Gefur leigjendum aðgang að afskekktum ferðamannastöðum

Kolbeinn Björnsson og Ólafur Gunnar Sverrisson, forsvarsmenn Mink Campers, og …
Kolbeinn Björnsson og Ólafur Gunnar Sverrisson, forsvarsmenn Mink Campers, og Soffía Þórðardóttir, forstöðumaður Ferðalausna hjá Origo ánægð með samstarfið. Ljósmynd/Aðsend

Mink Campers eru nú þegar byrjaðir að taka á móti pöntunum í gegnum Caren, en kerfið er lykill í hraðri uppbyggingu erlendis.

Kolbeinn Björnsson, framkvæmdastjóri Mink Campers, segir fyrirtækið hafa opnað nú þegar leigur í Skotlandi, Rúmeníu og Noregi. ,,Auk þess munum við opna á þremur stöðum í Noregi í ár. Markmið okkar er að opna 50 útleigustöðvar víðs vegar um Evrópu á næstu tveimur árum. Caren kerfið mun gera okkur mögulegt að opna stöðvar um Evrópu í ólíkum gjaldmiðlum með einföldum, hraðvirkum og stöðluðum hætti. 

 Þannig getum við veitt viðskiptavinum okkar sömu upplifun hvar sem þeir eru í Evrópu, í gegnum sama viðmótið á heimasíðu okkar. Mink Campers er í okkar huga Airbnb náttúrunnar og gefur leigjendum Minksins aðgang að afskekktum ferðamannastöðum t.d. í norður Noregi og skosku- og rúmensku hálöndunum. Við bjóðum upp á heildarlausn þar sem ferðamaðurinn bókar bílinn og gistinguna í gegnum kerfið og fær síðan leiðarlýsingar og upplifanir í gegnum Caren Driver Guide leiðarlýsingarkerfið. Ferðamaðurinn getur því einbeitt sér að því að njóta ferðarinnar og náttúrunnar," segir Kolbeinn. 

Mink Campers gistivagninn hentar vel á óhefðbundnari slóðir.
Mink Campers gistivagninn hentar vel á óhefðbundnari slóðir. Ljósmynd/MinkCampers

 ,,Við erum ákaflega stolt af því að Mink Campers hafi valið Caren bílaleigulausnina,“ segir Soffía Þórðardóttir, forstöðumaður Ferðalausna hjá Origo. Hún telur jafnframt að samstarfið muni hjálpa Origo að þróa kerfið enn frekar til að uppfylla þarfir hins alþjóðlega viðskiptavinar.

 Caren lausnin gerir bílaleigum kleift að halda utan um flota, framboð, verð, tilboð og bókanir á bílum og tengdum þjónustum. Samstarfið við Mink Campers er hið fyrsta sinnar tegundar utan Íslands, en Caren er útbreiddasta bílaleigulausnin hér á landi.

mbl.is