Rúllaði Helvítisfjalli upp

Gestur Jónsson á Helvítisfjalli, en búnaður hans og hjól er …
Gestur Jónsson á Helvítisfjalli, en búnaður hans og hjól er frá Púkanum. Ljósmynd/Aðsend

Ofurhuginn Gestur Jónsson tók á dögunum þátt í einni ógnvænlegustu fjallahjólakeppni í heimi. Fjallið ber nafn með rentu, en keppnin fer fram á hinu svokallaða Helvítisfjalli (e. Mountain of hell). 

Gestur segir hugmyndina hafa kviknað fyrir nokkru síðan, en hann hefur lengi haft áhuga á fjallahjólreiðum og verið iðinn við að stunda íþróttina. 

„Fyrir rúmlega tveimur árum sá ég þessa keppni á netinu og fékk þá flugu í hausinn að ég yrði að prófa þetta einhvern tímann og fara út og taka þátt,“ segir Gestur í samtali við mbl.is.

Keppendur gera hjól sín klár við dagrenningu.
Keppendur gera hjól sín klár við dagrenningu. Ljósmynd/Aðsend

Keppnin er haldin í Frakklandi í skíðaþorpinu Les Deux Alpes. Hún var haldin síðastliðna helgi, en Gestur kom aftur heim til Íslands í gær.

„Þetta eru tveir dagar sem keppt er í fjallabruni. Þetta er eitt fjall en sitthvor brautin. Á fyrri deginum er 10 kílómetra braut sem er undankeppni, tíminn sem þú færð í þeirri braut gefur þér pláss á jöklinum í aðal keppninni. Ef þér gengur vel ertu framarlega á jöklinum en ef þér gengur illa eða nærð ekki að klára byrjar þú mjög aftarlega,“ segir Gestur. 

„Mér gekk mjög vel í undankeppninni og var þar í 47. sæti af þeim 900 keppendum sem kláruðu, það voru svona 150 sem náðu ekki að klára. Þannig ég byrjaði á 4. línu af 40. Á keppnisdag fórum við af stað um klukkan 4 um nóttina, keppnin átti að byrja klukkan 9 þannig maður stillti hjólinu upp í algjöru myrkri, jökulinn alveg gaddfreðinn og allur í ís.

„Það var startað klukkan 9 og það gekk bara ótrúlega vel. Ég endaði í 28. sæti af rúmlega 1000 keppendum. Aðalkeppnin er 15 kílómetrar og ég kláraði á rétt rúmlega 37 mínútum,“ segir Gestur. 

Myndi klárlega gera þetta aftur 

Aðspurður segir Gestur að keppnin hafi verið gríðarlega krefjandi og erfitt að hjóla á svo brattri leið á sleipu undirlagi. 

„Já algjörlega. Þetta er langt og strembið og þúsund keppendur að fara í einu. Þetta snýst aðalega um að vera snöggur að hugsa, finna sér góða línu. Þú stýrir í rauninni ekkert, ferð bara beint. Svo þegar þú ert komin kannski hálfa leið ertu orðinn svo þreyttur að þú varla getur hreyft hendurnar, getur varla ýtt á bremsurnar þannig þá er það bara að halda áfram. Bara ekki sleppa stýrinu.

Gestur á keppninni.
Gestur á keppninni. Ljósmynd/Aðsend

„Það er líka svo skrítið að standa fyrir framan 200 metra brekku og ætla að hjóla niður. Þetta var svolítið hrikalegt áður en maður lagði af stað, þetta er mjög bratt. En hjólið virkaði mjög vel og ég lenti ekki í neinum óhöppum, en þegar ég var að koma inn af jöklinum varð einn stærsti árekstur í sögu keppninnar.“ 

Gestur var eini Íslendingurinn sem tók þátt í ár, en hann segist vita til þess að allavega einn Íslendingur hafi tekið þátt áður. Þá segist hann vera spenntur fyrir því að glíma við Helvítisfjallið í annað sinn. 

„Algjörlega, þetta var algjörlega frábært. Rosa skemmtilegur andi og gott samsbil hjá öllum í þorpinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert