Aftur hægt að ganga inn að Múlaskála

Nýja göngubrúin yfir Jökulsá í Lóni við Múlaskála er fullkláruð.
Nýja göngubrúin yfir Jökulsá í Lóni við Múlaskála er fullkláruð. Ljósmynd/Vegagerðin

Búið er að byggja nýja göngubrú yfir Jökulsá í Lóni, nálægt Múlaskála, en fyrri brúin eyðilagðist í aftakaveðri um síðustu áramót. Hefur því verið illfært inn á Lónsöræfi nema norðurleiðina sem getur verið nokkurra daga ganga, en áin getur verið hættuleg á sumrin þeim sem reyna að vaða hana á leið inn í Múlaskála.

Í tilkynningu á vef Vegagerðarinnar kemur fram að allur búnaður til brúarsmíðarinnar hafi verið fluttur með stórum ökutækjum sem óku upp með ánni, en það er eina færa leiðin að brúarstæðinu.Var farið inn úr 13. maí og unnið í törnum í samtals 25 daga. Var það brúarvinnuflokkur Vegagerðarinnar í Vík sem stóð á bak við framkvæmdina, en brúargólfið var forsmíðað í einingum í Vík og Höfn.

Fram kemur að gera þurfti mikinn hluta verksins í höndunum og mikill burður hafi verið á efni. Hafi menn verið gjörsamlega búnir eftir hvern vinnudag. Veður hafi svo haft áhrif á vinnuna, en í tvö skipti var farið heim vegna mikils vinds sem hamlaði vinnu.

Brúarvinnuflokkur Vegagerðarinnar í Vík sá um smíði göngubrúarinnar yfir Jökulsá …
Brúarvinnuflokkur Vegagerðarinnar í Vík sá um smíði göngubrúarinnar yfir Jökulsá í Lóni. Ljósmynd/Vegagerðin

Smíði brúarinnar lauk 21. júní, en rúmlega viku áður fengu fyrstu ferðamennirnir, hjón með tvö börn, að fara yfir brúna.

Vegna mikilla hita í sumar og aukins vatns í ánni var ekki hægt að koma aftur á tækjum upp ána og sækja vinnubrú og ýmis tæki. Var vinnubrúin því dregin á land og verður geymd fram að hausti, en verkfærin verða borin í bakpokum um klukkutíma leið upp á Illakamb, en um er ða ræða 2,5 km göngu, meðal annars í talsverðu brattlendi.

Sögu brúarinnar má rekja aftur til aldamótanna 1900, en þá var byggður kláfur yfir ána af bændum í Víðidal. Árið 1952 ákvað sveitarfélagið að byggja göngubrú, en þarna var mikilvægt upprekstrarland. Lögðu sveitarfélagið og bændur til vinnu og flutning á efni, en Vegagerðin lagði til efni, hönnun og stjórnun. Var efnið flutt upp á ís, en brúin smíðuð um sumarið. Þessi brú hrundi árið 1967, en í framhaldinu var önnur brú byggð sem stóð fram til síðustu áramóta.

Gamla göngubrúin yfir Jökulsá í Lóni áður en hún fór …
Gamla göngubrúin yfir Jökulsá í Lóni áður en hún fór í aftakaveðri um síðustu áramót. Ljósmynd/Vegagerðin
mbl.is