Hjólað í sól og sumaryl

Pistlahöfundur ásamt Steinunni Erlu Thorlacius, vinkonu sinni.
Pistlahöfundur ásamt Steinunni Erlu Thorlacius, vinkonu sinni. Ljósmynd/Úr einkasafni

Ferðin var þannig uppbyggð að farið var af stað að morgni á götuhjóli og komið í eftirmiðdaginn þegar búið var að hjóla 65-110 km. Altea er fallegur bær við ströndina þar sem gaman er að fara í dagleiðir upp í fjöllin og meðfram strandlengjunni. Gist var á hinu frábæra hóteli Hotel Cap Negret sem gerir út á að þjónusta hjólafólk og býður upp á frábæra aðstöðu til þess að koma með, geyma, þrífa og gera við hjólin. Hreyfiferðir flugu einnig nuddara yfir til Altea frá Tenerife og var hann til taks síðustu þrjá dagana sem gerði mjög mikið fyrir þreytta vöðva.

Hótelið er allt til fyrirmyndar fyrir afkastamikla hjólara.
Hótelið er allt til fyrirmyndar fyrir afkastamikla hjólara. Ljósmynd/Úr einkasafni

Á hótelinu er hægt að leigja góð hjól en fyrir þá sem koma með sín eigin er góð aðstaða í kjallara hótelsins þar sem gestir geta geymt fákana sína og búnað í læstum boxum. Aðstaðan til að þrífa og gera við hjólin fyrir og eftir ferðir er til fyrirmyndar og var notuð óspart af hjólurunum í ferðinni.

Hópurinn saman kominn á sólríkum degi.
Hópurinn saman kominn á sólríkum degi. Ljósmynd/ Úr einkasafni

Þeir sem kjósa að sækja í frekari hreyfingu utan hjólaæfinga geta gert það á hótelinu því þar er að finna flotta aðstöðu til líkamsræktar að ógleymdum frábærum veitingastað sem býður upp á mismunandi hlaðborð þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Á hótelinu er einnig hægt að panta nudd og snyrtimeðferðir sem getur verið algjörlega lífsnauðsynlegt þegar líða tekur á ferðina.

Umhverfið til hjólreiða er framúrskarandi á svæðinu.
Umhverfið til hjólreiða er framúrskarandi á svæðinu. Ljósmynd/Úr einkasafni

Þegar farið er í hjólaferð erlendis eru nokkur atriði sem gott er að huga að eins og fatnaður. Hjólafólk verður að vera búið öllu veðri, þó að Altea telji meira en 300 sólardaga á ári getur rignt mikið þar og þá eru hjólararnir fljótir að kólna ef ekki eru regnjakkar með í för. Eins er gott að hafa svokallaða „ass savers“ en það er fyrirferðarlítið plaststykki sem er fest aftur á hnakkinn og virkar eins og bretti. Með því spýtist minna vatn upp á hjólarann í mikilli rigningu.

Orka er gríðarlega mikilvæg, borða vel fyrir langa túra en samt ekki of þungan mat þar sem þá gæti verið erfitt að koma sér af stað í hraða túra. Það er gott að hafa með sér orkugel eða orkustykki sem og passa vel upp á að vökva líkamann. Best er að vera með tvo brúsa í ferð eins og þessari, annar brúsinn með hreinu vatni en hinn með orkudufti sem inniheldur hitaeiningar, sölt og steinefni til að viðhalda orku í löngum túrum í miklum hita.

Eftir góðan hjólreiðatúr er upplagt að hvíla lúin bein á …
Eftir góðan hjólreiðatúr er upplagt að hvíla lúin bein á ströndinni. Ljósmynd/Úr einkasafni

Sólarvörnin er nauðsynleg og munið að far eftir treyjur, sokka og hjólabuxur þykir flott í hjólaheiminum.

Auðvitað þarf að hafa góða skapið með en félagsskapurinn og góð stemming í hópnum skiptir höfuðmáli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert