hvað ef mér verður of kalt? Hvað ef mér verður of heitt? Hvað ef ég verð svöng eða þyrst? Ég hafði lengst hlaupið 7 km þegar ég keppti og hafði sett mér markmið að vera í kringum 70 mínútur. Ég hafði ekki hugmynd um hversu raunhæft það var þar sem ég hafði aldrei hlaupið 10 km. Magga vinkona fórnaði sér í að hlaupa með mér þar sem ég var virklega stressuð að týnast bara einhvers staðar á Seltjarnarnesi.  Hlaupið gekk bara mjög vel. Mér leið vel allan tímann og var stöðugt að taka fram úr fólki. Það var reyndar líka eitthvað fólk sem tók fram úr mér en það er nú algjört aukaatriði. Ég valdi bara eitt félag sem var að hlaupa í appelsínugulum bolum og einbeitti mér alltaf að því að ná næsta appelsínugula bol. Mæli eindregið með þeirri aðferð. Þú hættir að spá í hvað hlaupið er langt, þú þarft bara að ná næsta bol. Þegar það voru svona 2 km eftir þá sá ég loksins 70 mínútna blöðruna. Ég ætlaði ekki að hlaupa yfir 70 mínútur og gaf aðeins í. Það gekk bara svona glimrandi vel og flögutíminn minn endaði í 01:06:16. Magga sagði mér seinna að henni hefði ekkert litist á blikuna, hélt að ég myndi drepa mig á lokasprettinum. Þegar myndirnar frá hlaup.is birtust  leit ég það illa út að það hvarflaði ekki að mér að kaupa eintak. Ég var eldrauð í framan og með útbólgnar æðar í andlitinu sem ég vissi ekki einu sinni að ég hefði. Málið er einfalt, þú getur alltaf meira en þú heldur. David Goggins segir reyndar að þú eigir 40% inni þegar þú ert alveg búin en ég er kannski ekki alveg sammála honum með það.

Það er kannski ekki málið að hlaupa í hálku á sumardekkjum

Eftir Reykjavíkurmaraþonið hélt ég áfram að hlaupa en mig vantaði alltaf eitthvert markmið þar til ég skráði mig í FI Landvættir. Það eru reyndar 4 greinar hjá þeim. 50 km skíðaganga, 60 km fjallahjólakeppni, 2,5 km vatnasund og 33 km hlaup. Ég kunni ekkert nema að hlaupa 10  km þegar ég skráði mig. Það eru sameiginlegar æfingar einu sinni í viku hjá FI Landvættir. Fyrsta hlaupaæfing FI Landvætta var 3ja nóvember 2018. Þetta var hlaup í Öskjuhlíðinni og aðeins farið að frysta þannig að það var tekið fram að það væri einstaka hálkublettur og við því beðin að mæta vel skóuð. Ég var enn þá í forláta skónum mínum frá 2011. Sumir skipta örar um hlaupaskó en á 7 ára fresti en mínir voru ekkert svo mikið notaðir og líklega hafði ég notað þá jafnmikið sumarið 2018 og öll hin árin. Ég hafði bara aldrei skilið þessa þörf hjá fólki að vera stöðugt að endurnýja þessa íþróttaskó, hvað þá að eiga meira en eitt par. Núna þarf ég að fara að endurnýja utanvegahlaupaskóna mína sem ég keypti í janúar 2019. Ég var á leiðinni utan eftir 2 daga og var búin að ákveða að kaupa mér skó þar og hélt að það yrði nú ekki mikið mál að hoppa yfir þessa hálkubletti.  Hlaupin voru á þessum tímapunkti eina íþróttagreinin sem ég gat eitthvað í og því ákvað ég að leggja allt undir. Hlaupið gekk rosalega vel og ég fylltist fullmiklu sjálfstrausti og steingleymdi þessum einstaka hálkublettum. Þegar við vorum næstum því búin steig ég á einn og flaug á hausinn enda voru skórnir eins og léleg sumardekk. Ég braut ekkert en lærði að það er betra að splæsa í góða hlaupaskó ef þú vilt ekki taka óþarfa áhættu. Ég sló reyndar 2 flugur í einu höggi og keypti mér góða utanvegaskó því þeir virka mjög vel í hálku líka. Eftir reynsluna í Öskjuhlíðinni hélt ég mig nú bara á hlaupabretti um veturinn.

Ég verð samt alltaf jafnhissa hvað er hægt að bæta sig mikið á stuttum tíma. Að geta hlaupið 10 km, þremur mánuðum eftir að hafa farið út að hlaupa í fyrsta skipti var eitthvað sem ég átti ekki von á að geta. Það eina sem þarf að gera er að langa til að ná árangi og æfa jafnt og þétt.

 

Miðaldra konan prófar utanvegahlaup

Um páskana fór ég til Siglufjarðar á gönguskíðamót með Hildu vinkonu og planið var að taka langa gönguskíðaæfingu á páskadag en við vinkonurnar lentum í gönguskíðabugun. Það var erfitt færi og við vorum þreyttar og við ákváðum því að taka bara góða hlaupaæfingu í staðinn.  Við enduðum á að hlaupa 18 km. Mér fannst þetta nú ansi gott afrek þar sem mitt lengsta hlaup á þessum tíma voru 12 km.  Hilda vinkona er hins vegar alvöruhlaupari og hefur margoft farið til útlanda og keppt í maraþoni. Hlaupið okkar var að mestu götuhlaup.   Ég kann það og get meira að segja hlaupið á ágætishraða. Hilda leiddi leiðina. Allt í einu beygði hún og sagði, við verðum að prófa líka smá utanvegahlaup. Það hljómaði bara eins og fín hugmynd þar sem það voru bara nokkrir mánuðir í Jökulsárhlaupið og það eru jú 33 km af utanvegahlaupi. Ég veit ekkert mikið meira um Jökulsárhlaupið. Ég fylgi þeirri einföldu reglu að setja mig ekki of mikið inn í hlutina áður en ég legg af stað, því þá byrja ég að ofhugsa allt og stressast bara upp. Miklu minna vesen að fara á staðinn og tækla þetta þegar að því kemur. Við fórum því af götunni og á eitthvert tún. Þarna kom berlega í ljós smá munur á okkur Hildu. Hún hefur nefnilega ekki bara keppt í götumaraþonum. Hún er búin að fara í fullt af utanvegahlaupum. Ef einhver hefur séð okkur þá leit þetta í stuttu máli út svona. Hilda stökk á milli stokka og steina eins og háfætt hind á meðan ég brussaðist aðframkomin eins og kvíga komin að burði. Við tókum ca. 1 km, mér fannst þetta meira eins og 20 km. Það var samdóma álit okkar Hildu að mögulega þyrfti ég að taka 1 æfingu enn fyrir Jökulsárhlaupið.

Árstíðarhlaupið fór fram í dásamlega fallegu veðri og umhverfi.
Árstíðarhlaupið fór fram í dásamlega fallegu veðri og umhverfi. Ljósmynd/Sigurrós Hallgrímsdóttir

Þegar fór að líða á sumarið kom póstur frá Brynhildi Ólafsdóttur, leiðtoga FI Landvætta, um að það gæti verið skynsamlegt að skrá okkur líka í Þorvaldsdalsskokkið. Hlaupið er nefnilega eina greinin sem hægt er að velja á milli 2ja keppna, Jökulárshlaupsins og Þorvaldsdalsskokksins. Brynhildur benti á 2 kosti sem fylgdu því að skrá sig í Þorvaldsdalsskokkið. Þetta gæti virkað sem frábær æfing fyrir Jökulsárhlaupið og líka tekið af stressið hjá þeim sem hafa áhyggjur af tímamörkum. Fólk hefur verið að lenda í því að ná ekki tímamörkum í Jökulsárhlaupinu og þá tapast allar aðrar keppnir í Landvættinum. Ég var ansi fljót að skrá mig. Ég hló reyndar pínu inni í mér þegar ég skráði mig þar sem gamall skólabróðir úr MA, hann Starri Heiðmarsson, er einn af forsvarsmönnum hlaupsins. Honum varð að orði þegar hann sá að ég var orðin hlaupari í fyrra, að ég myndi svo mæta í Þorvaldsdalsskokkið á næsta ári sem ég svaraði með þeirri fleygu setningu „over my dead body“, ég væri ekki geðveik.   Einmitt, aldrei segja aldrei.

Það sem virkaði best fyrir mig var að breyta úr, guð minn góður hvað var ég að hugsa, yfir í en spennandi, hvernig geri ég þetta. Það er svo einfalt að því meira sem ég get og því meira sem ég sigrast á, því auðveldara er að tækla næsta verkefni. Eina sem ég þarf að gera er að kynna mér ekki of mikið fyrirfram og mæta á staðinn með þá staðföstu trú að þetta reddist allt einhvern veginn.

Þegar kona handleggsbrotnar ekki og missir dampinn

  1. júní 2019 kom síðan bakslagið mikla. Ég datt á hjóli og endaði í gifsi frá fingrum og upp að öxl. Var sett í röngten og fékk þetta fína smábrot við olnboga. Ég ætla að vera alveg hreinskilin, ég man ekkert hvað læknirinn sagði, hann sagði bara þú ert brotin og þú færð gifs.  Þetta kom á versta tíma, viku fyrir þraut 2 hjá Landvættum. 60 km fjallahjólakeppni. Ég gat ekki tekið þátt þar sem kona hjólar bara ekkert á fjallahjóli í gifsi, sama hversu ákveðin hún er. Ég tók því bara Pollýönnu á þetta. Það gerist allt af ástæðu. Þetta verður ekkert mál.  Ég tek bara þátt næst. Ég ætlaði hvort sem er að fara aftur í Fossavatnið og prófa dauðabrekkuna. Hvers vegna þurfti ég að fara aftur í Fossavatnsgönguna. Hvers vegna aftur í Fossavatnið? Jú vegna þess að þú hefur bara 12 mánuði til að klára Landvættaprógrammið og færð engan afslátt þó að þú framvísir læknisvottorði. Ég þakkaði bara fyrir að þetta var ekki fyrir síðustu þrautina og var bara nokkuð kát miðað við aðstæður. Þann 12. júní mætti ég svo upp á slysó til að láta taka gifsið. Eitt það fyrsta sem læknirinn sagði var, já þú ert ekki brotin. Ég var svo glöð að heyra það að ég spáði ekkert í það hvernig hann vissi það. Fór heim og lagði mig og svo fóru að vakna spurningar.  Hvernig vissi læknirinn að ég var ekki brotin? Það var bara búið að taka eina mynd og hún var tekin 2. júní. 

Ég fékk afrit af sjúkraskýrslunni minni og fór að skoða atburðarásina.

  1. júní: sjúklingurinn dettur af hjóli og er með verki, röngtenmyndataka staðfestir brot og sjúklingur fær háa dorsal spelku (sem þýðir að það er gifs frá fingrum upp að öxl).
  2. júní: beiðni um skoðun á röntgen, spurning: brot? Vökvi í liðnum? Svar röntgenlæknis: engin brot, ekki merki um aukinn vökva í olnbogalið
  3. júní: Ásdís Ósk kemur í endurmat á vinstri hendi. Hún hafði fengið spelku um olnbogann því það var talinn grunur um eitthvert brot en nú er komið svar frá röngtenlækni, hann segir ekki brot þannig að við sleppum gifsi.

Það er eitthvað skrýtið þarna við tímalínuna. Ef það mátti sleppa gifsi um leið og það lá fyrir að ég var ekki brotin, hefði þá ekki steinlegið að gera það þann 3. júní. Margir sem ég hef rætt þetta við, segja flestir.  Ásdís mín, það er alþekkt þetta álag á Slysó. Ég kaupi það alveg en ef einhver hafði tíma til að skoða myndina mína og skrá það niður í skrána mína þá tekur ekki nema svona 15 sekúndur að senda mér sms að koma í skoðun. Þetta eru sömu rökin og ég nota á ákveðna aðila sem ég kynnist á ákveðnum samfélagsmiðlun þegar ég fæ afsökunina, ég náði ekki hringja því ég var svo upptekin. Hvers vegna veit ég að það tekur 15 sekúndur. Ég tók nú bara tímann á því.

Pistlahöfundur lætur fátt stöðva sig. Hér er hún með gifsið …
Pistlahöfundur lætur fátt stöðva sig. Hér er hún með gifsið góða sem hún fékk eftir hjólabrölt. Ljósmynd/Viktor Logi Þórisson

Ég er ekkert pirruð út í upphaflega lækninn sem gifsaði mig. Sá tók bara upplýsta ákvörðun miðað við það sem hún hélt að væri best. Það er svona svipað eins og að dómari dæmi af mark vegna rangstöðu.  Ólíkt fótbolta þar sem lítið er hægt að gera þegar þetta er endurskoðað daginn eftir þá var hægt að gera eitthvað í mínu tilfelli. 

Þarna fauk Pollýanna út um gluggann og ég varð bara hriklega fúl.  Hvernig er ekki hægt að láta konu vita að hún er ekkert brotin og hafa hana bara í gifsi í 9 daga með tilheyrandi óþægindum. Það tók mig viku að ná pirringnum úr mér og það verður að segjast að það vakti upp leiðindaminningar um gömlu mig sem lét allt fara í skapið á sér.  Ég ætla samt alveg að vera hreinskilin. Næsti sem segir vertu bara þakklát fyrir að hafa ekki handleggsbrotnað og allt gerist af ástæðu gæti fengið hressilegt urr.  Ég var bara aldrei handleggsbrotin og stundum bara gerir fólk mistök eins og að gleyma að hringja eða innkalla fólk í afgifsun. Ekkert alheimsplan, engin fiðrildaáhrif, ekkert plan eða plott bara einföld mistök og gleymska.

Góður sjúkraþjálfari er gulli betri

Eftir 18 km hlaupið með Hildu um páskana, þá fann ég annað slagið fyrir óþægindum í vinstri ökklanum. Bara annað slagið samt og stundum þegar ég teygði þá fann ég óþægilegan sting eins og nál væri stungið inn. Ég ræddi við Hildu og hún ráðlagði mér að fara til sjúkraþjálfara og láta skoða þetta. Ég spurði Facebook og fékk fullt af frábærum ábendingum. Ég var svo gífurlega heppin að fá tíma með litlum fyrirvara. Gamla ég var vön að hafa alls konar verki sem voru eiginlega bara hluti af daglegu lífi, þrútnir liðir, aum hné, þreyttir ökklar og þess háttar. Ég var löngu hætt að kippa mér upp við þetta. Þetta var bara jafn óumflýjanlegt og gráu hárin mín og hrukkurnar. Ólíkt gráu hárunum sem ég gat látið laga á klukkustund þá vissi ég að hitt var bara hluti af því að eldast. Þú ert bara með líkamlega vanlíðan og það versnar eftir því sem þú eldist. Þetta er svo leyst með alls konar fínum pillum. Það sem ég vissi ekki að það eina sem ég þurfti að gera var að breyta um lífstíl. Hreyfa mig meira og borða hollara. Þannig að í 2 ár þá fann ég ekki fyrir neinum óþægindum, ekki einu sinni harðsperrum sem kom mér skemmtilega á óvart. 

Sjúkraþjálfarinn fann smá bólgu í vinstri ökklanum. Ég sá enga bólgu enda voru þessir ökklar svo vanir að vera þrútnir að mér fannst þeir bara geggjað mjóir og fínir. Þetta er einmitt ástæðan fyrir því að það á alltaf að leita til sérfræðinga. Þeir sjá það sem almenningur sér ekki alltaf. Svo sagði hann, vöðvinn er pínu spenntur og svo breytist hann í sin. Ég fékk áfall, hvað meinar þú hann breytist í sin. Er hann ónýtur?  Nei, sagði sjúkraþjálfarinn og hló. Þetta er eðlileg hönnun. Pjúff, það er ansi gott að það er í lagi. Mér til varnar eru komin rúmlega 30 ár síðan ég lærði lífræði síðast og ýmislegt búið að gleymast, eins og vöðvafestingar og uppbygging. Tíminn gekk ansi vel, hann teygði á vöðvum og stakk nálum til að auka blóðflæði. Þegar ég var búin sagði hann. Þegar þú burstar tennurnar. Ég reyndi að vera kúl en í áfalli fór ég í gegnum daginn. Var ég virkilega svona andfúl. Gleymdi ég að bursta tennurnar áður en ég fór? Herti upp hugann og spurði varlega.  Fyrirgefðu, en hvað kemur tannburstum ökklanum við. Aftur hló sjúkraþjálfarinn. Það er gott að standa á ökklanum tvisvar á dag og tengja það við tannburstun svo það gleymist síður. Já, ekkert mál og steingleymdi því svo fyrsta kvöldið. Fræðin segja að það taki 21 dag að gera eitthvað að vana. Ég mundi þetta reyndar daginn eftir. Svo bað hann mig að kæla ökklann í ísköldu vatni eftir æfingar í 30 sekúndur.  Ég þurfti því ekkert að fara á biðlista til að láta liðka hendina eftir gifsið, var með bókaðan tíma hjá sjúkraþjálfara og núna get ég slegið 2 flugur í einu höggi. Látið teygja á hendinni og vinna í ökklanum á sama tíma.

Hvernig er hægt að finna rútínuna aftur?

Það kom mér á óvart hvað svona bakslag dregur úr manni kjarkinn og kraftinn. Ég er búin að vera í tæp tvö ár að koma mér í gírinn, æfa daglega, vera gífurlega dugleg og að mati margra manísk. Það þurfti svo bara eitt gifs til að draga mig niður. Ég ætlaði að fara að labba daglega en ég var yfirleitt svo þreytt eftir daginn að ég nennti því ekki.  Ég nennti ekki að vakna klukkan fimm. Ég bara datt í einhvern leti- og aumingjagír og fannst mjög erfitt að skoða æfingamyndir frá bæði Breiðablik og FI Landvættum vitandi að ég gæti ekki verið með. Já, hún Pollýanna týndist hressilega þarna. 

2 dögum eftir að gifsið var tekið, var ég mætt á júbilanta hátíð MA að fagna 30 ára stúdentsafmæli. Kannski var það norðlenska fjallaloftið? Kannski var það orkan sem fylgir gömlu skólafélögunum? Kannski var að ég var búin að fá nóg af þessu sjálfsvæli? En þarna tók ég ákvörðun um að núllstilla mig bara. Tuð og væl breytir engu nema síður sé og að hanga í brekkum lagar ekkert nema síður sé. Ég ákvað að hætta að ergja mig á að geta ekki farið í sundæfingar og setja fókusinn á hlaupið. Það skiptir engu í heildarmyndinni hvort að ég tek Urriðavatnssundið 2019 eða 2020. 

Ég ræddi þetta líka við vin minn Craig Ballantyne. Hann sagði, Ásdís þú kemst yfir þetta og svo verður þetta bara frábær kafli í bókinni þinni.  Þetta er bara hárrétt.  Þegar upp er staðið þá er það algjörlega okkar ákvörðun hvernig við bregðumst við aðstæðum og þetta tekur gífurlega orku af konu.

Kemst í hlaupagírinn og á mitt langbesta hlaup

  1. júní var svo komið að miðnæturhlaupi Suzuki. Ég var að taka þátt í annað skipti. Ég ákvað að fara undir 30 mín. Hvers vegna? vegna þess að það var markmiðið sem ég setti mér þegar ég kláraði sama hlaup fyrir ári. Var eitthvert plan? Í raun og eru ekki, þetta var meira svona, mikið svakalega yrði það gaman og töff að hlaupa næst undir 30 mínútum. Veðrið var gott en ég tók ákvörðun á síðustu stundu að mæta. Ég var ekki búin að æfa í 3 vikur og stressuð að fólk myndi rekast í með höndina sem var enn þá helaum. Ég var frekar svartsýn á að ég myndi ná þessu en ákvað að gera bara mitt besta. Hitti fullt af FI Landvættum og hlaupafélögum og það var rosalega gaman. Ég beitti sömu tækni og í Reykjavíkurmaraþoninu. Einbeitti mér að því að taka fram úr skærlituðum hlaupajökkum. Það er bara nauðsynlegt að hafa skíran fókus í svona verkefni. Ég kom í mark á 29.27 mínútum og í 16 sæti af 81 í mínum aldurshópi. Ég var mjög sátt við mig enda átti ég kannski ekki alveg von á þessu. Ég er ekki enn búin að mæta á formlegar hlaupaæfingar eftir að hlaupaferillinn minn hófst í fyrra en það mun breytast hressilega þegar ég byrja að æfa fyrir hálfan járnkarl með Breiðablik í haust. Ásdís mín, hvað er hálfur járnkarl? Veit það ekki alveg. Las einu sinni byrjendaleiðbeiningar fyrir hálfan járnkarl og fannst það stressa mig svo mikið að ég ákvað bara að nota þetta reddast pottþétt aðferðina á það mál eins og allt annað.

Árstíðahlaupið -  mitt fyrsta alvöru utanvegahlaup

Niðurstaða miðnæturhlaupsins hressti mig nú heldur betur við og mér fannst ég fær í allan (eða sko flestan) sjó og skráði mig í Árstíðahlaupið daginn eftir með utanvegahópnum mínum. Hvað er þetta árstíðahlaup? Þetta eru 4 hlaup á ári til að fagna árstíðaskiptunum. Vorjafndægur, Sumarsólstöðuhlaup, Haustjafndægur og Vetrarsólstöður. Þær Helga María og Rúna Rut sjá um þau og markmiðið er að kynna Íslendinga fyrir fallegri náttúru í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og auðvitað að ná saman hópi af skemmtilegu fólki sem hefur gaman að því að hlaupa utanvegar.  Þetta er algjörlega þeirra hugarfóstur og það er ótrúlegt hvað er til margt fólk sem hefur ástríðu fyrir því að skipuleggja skemmtilega útivist.

Pistlahöfundur ásamt fríðum hópi utanvegahlaupara.
Pistlahöfundur ásamt fríðum hópi utanvegahlaupara. Ljósmynd/Sigurrós Hallgrímsdóttir

Þetta yrði fyrsta alvöruutanvegahlaupið mitt og ég var jafnmikið spennt og ég var stressuð. Eins og alltaf vissi ég bara ekkert hvað ég var að fara út í. Ég fór og keypti mér hlaupabakpoka og vatnsflöskur. Ákvað svo að skella í pokann slatta af orkugelum, próteinstykkjum og auka bol og buffi. Ég meina, ég er að fara eitthvað utanvegar og veit ekkert hvað ég verð lengi eða hvort að ég verði bara úti. Það voru 5 sem mættu frá Utanvegahópnum, ég, Starri (ekki Heiðmarsson), Berglind, Ari og Anna. Við ákváðum að hittast við Olís og fara saman á einum bíl.  Fannst það frábær hugmynd þar sem ég er ekki enn þá farin að keyra út á land. Förinni var heitið í Dyradal á Hengilssvæðinu og hlaupið að Marardal. Hægt að velja um 2 hlaupaleiðir, 17 km og 11 km. Ég ákvað að taka styttri leiðina. Samdi við hluta af utanvegahópnum að hlaupa með mér og hvað sem á dyndi, mætti ekki týna mér eða skilja mig eina eftir með ókunnugum. Er gífurlega áttavillt og hafði grínlaust bara nokkrar áhyggjur af því að týnast þarna upp á fjöllum. Ólíkt Landvættum, þar sem annar hver maður og kona er í björgunarsveit, vissi ég ekkert hversu margir yrðu þarna, sérþjálfaðir í að finna týndar miðaldra konur á fjöllum. Þegar við mættum á svæðið þá var fyrsta manneskjan sem ég sé Elísabet Margeirsdóttir ofurhlaupari. Það fór smá panik um miðaldra konuna.  Ásdís mín, varstu ekkert búin að kynna þér hlaupið, á hvaða hraða á eiginlega að hlaupa. Þessar hugsanir og fleiri fóru um hausinn á mér.  Svo þegar ég náði að róa mig aðeins og horfði í kringum mig þá var þetta bara eins og lítið ættarmót. Þarna voru Blikastelpurnar mínar, samnemendur mínir frá Salsa Iceland, foreldrar úr Lindaskóla ásamt fleira góðu fólki. Eiginlega bara frábær hópur af alls konar skemmtilegu fólki. Við lögðum af stað í einni halarófu. Þetta er gífurlega falleg leið og ég hætti bara ekki að láta fegurð Íslands koma mér á óvart og hvað við eigum mikið af náttúruperlum í hálftíma akstursleið frá Reykjavík. Það var töluvert um klifur á leiðinni og þá kom í ljós smá vandamál. Ekki brotna höndin virkaði ekki í klettaklifri.  Hún var enn þá að jafna sig og ég gat ekki gripið í kletta til að klifra.  Þá kom nú samtakamáttur útivistarfólks vel í ljós. Það var alltaf einhver boðinn og búinn til að aðstoða mig og leiða mig upp. Það er annað sem hættir ekki að koma mér á óvart. Það eru allir svo vingjarnlegir og hjálpsamir að það hálfa væri nóg. Þetta hægði samt aðeins á mér og ég missti af utanvegahópnum mínum en Blikastelpurnar mínar pössuðu upp á mig til Marardals. Þær voru samt að fara lengri leiðina þannig að ég lét leiða mig niður kletta í Marardal og skottaðist áfram þar til ég hitti næsta klettabelti. Þá ákváðum við, hendin og ég að þetta væri orðið gott. Sneri við og ákvað að njóta að vera ein upp á fjalli. Þetta kom mér stórkostlega á óvart hvað mér leið vel ein upp á fjalli. Ég er nefnilega gífurlega lofthrædd eða kannski var gífurlega lofthrædd. Núna er ég bara smá lofthrædd. Ég fékk nóg um daginn þegar ég fór af hjóli á miðjum vegi og labbaði niður háa brekku að ég fór og fékk mér faglega aðstoð. Eftir 2 tíma finn ég gífurlegan mun á mér. Það mikinn að ég hlakka til að fara og prófa hvað ég get.  Á leiðinni til baka komu allt í einu Starri og Berglind hlaupandi. Ég spurði hvernig þeim hefði dottið í hug að týna mér og skilja mig eina eftir með ókunnugum eftir loforðið sem var meitlað í stein. Ásdís mín, þú varst ekki týnd, þú ert nákvæmlega hér. Þetta minnti mig á miðjubarnið mitt sem var ansi strokgjarnt á sínum yngri árum. Einu sinni þurfti að ræsa út öryggisvörð í Smáralind til að leita að honum.  Þegar hann fannst í einhverjum leiktækjum spurði öryggisvörðurinn, jæja vinur, ertu týndur. Þá svaraði sá stutti sem var 3ja ára, nei, ég er ekki týndur, ég er hérna. Ég gat ekki annað en samþykkt að ég væri ekki týnd. Hvað með að skilja mig eftir með ókunnugum sagði ég, og reyndi að vekja upp samviskubit hjá þeim. Ásdís mín, þú ert aldrei ein með ókunnugum, þú ert alltaf búin að kynnast fólki á innan við 5 mínútum. Þar með voru öll vopnin slegin út höndunum á mér og tuðkortinu eytt enda er bara ekkert hægt að vera með pirring og derring á fjöllum. Eftir hlaupið var boðið upp á veisluborð frá Satt Restaurant. Þetta var ansi vel úti látið og gott og ég þurfti aðeins að hugsa um hvort að ég vildi segja frá þessu þar sem hlaupið er svo frábært, vel skipulagt og góðar veitingar að það er alltaf uppselt í það. Daginn eftir kom í ljós að utanvegahlaup eru svo sannarlega ekki götuhlaup. Ég hef aldrei á ævinni fengið aðrar eins harðsperrur, var að mestu ógöngufær á laugardeginum og það tók marga daga að losna við þær.  Hlaupið var hins vegar svo stórkostlegt og öll upplifunin að ég „naut“ þess að vera með þær.

5 GÓÐ RÁÐ FYRIR HLAUPARA

Það er alltaf erfitt að byrja að æfa

Ekki keppast við neinn nema sjálfan þig

Góðir hlaupaskór með réttum stuðningi eru lífsnauðsynlegir

Finndu skemmtilega æfingafélaga.

Hvað sem þú gerir, ekki skoða Strava hjá vinum þínum sem eru virkilega góðir hlauparar.

Fyr­ir þá sem vilja fylgj­ast með Ásdísi Ósk má fylgja henni á In­sta­gram: as­disoskvals

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert