Afmyndað andlit af áreynslu

Inga Dís hleypur um í Cortina á Ítalíu fyrir ári …
Inga Dís hleypur um í Cortina á Ítalíu fyrir ári síðan. Ljósmynd/Úr einkasafni

Síðan þá hefur Inga Dís farið í gegnum nokkur stig þess að vera hlaupari en það fyrsta var að sigra vegalengdir. „Tveir ljósastaurar í einu en ekki einn og svo fjölgaði þeim og ég fór að telja kílómetra en ekki ljósastjóra og áherslan var ekki síður á að njóta þess að vera í góðum félagsskap þeirra vina sem ég eignaðist í ÍR skokk. Annað stigið var meira keppnisdrifið. Ég mætti í svo til öll keppnishlaup um landið og fann mér hraða hlaupafélaga til að æfa með. Markmiðið var ávallt að komast á verðlaunapall sem gekk oft eftir og fókusinn var svakalegur. Ég var orðin nokkuð þekkt fyrir „grimman“ hlaupastíl, afmyndað andlit af áreynslu og grjótharðan fókus. Ég tel mig vera á þriðja stiginu í dag. Ég hef gaman af hlaupunum og tek þátt í ýmsum viðburðum án þess að taka sjálfa mig of hátíðlega. Annað slagið dett ég þó í eitilharða keppnisgírinn þar sem ég ætla mér að vera á meðal efstu kvenna og gef ég þá allt í hlaupið.“

Tekur sig ekki of hátíðlega

Hlaupin eru ekki eina íþróttin sem Inga Dís stundar því fyrir fjórum  árum kynntist hún götuhjólreiðum og þá var ekki aftur snúið. „Þegar hjólreiðarnar fóru að liggja vel fyrir mér fór ég að gæla við þríþrautina. Ég er þó hálfvonlaus í henni því ég á ekki í sama ástarsambandi við vatnið eins og ég á við malbikið. Ég er alltaf með þeim síðustu að klára sundið og þarf að dúllast aðeins á skiptisvæðinu til að ná andanum, en mér finnst þetta mjög skemmtilegt og tek mig ekki of hátíðlega í þessum keppnum.“

Inga Dís segist hlakka til að stíga næstu skref í þroskaferli hlauparans og halda áfram að njóta hlaupanna í góðra vina hópi fram á elliárin. „Hlaupin eru stór hluti af lífi mínu og ekki bara sem hreyfing og félagsskapur heldur hef ég líka gegnt hlutverki hlaupastjóra elstu almenningshlaupa landsins á fimmta ár sem eru Gamlárshlaup ÍR og Víðavangshlaup ÍR, en þau eru meðal fjölmennustu hlaupa hérlendis. Hlaupin eru líka mitt aðalstarf þar sem ég skipulegg hlaupaferðir um allan heim fyrir Bændaferðir sem er meðal annars umboðsaðili fyrir Abbott World Marathon Majors hlaupin á Íslandi. Mér leiðist alls ekki að tala um hlaup og skipuleggja hlaup alla daga.“

Margir hlauparar eiga sér þann draum að verða svokallaðir sex stjörnu sigurvegarar með því að klára sex stærstu og vinsælustu maraþon heimsins. Þau eru haldin í Tokýó, Boston, London, Berlín, Chicago og New York og saman mynda þau seríu sem kallast Abbot World Marathon Majors Atvinnuhlauparar keppast um að sigra seríuna sem í ár fer fram í 13. sinn. Serían er þó ekki bara fyrir keppnisfólk sem vill verma efstu sætin, heldur líka fyrir þá sem hlaupa sér til gamans og vilja sigra sjálfa sig og njóta þess að hlaupa á sínum forsendum og kynnast nýjum áfangastöðum. Að hlaupa maraþon á erlendri grundu er nefnilega ekki bara hlaupaferð heldur frábær leið til að tengja saman áhugamál og skemmtilega upplifun.   

