Lítil fjölskylda lagði upp í leiðangur

Bræðurnir bíða spenntir eftir því sem dregið er upp úr …
Bræðurnir bíða spenntir eftir því sem dregið er upp úr sjónum. Ljósmynd/Fhg

Við lögðum af stað úr Reykjavík að vinnudegi loknum einn föstudaginn og brunuðum beinustu leið til Stykkishólms og komum okkur vel fyrir á Fosshótelinu í bænum þar sem biðu okkar mjúkar sængur og afskaplega fallegt útsýni yfir bæinn. Við skelltum okkur í stuttan göngutúr fyrir háttinn en ætlunin var að ganga niður að höfn og skoða gömul hús sem mörg hver hafa verið gerð svo fallega upp. Það fór nú ekki svo þar sem risastór hoppudýna, ekki langt frá hótelinu, togaði í mína menn sem rifu af sér skóna og hömuðust á dýnunni eins og enginn væri morgundagurinn. Móðirin hugsaði að þetta gæti nú ekki verið svo slæmt, þeir myndu að minnsta kosti sofa vel eftir hamaganginn.

Ýmiskonar sjávardýr voru veidd og gaman var að skoða.
Ýmiskonar sjávardýr voru veidd og gaman var að skoða. Ljósmynd/fhg

Við sváfum svo vel og lengi í þessu dásamlega umhverfi að við misstum af glæsilegu morgunverðarhlaðborði. Starfsmenn aumkuðu sig yfir okkur og hættu snarlega við að rífa af borðunum og buðu okkur velkomin að narta í það sem eftir var. Við vorum afskaplega þakklát þar sem við höfðum lítinn sem engan tíma til að stoppa í bakaríi þar sem við vorum á leið í siglingu. Með mat í maga mættum við með þeim síðustu í Víkingasushi ævintýrasiglingu á vegum Sæferða. Veðrið var dásamlega fallegt, stillt en skýjað, náttúran var augljóslega í spariskapi og tilbúin að sýna okkur sínar bestu hliðar.

Fosshótel á Hellnum í allri sinni dýrð.
Fosshótel á Hellnum í allri sinni dýrð. Ljósmynd/Fosshotel

Eyjarnar í Breiðarfirði eru óteljandi og hver annarri fegurri, þetta svæði er sannkallaður ævintýraheimur þar sem hægt er að skoða fjölbreyttar bergmyndanir, við sáum til að mynda sjaldgæft stuðlaberg sem lá lárétt. Fjörðurinn iðar af fuglalífi á þessum tíma árs og fannst okkur fjölskyldunni unun að fylgjast með. Um miðja ferð var komið að hápunktinum en þá var út settur plógur sem dró upp það sem hafið gaf þann daginn.

Mæðginin saman í fjöruferð á Hellnum.
Mæðginin saman í fjöruferð á Hellnum. Ljósmynd/fhg

Þarna var að finna hörpuskel, ígulker, krabba, krossfiska og alls kyns kynjaskepnur sem undirrituð kann ekki að nefna. Allir gestir um borð fengu að skoða og smakka á þessu góðgæti og er óhætt að segja að litla fjölskyldan hafi snúið södd og sæl aftur í land.

Við kvöddum Stykkishólm og héldum glöð í bragði í átt að Hellnum, þar sem næstu nótt skyldi eytt. Á leiðinni áðum við á kaffihúsi sem kallar sig Rjúkanda en þar er ómissandi að staldra við og fá sér kaffisopa og jafnvel kleinubita, ef vel liggur á manni. Strákarnir slógu alla vega ekki hendinni á móti heimatilbúnu bakkelsi sem beið okkar við komuna.

Útsýnið úr herberginu.
Útsýnið úr herberginu. Ljósmynd/fhg

Síðla dags mættum við á Fosshótelið á Hellnum, sem er í einstaklega fallegu umhverfi. Sólin var enn hátt á lofti og birtan sem hún gaf frá sér sveipaði umhverfið gylltum tón. Ekki stakt ský var að finna á himni og Snæfellsjökull reis tignarlegur yfir svæðið. Mikið óskaplega er þetta einstakur staður, það er ég viss um að margir eru sammála mér um. Við komum okkur fyrir í fallegu herbergi þar sem rúsínan í pylsuendanum var að frá flestum gluggum sást glitta í jökulinn. Við röltum niður í fjöru þar sem við mættum glaðlyndum ferðalöngum sem sátu á kaffihúsinu þarna í fjörunni og nutu lífsins á sólríku sumarkvöldi. Það var sem tíminn stæði í stað og ekkert annað skipti máli en einmitt þessi stund.

Huggulegt herbergið á Fosshóteli Hellnum.
Huggulegt herbergið á Fosshóteli Hellnum. Ljósmynd/Fosshótel

Eftir að hafa notið umhverfisins settumst við á veitingastaðinn á hótelinu og fengum okkur ljúffengan fisk. Við komum okkur fyrir snemma í háttinn, strákarnir glugguðu í bók og það gerði ég líka, á milli þess sem ég naut þess að horfa á jökulinn loga.

Kátur kiðlingur á geitabúinu á Háafelli.
Kátur kiðlingur á geitabúinu á Háafelli. Ljósmynd/fhg

Við ætluðum aldeilis ekki að missa af morgunverðinum og stilltum vekjaraklukku, svona bara til að vera viss. Við urðum heldur betur ekki fyrir vonbrigðum með þær kræsingar sem þar biðu okkar, við áttum erfitt með að velja á milli þess sem kæmi til með að fylla magamálið þennan morguninn.

Geitur eru dásamlega vinaleg dýr.
Geitur eru dásamlega vinaleg dýr. LJósmynd/fhg

Eftir morgunmatinn var tími til kominn að halda í áttina heim en við ákváðum að taka smá sveigju á leið okkar og keyrðum sem leið lá í átt að Reykholti. Þar ætluðum við nefnilega að kíkja á nokkrar geitur sem við höfðum heyrt að væru ansi skemmtilegar. Það kom okkur á óvart hvað þær voru gæfar og minntu okkur meira á hunda heldur en til dæmis kindur. Við áttum erfitt með að slíta okkur frá þessum fallegu og rólegu dýrum en það var tími til kominn að rjúka heim. Jú, þvotturinn, vinnan og hversdagslífið beið eftir okkur og var orðið óþolinmótt, við héldum því beinustu leið heim með bros á vör og í hjarta eftir góða helgi saman. 

mbl.is