Ferðin sem gjörbreytti fyrri takti

Guðbjörg fór í kakó- og jógaferð til Guatemala og segir …
Guðbjörg fór í kakó- og jógaferð til Guatemala og segir ferðina hafa opnað nýjan heim. Ljósmynd/Úr einkasafni

Guðbjörg hefur lengi haft mikinn áhuga á samspili hugar og líkama og þeirri visku sem líkaminn býr yfir. Í gegnum tíðina hefur hún kynnt sér ýmsar aðferðir til að rækta sambandið við þessa visku, hvort sem er í gegnum heimspekiiðkun í sínu starfi eða persónulega iðkun eins og jóga, hugleiðslu og svokallaða kakóhugleiðslu sem hún kynntist í gegnum Kamillu Ingibergsdóttur æskuvinkonu sína. 

Kakó-Kamilla, eins og hún er stundum kölluð, á góðri stund …
Kakó-Kamilla, eins og hún er stundum kölluð, á góðri stund með einum af jógakennurunum. Ljósmynd/Úr einkasafni

„Við Kamilla höfum verið vinkonur síðan á unglingsaldri og leiðir okkar hafa oft legið saman í gegnum tíðina, ekki síst í gegnum sameiginleg áhugasvið. Þegar Kamilla kynntist kakóinu frá Guatemala og byrjaði að halda kakóhugleiðsluathafnir hér heima fylgdi ég henni í því og var fastur gestur í þessum athöfnum, en á sama tíma var ég að kynnast aðferðinni Focusing sem eins og kakóið hjálpar manni að eiga eins konar innra samtal við sjálfan sig í gegnum líkamann og losa um gömul mynstur. Þarna vorum við Kamilla aftur komnar á sömu slóðir, en mér fannst þetta tvennt strax fara svo vel saman. Þegar Kamilla ákvað að bjóða upp á kakó- og jógaferð til Guatemala, á þennan dásemdarstað við Atitlan-vatnið sem hún hafði svo oft lýst fyrir mér var engin spurning um að ég færi með. Ég hafði aldrei farið í slíka ferð áður og eins og svo margir aðrir í nútímasamfélagi hafði ég verið undir miklu álagi í vinnu og var það mjög kærkomin hvíld og hleðsla að kúpla sig alveg út á miðjum vetri. Í ferðinni kynntist ég kakóinu, sjálfri mér og fókus-aðferðinni betur, en þetta tveggja vikna rými til að sinna sjálfri mér var frábært tækifæri fyrir mig til að æfa mig betur í hugleiðslu, að fókusera og að stunda jóga daglega, og allt varð dýpra og betra með kakóinu.“

Á morgnana var byrjað á því að fara í jóga.
Á morgnana var byrjað á því að fara í jóga. Ljósmynd/Úr einkasafni

Eftir dvölina á Guatemala komst Guðbjörg dýpra inn í fókusing-iðkunina og fann sterka þörf fyrir að deila aðferðinni með öðrum. Hún hét sér því að skrá sig í formlegt nám í aðferðinni, fara svo í aðra ferð til Guatemala með Kamillu og kynna aðferðina fyrir öðrum þátttakendum í ferðinni. „Ég stóð við þetta og fór í mína aðra kakó- og jógaferð með Kamillu núna í janúar síðastliðnum þar sem ég hélt áfram að dýpka mína persónulegu iðkun og fékk að deila focusing-aðferðinni með öðrum.“

Friðarstund við Atitla-vatnið.
Friðarstund við Atitla-vatnið. Ljósmynd/Úr einkasafni

Vá, hér get ég bara legið

Guðbjörg segir ferðina hafa verið dásamlega í alla staði en allir dagar byrjuðu á því að allir fóru saman í jóga í sal sem úr var dásamlegt útsýni yfir hið undurfagra Atitlan-vatn. „Eftir jógatíma tók við ferskur og hollur morgunmatur og svo ýmist kakóhugleiðsluathafnir, kakónidra og tónheilun, eða frjáls tími þar sem gafst tækifæri til að slaka á í sólbaði, synda í vatninu, lesa, fara í gönguferð eða bara leggja sig. Ég man fyrsta daginn í fyrstu ferðinni þegar ég settist út á jógapallinn með bók sem tengdist ekki vinnunni og hugsaði „vá! hér get ég bara legið og lesið, fyrir sjálfa mig, þarf hvergi annars staðar að vera og ekkert annað að gera!“ Að komast í svona slökun þar sem maður þarf engu að sinna nema sjálfri sér er einstakt. Svo bauð Kamilla okkur upp á ýmsa aðra dagskrá eins og kynningu á virkni kristalla, kirtan-möntrusöngsviðburði og bátsferð yfir vatnið til að heimsækja áhugaverða litla bæi og kynnast maya-menningunni, og ekki má gleyma því að hægt var að panta tíma í nuddi og öðru líkamlegu og andlegu dekri hjá yndislegu fólki sem starfar á svæðinu. Við enduðum alla daga á hugleiðslu fyrir kvöldmatinn, en í báðum ferðunum fengum við dásamlegt grænmetisfæði.“

Útsýnið er engu líkt.
Útsýnið er engu líkt. Ljósmynd/Úr einkasafni

Aðspurð hvort ferðin hafi breytt fyrri lífstakti segir Guðbjörg hana svo sannarlega hafa gert það. „Fyrri ferðin var mér hvatning til að halda áfram á þeirri braut sem ég var komin inn á og eftir að hafa stundað jóga daglega í tvær vikur var eiginlega ekki hægt að hætta þegar heim var komið. Ég hef stundað jóga óreglulega í mörg ár, alltaf ætlað mér að iðka meira heima en ekki fundið kraftinn til þess og verið háð því að mæta í jógatíma sem ekki gefst alltaf tækifæri til, en eftir þessar ferðir fékk ég kraftinn og getuna til að stunda jógað meira sjálfstætt heima. Ég fann mikinn mun á mér líkamlega og andlega eftir alla þessa slökun, jóga og hugleiðsluiðkun og ekki síður grænmetisfæðið. Ég fór að sofa betur og finna bara almennt fyrir meiri ró og jafnvægi í daglega lífinu. Það er eitthvað alveg sérstakt við orkuna í Atitlan-vatninu, kakóinu og menningunni og náttúrunni á svæðinu sem hjálpar manni að ná dýpri tengingu við sjálfan sig og aðra,“ segir Guðbjörg og bætir kímin við að hún sé alvarlega að hugsa um að fara í þriðju ferðina næsta vetur. 

mbl.is