Inga Dís lauk hálfum járnmanni í Almeer í Hollandi í …
Inga Dís lauk hálfum járnmanni í Almeer í Hollandi í september síðastliðnum. Hérna kemur hún í mark í blikabúning. Ljósmynd/Úr einkasafni

 „Fjöldinn allur af fólki hefur sett sér það markmið að verða „sex stjörnu sigurvegari“ og fá nafn sitt skráð á vegginn fræga og skarta 6 stjörnu verðlaunapeningnum af loknu síðasta hlaupinu. Rúmlega 6000 hlauparar um heim allan hafa náð þessu afreki og fer þeim ört fjölgandi.  27 íslendingar skarta nafnbótinni og auðvitað eru Íslendingar hlutfallslega flestir miðað við höfðatölu – en ekki hvað?! Ég tók aldrei meðvitaða ákvörðun um að hefja „sex stjörnu“ vegferðina en þar sem ég er nú þegar búin með þrjú, þá verð ég auðvitað klára öll sex. Ég tók þátt í Chicago maraþoninu árið 2017, New York árið eftir og Boston maraþonið í apríl 2019. Ég hljóp þessi þrjú maraþon á ólíkum forsendum og misgóðum undirbúningi en lauk þeim öllum brosandi og sátt.  Ég veit ekki hvenær ég lýk við hin þrjú hlaupin í seríunni og bæti mér í hóp sífellt fleiri íslendinga sem teljast til sex stjörnu sigurvegara en það kemur að því að ég bæti Berlín, London og Tókýó í sarpinn,“ segir Inga Dís. 

Það er allur gangur á því hvort erfitt sé að komast að í maraþonum erlendis eða ekki en það er sífellt erfiðra að komast að í vinsæl hlaup, hvort heldur maraþon eða utanvegahlaup. „Flest maraþon hafa fjöldatakmarkanir og þau seljast yfirleitt upp, stundum á nokkrum dögum. Það er einkum erfitt að komast inn í sex stóru maraþonin þar sem eftirspurnin er gífurleg um heim allan.“

Að grunninum til eru nokkrar leiðir færar til að tryggja sér númer í vinsælustu maraþonin – einkum þau sex stóru.

Hlaupa mjög hratt
Sum maraþon hafa svokölluð „good for age“ fyrirkomulag sem þýðir að ef þú uppfyllir skilyrði um lágmarkstíma í þínum aldursflokki þá getur þú hugsanlega tryggt þér númer. Þessir lágmarkstímar eru mjög krefjandi fyrir flesta hlaupara og fyrirkomulagið er mismunandi á milli maraþona. 

Happdrætti
Í sumum maraþonum er happdrætti sem þú getur sótt um í og freistað gæfunnar um að fá þátttökunúmer. Í flestum af þessum stórum maraþonum er kvóti á fjölda erlenda ríkisborgara sem fá úthlutað í happdrættinu. Stundum þarf að borga til að taka þátt í happdrættinu en stundum fer greiðsla aðeins framef hlaupari er dreginn út. Það getur tekið nokkra mánuði að bíða eftir svari.

Hlaupa fyrir góðgerðasamtök
Í vinsælustu maraþonunum er unnt að kaupa sig inn í viðburðinn í gegnum góðgerðarsamtök en þá þarf hlaupari að skuldbinda sig til að safna tiltekinni upphæð, hver upphæðin er er mismunandi á milli góðgerðarfélaga og viðburða. Þetta eru samt háar upphæðir og mun dýrara en að kaupa sig í inn í hlaupið á annan hátt.

Bóka sig í gegnum ferðaskrifstofu
Alla jafna er hægt að kaupa þátttökunúmer hjá ferðaskrifstofum sem hafa samninga við hlaupahaldara um milligöngu á sölu númera, en þó er eftirspurn oft meiri en framboð. Þessi hlaupanúmer eru alltaf án skilyrða um að hlaupari geti hlaupið á tilteknum tíma, en yfirleitt háð því að kaupa þarf ferðapakka samhliða númerinu. 

Aðspurð hvað sé framundan segist Inga Dís ætla að hlaupa nálægt sínum besta tíma í hálfu maraþoni í Reykjavíkurmaraþoninu í ágúst. „Ég veit að það verður erfitt því formið er ekki eins og þegar ég var að upp á mitt besta. Stefnan er svo tekin á Frankfurt maraþonið í október en þar ætla ég í fyrsta sinn að taka maraþon undirbúning með trompi, leggja vel inn og hvíla hjólið á meðan.  Ég nýt leiðsagnar Arnars Péturssonar Íslandsmeistara í langhlaupum í undirbúningi mínum fyrir Frankfurt maraþonið. Til gamans má geta að Arnar ætlar einmitt að fara með hóp á vegum Bændaferða í Frankfurt maraþonið á næsta ári þar sem hlauparar munu njóta leiðsagnar hans í undirbúningi og þegar út er komið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert