Fimmvörðuhálsinn, er það nokkuð fyrir miðaldra konur?

Pistlahöfundur fagnar eftir að hafa lokið við Heljarkambinn.
Pistlahöfundur fagnar eftir að hafa lokið við Heljarkambinn. Ljósmynd/AÓV

Hann hefur alltaf verið í dálkinum, Ég get þetta ekki, ég vil þetta ekki, mig langar ekki að gera þetta, þetta er ekki fyrir mig dálkinum. Dálkinum sem í gegnum tíðina hefur verið ansi stór.  Hann var miklu miklu stærri, en ég get þetta dálkurinn. Mér fannst álíka miklar líkur að ég myndi fara Fimmvörðuhálsinn eins og að ég færi á Everest eða til Tunglsins.  Hvers vegna þessi vantrú?  Ég var búin að sannfæra mig um að ég gæti þetta ekki af nokkrum ástæðum. Ég var allt of feit, ég var ekki í neinu formi, mér leiðast gönguferðir og útilegur og svo þetta „smáatriði“.  Ég er brjálæðislega lofthrædd og ég hafði heyrt endalausar sögur um fólk sem gjörsamlega trylltist af lofthræðslu á Fimmvörðuhálsinum og beið varanlega skaða af.  

Svo kom dagurinn sem ég skráði mig í FÍ Landvættir.  Þetta er líklega eitt það besta sem ég hef gert um ævina.  Ég vissi að það var æfingahlaup á Fimmvörðuhálsinum.  Ég vissi það vegna þess að ég á fullt af vinum sem hafa farið í Landvættina og ég sá á Facebook að þau fóru í æfingaferð á Fimmvörðuhálsinn.  Ég vissi líka að það er alltaf hægt að finna afsakanir til að mæta ekki. Daginn eftir að ég skráði mig í FI Landvætti sendi Brynhildur Ólafsdóttir, forsprakki Landvætta, æfingaáætlun fyrir árið, þarna var kvikindið. Æfingahelgi, hlaup um Fimmvörðuhálsinn og gist í Þórsmörk.  Mér leist ekkert sérstaklega vel á þetta plan. Það er kannski vægt til orða tekið. Ég fann kaldan svita spretta fram og ég fylltist stressi yfir þessu öllu saman. Gista í Þórsmörk, fól það ekki í sér eitthvað útilegudæmi. Það er bara ekki ég. Ég er meira fyrir að skreppa í helgarferð til London og njóta þess að fara á kaffihús eða fara í 2 vikur til Spánar og liggja á sundlaugarbakkanum. Ég ákvað því að gleyma þessari æfingahelgi og finna út úr þessu síðar. Eins og á næsta ári þegar æfingahelgin yrði.  Ég skráði mig í október 2018 og helgin yrði ekki fyrr en í júlí 2019. Það var nægur tími til að leysa þetta vandamál. 

Hvernig er hægt að stunda útivist þegar þú ert sturluð af lofthræðslu?

Eftir því sem leið á Landvættaprógrammið og við fórum ítrekað út úr þægindarammanum breyttust dálkarnir mínir. Þessi sem heitir: ég get þetta örugglega stækkaði og stækkaði á meðan hinn minnkaði. Ég komst í mjög gott form. Ég fór á gönguskíðum inn í Landmannalaugar og gisti í skála. Ég lærði að mér finnst gífurlega gaman að vera í náttúrunni og reyna á mig. Beinagrindin mín var hins vegar alltaf lofthræðslan. Sama hvað ég reyndi, þá gat ég ekki tæklað þessa lofthræðslu. Ég ákvað að sætta mig við að hún yrði hluti af mér út ævina. Að vera lofthrædd var eitthvað sem ég yrði að lifa með. Ég ákvað að sætta mig að það væru ákveðnir hlutir sem ég gæti ekki gert sama hversu mikið mig langaði til þess. Það sem kom mér síðan gífurlega á óvart var hversu rosalega gaman mér finnst í útivist og allri hreyfingu. Að ég myndi fara að æfa 10 sinnum í viku af því að mér þætti það svo gaman ekki af því að ég yrði að gera það, var ekki eitthvað sem ég hefði trúað fyrir fram. 

Hópurinn góði við Skógarfossa á leið sinni yfir Fimmvörðuhálsinn.
Hópurinn góði við Skógarfossa á leið sinni yfir Fimmvörðuhálsinn. Ljósmynd/ÁÓV

Svo rann dagurinn upp þegar ég fékk nóg. Dagurinn sem ég vildi ekki lengur láta lofthræðsluna stjórna lífi mínu og hvað ég mætti og gæti gert. Við vorum á sameiginlegri fjallahjólaæfingu fyrir Bláalónsþrautina. Við vorum að fara niður Ísólfsbrekkuna, rétt áður en komið er inn í Grindavík. Ég gjörsamlega fraus þarna uppi. Ég fór af hjólinu og labbaði niður brekkuna. Það er mögulega ekki skynsamlegt.  Það er víst ekki talið æskilegt að labba á miðjum veginum þar sem bílaumferð má keyra á 90 km hraða. Þegar þú ert lofthrædd eða með aðrar fóbíur, þá hugsar þú ekki rökrétt. Þú fyllist ofsaótta sem á ekkert skylt við rök. Þetta er hræðileg upplifun. Þú veist alveg að þetta er óskynsamlegt svona alveg innst inni, þú bara ræður ekki við þetta. Það versta sem er hægt að segja við lofthrædda manneskju er, í guðanna bænum hættu þessu rugli. Þetta er ekkert mál. Ég hafði lent í nokkrum aðstæðum með Landvættum þar sem ég fylltist óstjórnlegri lofthræðslu og ég trylltist hressilega á Vífilsfelli og fór að grenja þegar ég átti að fara upp. Kjartan Long, fararstjóri Landvætta, kom mér upp fjallið og það var fyrsta skrefið í að yfirstíga lofthræðsluna. Það var í fyrsta skiptið sem ég þurfti að klára eitthvað og þetta varð reynsla sem ég gat gripið í aftur og aftur. Þegar við kláruðum fjallahjólaæfinguna ræddum við Brynhildur saman. Þetta var ákveðið aha moment fyrir okkur báðar. Ég gerði mér grein fyrir því að ég ef tæklaði ekki þessa helv. lofthræðslu væri ég komin á ákveðna endastöð.  Það væri svo margt sem ég myndi þurfa að sleppa í lífinu, svo margar upplifanir sem ég fengi aldrei að njóta. Málið er einfalt, þetta truflaði gömlu mig ekkert svo mikið, fjallgöngur og fjallahjól voru einfaldlega í dálkinum MigLangarEkkiAðGeraÞetta. 

https://www.mbl.is/ferdalog/frettir/2019/06/28/geta_midaldra_konur_laert_ad_hlaupa/

Núna var þetta komið í hinn dálkinn. Hvernig  í ósköpunum get ég gert þetta? Brynhildur áttaði sig á því að tryllingurinn á Vífilsfelli var ekki frávik. Hann var í rauninni bara eðlileg hegðun hjá mér. Við vorum sammála um að ég þyrfti að fara í meðferð og í fyrsta skipti á ævinni ákvað ég að gefa þessu sjens. Ég hafði engu að tapa. Ég hef aldrei haft trú á því að það sé hægt að lækna lofthræðslu og hef því ekkert verið að leita eftir aðstoð en þessi brekkubugun í Ísólfsbrekkunni var ákveðin endastöð. Ég vildi ekki láta minn innri ótta stoppa mig lengur, ég fékk nóg. Brynhildur benti mér á meðferðaraðila í gegnum Dáleiðslufélag Íslands og ég tók 3 tíma. Margir taka bara 1 tíma en ég tók 3. Fyrsta alvöruprufan mín var Þorvaldsdalsskokkið, 25 km utanvegahlaup upp um fjöll og firnindi. Mér leið vel allan tímann og fann ekki fyrir lofthræðslu. Ég hugsaði meira að segja á leiðinni: Þetta er nú meira snilldarskokkið, frábært fyrir lofthrædda. Svo kom ég í mark og sumir Landvættirnir spurðu: Hvernig leið þér eiginlega á leiðinni? Hvernig tæklaðir þú lofthræðsluna? Hvaða lofthræðslu? Ég fann ekki fyrir henni. Þetta var augnablikið sem ég áttaði mig á því að meðferðin hefði virkað. Þetta er pínu eins og að losna úr fangelsi. Frelsið að geta farið um stíga án þess að hjartslátturinn aukist, að andardrátturinn verði ör og þú svitnir og líðir eins og þú hafir enga stjórn á aðstæðum er ólýsanlegur. Þetta var líka augnablikið sem ég vissi að ég gæti tæklað Fimmvörðuhálsinn. Það mátti ekki seinna vera. Hann var nefnilega helgina eftir.

Hásumar á Fimmvörðuhálsi.
Hásumar á Fimmvörðuhálsi. Ljósmynd/AÓV

Undirbúningurinn fyrir Fimmvörðuhálsinn

Nokkrum dögum fyrir Fimmvörðuhálsinn kom upplýsingapóstur frá Brynhildi. Fyrst þegar ég fékk þessa pósta ollu þeir ákveðnum kvíðaköstum. Ég skildi ekki nema brot af því sem hún skrifaði. Ég þekkti ekki þessi hugtök og þetta var alltaf eitthvað sem ég kunni ekki. Þú þarft alltaf að spyrja að alls konar og þú hefur það á tilfinningunni að það viti allir allt nema þú. Það kom á daginn að svo er ekki. Í fyrsta lagi er engin spurning nógu vitlaus og þeir sem eru í hreyfingu og útivist eru almennt hjálpsamir og skemmtilegir. Ég hef ekki enn þá hitt neikvæðan aðila í allri minni útivist. Þú getur einhvern veginn ekki verið úti í náttúrunni og verið fúll. Allt þetta súrefni og hreyfing kemur í veg fyrir það. Í öðru lagi hefur allt þetta fólk verið byrjendur á einum tímapunkti og skilur vel þínar spurningar og áhyggjur. Þetta var fyrsti pósturinn sem olli engum kvíða. Ég ákvað að gista í skála og pantaði mer rútuferð og skálagistingu. Það var að vísu eitt sem olli mér smá kvíða, það var þegar Kjartan Long setti inn á Facebook-síðu okkar að það gæti verið sniðugt að hafa bæði flautu á bakpokanum sem og rautt blikkandi ljós. Það var þetta með rauða blikkandi ljósið sem olli smá stressi, í hvað vorum við eiginlega að fara? Gæti ég týnst á fjöllum? Ég sendi skilaboð á vin minn sem er veiðimaður. Átt þú svona rautt blikkandi ljós? Nei, ekkert svoleiðis og hann taldi að ég þyrfti nú líklega ekkert á því að halda. Ég ætlaði að vera með Elvu Tryggvadóttur, hún er sérfræðingur í björgunaraðgerðum þannig að mitt plan var að halda mig nálægt henni. Ef við villumst þá veit hún hvað á að gera. Ég leitaði að flautu á fína nýja hlaupabakpokanum mínum en fann hana hvergi. Setti málið í hendurnar á Viktori Loga syni mínum sem fann hana á 10 sekúndum og upplýsti móður sína í framhaldinu um að allir hans bakpokar séu með svona flautur. Þetta sé staðalbúnaður á bakpokum. Kona er greinlega ekki of gömul til að læra eitthvað nýtt. Ég fékk líka svefnpokann hans lánaðan. Svefnpokann sem ég var næstum því búin að láta fara í einhverri tiltekt, þar sem ég gat ekki ímyndað mér að hann yrði nokkurn tímann notaður á mínu heimili. Það hefur enginn á mínu heimili áhuga á útivist. Lesist, ég er ekki að fara með neinn í neina útivist nokkurn tímann. Ég fór yfir listann. Þetta var ansi mikið af útbúnaði sem ég þurfti. Ég átti handfarangurstöskur og svo átti ég bleikar ferðatöskur.  Ég nennti ekki að taka Elle Woods á þetta í Legally blonde þegar hún byrjaði í Harvard og ákvað því að skella mér í Fjallakofann til að kaupa trússtösku. Fann eina sem virkaði frábær, falleg á litinn og vatnsheld.  Það kom á daginn að hún rúmaði allt sem ég þurfti og gott betur.  Hvers vegna fer ég svona mikið í Fjallakofann? Það fæst einfaldlega allt sem ég þarf hjá þeim og ég hef yfirleitt ekki mikinn tíma til að fara í búðir. Síðan hafa þeir fullt af sérfræðingum sem vita betur en ég hvað ég þarf.

Þrátt fyrir sigurinn minn í Þorvaldsdalsskokkinu, vissi ég að ég var ekki útskrifuð. Aðstæðurnar á Fimmvörðuhálsinum voru miklu verri. Það voru aðallega 2 staðir sem ég hafði áhyggjur af, Heljarkambur og Kattarhryggir. Ég var meira að segja búin að heyra: Þú getur ekki farið Fimmvörðuhálsinn ef þú ert svona lofthrædd. Þú getur ekki farið yfir Kattarhryggina. Mitt svar var, ég get það víst, ég á bara eftir að finna út úr því. Mín aðferð hefur alltaf verið mjög einföld.  Ég kynni mér ekki aðstæður fyrir fram. Ég skoða hvorki myndir né kort. Ég vel að fara af stað algjörlega óupplýst og treysti því að þetta reddist. Þetta hefur alltaf reddast. Ég var búin að gera samning við Ragnar, félaga minn í Landvættunum, um að koma mér í gegnum þessi 2 svæði. Hann er reyndur björgunarsveitarmaður og hafði komið mér í gegnum Landmannalaugar þegar ég þurfti á því að halda. Þetta yrði ekkert mál. Kvöldið fyrir Fimmvörðuhálsinn fékk ég skilaboð frá Ástu konunni hans. Ragnar var óhlaupfær og myndi ekki mæta. Smá bakslag en ekkert mál, ég er enn þá með Brynhildi, Róbert Marshall og Kjartan Long. Þegar ég mætti í rútuna þá kom í ljós að Brynhildur komst ekki og bæði Kjartan og Róbert voru að hlaupa Laugavegshlaupið sem fór fram á sama tíma. Aldrei þessu vant var ég pollróleg. Ég greip í Þorvaldsdalsreynsluna og vissi innst inni að þetta myndi reddast. Birna Bragadóttir fararstjóri yrði öftust og hún var búin að koma mér í gegnum eitt og annað. Þetta yrði ekkert mál. 

Pistlahöfundir ásamt þeim Róbert Marshall (t.v.) og Kjartani Long (t.h.).
Pistlahöfundir ásamt þeim Róbert Marshall (t.v.) og Kjartani Long (t.h.). Ljósmynd/ÁÓV

Ég var samt enn þá með HvaðÁÉgAðTakaMeðMér kvíðann. Ég þurfti að taka mér rétt föt fyrir Fimmvörðuhálsinn, nesti fyrir hlaupið, kvöldmat og morgunmat. Hlaupaföt fyrir recovery-hlaupið og svo föt til að vera í yfir daginn og um kvöldið. Ég hafði aldrei þurft að taka svona mikið með mér. Þegar ég fór í Landmannalaugar með Landvættum þá var allur matur innifalinn. Ég sendi neyðarkall á Hildu vinkonu. Hún var ekki að koma með sem var pínu klúður þar sem hún hafði alltaf verið skipulagsstjórinn. Hún sá um að gera undirbúningslista fyrir öll okkar ferðalög. Ég fylltist því smá stressi og sendi á hana neyðarskilaboð.  Hjálp, það er að hellast yfir mig Fimmvörðuhálsstress. Í hverju á ég að vera? Hvað á ég að taka með? Hvað á ég að borða? Í hverju á ég að sofa? Annars er ég pollróleg. Hilda sendi um hæl: Taktu Þorvaldsdalinn á þetta. Hafðu peysu og jakka í bakpokanum. Nesti og skáli út frá Landmannalaugum. Þetta er nú bara svona einfalt þegar kona beitir rökhugsun. Því meira sem hún ferðast og meira sem hún prófar því auðveldari verður undirbúningurinn. Þú lærir hratt hvað þú þarft af næringu í mismunandi hreyfingu og hentar í kvöld- og morgunmat. Klukkan 22:00 setti ég upp mitt eigið Excel-skjal sem er núna grunnurinn að öllu sem ég á eftir að gera. Það var lögð gífurleg áhersla á að mæta með eyrnatappa. Þegar þú sefur í skála með tugum manna þá eru mjög miklar líkur á alls konar hávaðamengun. 

Fimmvörðuhálsinn tæklaður

Við tókum rútuna í Skóga og þaðan byrjaði hlaupið. Þetta leit nú ekkert vel út í upphafi. Það var kalt, blautt og þoka þannig að það síðasta sem ég gerði var að taka stuttbuxurnar upp úr pokanum og setja eina létta ullarblöndupeysu ofan í. Ég var reyndar með aðra peysu, sem og jakka, húfu, tvenna vettlinga og tvö buff í pokanum. Ég held að ég sé alveg að ná tökum á því hvað ég þarf ekki að taka með mér. Óþarfa farangur þyngir bara pokann og hægir á þér. Við byrjuðum á því að fara upp himnastigann og það tók alveg á og ég svitnaði eins og í saunabaði. Mikið var ég „fegin“ að hafa tekið auka peysuna með mér. Hópurinn hélt sig saman í upphafi og svo skiptumst við í nokkra hópa eftir getustigi. Mér leið ágætlega aftast. Leiðin um Fimmvörðuháls er alveg gífurlega falleg en í upphafi er hún um stíga sem eru ansi nálægt brúninni og frekar bratt niður. Þarna sótti ég í Þorvaldsdalsreynsluna mína. Mér leið ótrúlega vel á þessum stígum á meðan ég gekk rösklega. Þetta snýst mikið um að finna taktinn sinn. 

Ég var hvorki orðin nógu örugg til að hlaupa á þessum stígum né leið mér vel að stoppa á þeim. Jafn hraði var málið. Elva passaði sig á að vera nálægt mér og það veitti mér öryggi en það kom mér líka á óvart hvað mér fannst þetta lítið mál. Það fór að hitna og ég var komin á stuttermabol. Bölvaði aðeins að hafa skipt út stuttbuxunum fyrir ullarpeysuna, sérstaklega þegar ég var búin að setja jakkann, peysuna, buffið og vettlingana í pokann sem var orðinn ansi þungur. Eftir því sem á leið þéttist þokan. Þegar við komum að brúnni kom fyrsta hindrunin. Ég fór upp á hana og fékk smá aðsvif. Birna var beint fyrir aftan mig og sagði, labbaðu bara rösklega og horfðu beint áfram. Það gekk eins og í sögu. Þegar við komum í Baldvinsskálann var þokan orðin svo þétt að við vorum beðin að þétta hópana og halda okkur saman. Það var farið að rigna og kólna og ég klæddi mig í fötin aftur.  Þetta var eins og í ævintýri. Þú varst í þéttri þoku, sást varla hvað var fram undan en samt var landslagið ótrúlega fjölbreytt. Það var ís, það var svartur sandur, það var víðátta og há og tignarleg fjöll. Ég vissi hreinlega ekki að við ættum svona gífurlega fallegt land. Allt í einu létti þokunni og sólin skein og okkur hitnaði heldur betur. Ég klæddi mig aftur úr. Það sem tók við var eins og kvikmynd. Útsýnið stórkostlegt hvert sem augað eygði. Það er ansi erfitt að hlaupa svona leið því þú vilt bara vera í núinu og njóta. Eftir því sem við fórum lengra fór að styttast í stóra prófið mitt. Fram undan voru Heljarkambur og Kattarhryggir. Þú ert komin ansi langt, það er engin leið til baka. Það er pínu glötuð hönnun að hafa þetta svona nálægt endamarkinu. Minnir mig á konuna sem spurði þegar ég var ferðamaður í London: Hvers vegna byggðu þau Buckingham-höll svona nálægt flugvellinum? Ég vissi að ég yrði að komast í gegnum þetta, já eða labba ein svona 20 kílómetra til baka. Það var ekkert val, ég yrði að geta þetta. Ég sótti í allan styrkinn sem ég átti. Þorvaldsdalsreynsluna mína og meðferðartímana mína. Tæknina sem ég lærði þar. Þegar við komum að Heljarkambi kom í ljós að þurfti að labba niður fjall með því að halda sér í keðju sem virkaði næstum því alveg föst. Hildur Guðbjörnsdóttir verðandi landvættur og fjallageit er algjörlega laus við lofthræðslu. Hún tók að sér að vera á undan mér og Elva á eftir. Þetta gekk fáranlega vel. Mér leið vel í þessum aðstæðum.. 

Pistlahöfundur ásamt þeim Elvu Tryggvadóttur, Hildi Guðbrandsdóttur og Kristbjörgu Eddu …
Pistlahöfundur ásamt þeim Elvu Tryggvadóttur, Hildi Guðbrandsdóttur og Kristbjörgu Eddu Jóhannsdóttur. Ljósmynd/ÁÓV

Ég hefði ekki getað farið þetta ein í fyrstu tilraun en mér leið aldrei illa, fékk aldrei öran hjartslátt eða svitaköst eins og þegar ég trylltist á Vífilsfelli. Ég trúði þessu varla. Svo þurftum við bara að labba yfir kambinn og þá leiddu þær mig yfir og aftur leið mér stórkostlega vel með þetta. Við fórum áfram og ég vissi að það væri farið að koma að Kattarhryggjunum. Ég sá þá álengdar og við settum upp plan. Ég ætlaði að elta Hildi þar sem það var ekki pláss til að ganga samsíða. Ég ákvað að hanga í bakpokanum hennar, mér leið vel þannig. Þetta byrjaði ágætlega. Þá hrasaði ein í hópnum og rann í hlíðinni. Hún náði sem betur fer að stöðva sig og komast upp að mestu óhnjöskuð.  Hildur stoppaði og ég panikaði. Það var á þessu augnabliki sem ég áttaði mig á því að ég væri ekki komin nógu langt í ferlinu að geta stoppað á þröngum stígum. Hildur var eins örugg og fjallageit og það veitti mér aukið öryggi. Stuttu seinna gengum við fram hjá krækiberjalyngi, ein af þeim freistingum sem Hildur getur ekki staðist. Hún stoppaði til að smakka á þeim. Ég panikaði aftur. Við gerðum samkomulag um að það yrði ekki stoppað aftur á leiðinni. Þarna lærði ég mín takmörk. Ég á eftir ná tökum á því að geta stoppað í mjög brattri hlíð þar sem er þverhnípt niður og bara pláss fyrir einn á göngustígnum. Þegar við gengum sjálfan Kattarhrygginn jókst hjartslátturinn aðeins. Þá áttaði ég mig á því að það var auðveldara að tala um eitthvað algjörlega óskylt eins og væntanlegt ferðalag okkar á Bræðsluna. Fyrir aftan heyrði ég óm af samræðum sem tengdust Kattarhryggjum og hækkun og þess háttar. Prúði fasteignasalinn lét nokkur vel valin orð fjúka sem mætti þýða yfir á íslensku í guðanna bænum hættið að tala, kannski bara með öðru orðavali. Ég fór yfir áfallalaust og þrátt fyrir munnsöfnuð leið mér ótrúlega vel. Ég var búin að kvíða þessum Kattarhryggjum og mikla þá fyrir mér í áratugi og svo þurfti ég bara eina Hildi til að koma mér yfir þá. Mér leið eins og sigurvegara, pínu eins og ég hefði klifið Everest eða skotist til tunglsins. Það var á þessu augnabliki sem ég áttaði mig á því að það eru engin takmörk fyrir því hvað ég get gert. Þetta snýst bara um að vilja það nógu mikið. Ef þú vilt eitthvað nógu mikið þá finnur þú leiðina annars finnur þú afsökun. Mér hefur sjaldan liðið jafnvel og þegar ég kom í Langadal. Ég fór Fimmvörðuhálsinn og ekki bara lifði ég af, ég naut mín. Meira að segja í Heljarkambinum og Kattarhrygginum naut ég þess að geta þetta og sigra mína ótta. Frelsið að ná tökum á lofthræðslunni er ólýsanlegt. Núna hlakka ég til að takast á við næstu verkefni.

Fimmvörðuhálsinn er alveg ótrúlega falleg leið. Ég hefði aldrei trúað því hvað þetta var skemmtileg og stórkostleg upplifun. Get ekki beðið eftir því að prófa að fara hann aftur.

Borgarkona að breytast í útivistarfrík

Þórsmörk er stórkostlegt svæði. Ég hafði ekki komið þarna áður en mér fannst ég vera komin heim. Borgarkonan er að breytast í útivistarfrík. Eins og á öðrum stöðum eru allir hressir og kátir með nóg súrefni. Það var langþráð að komast í sturtu eftir Fimmvörðuhálsinn.  Það var virkilega vond lykt af mér og lyktin af sokkunum var ekki boðleg. Ég var með nóg af sokkum. Lærði að spara ekki hreina sokka eftir helgina í Landmannalaugum þar sem ég tók enga hreina sokka með. Ég keypti mér einn sturtumiða. Það var dásamlegt að komast í heita sturtu.  Með almannahagsmuni í huga ákvað ég að þvo ekki á mér hárið. Það kom til að tvennu. Ég var nýbúin að fá pípara heim til mín til að losa stíflað niðurfall á baðherberginu. Hans greining var niðurfallið er fullt af dökkum löngum hárum. Það er eiginlega heil hárkolla hérna ofan í. Mér datt nú engin skýring í hug, hver gæti átt öll þessi löngu dökku hár? Þrátt fyrir að pabbi sé pípari þá veit ég ekki mikið um lagnir en ég er nokkuð viss um að þær eru ekki bestar á hálendinu og því best að stífla þær sem minnst. Í öðru lagi er ég eins og lukkutröll ef ég leyfi hárinu að þorna óheft og frjálst og geri ekkert, sérstaklega ef það er raki. Þið sem eruð nógu gömul til að hafa séð Friends og munið eftir þættinum þegar Monica fór í Karabíska hafið vitið hvað ég meina. Þegar allir voru orðnir hreinir og fínir fórum við að undirbúa okkur fyrir kvöldmatinn. Þarna kom bersýnilega í ljós hverjir voru vanir útivistarferðalögum og hverjir ekki. Þeir vönu voru með sælkeramáltíð, girnilegt kjöt og flott salat, alls konar meðlæti. Bara eins og fínasta matarboð.  Ég var með pylsur, pylsubrauð, tómatsósu, sinnep og steiktan lauk. Ég hef marga hæfileika, að grilla er ekki einn af þeim.  Fyrst ég er búin að tækla lofthræðsluna hef ég ákveðið að setja ég NenniEkkiAðEldaKannaÞaðEkki viðhorfið á ís og einbeita mér að hafa gaman að því að elda. Það er nefnilega allt hægt ef vilji er fyrir hendi. Um kvöldið var kvöldvaka við varðeld. Róbert Marshall spilaði undir fjöldasöng og þetta var virkilega notaleg stund. Þarna kom líka í ljós að það er alveg hægt að skvísa sig upp þó að kona sé í útilegu. Ég hef aldrei skilið tilganginn með skvísulegum stígvélum. Finnst þau flott en sá ekki hvenær í ósköpunum ég ætti að nota þau. Jú, þau virka rosalega bæði þægileg, hagnýt og smart í útilegum. Þannig að upphá stígvél og uppháir ljósir ullarsokkar eru komnir á listann, Þarf ekki, en langar mikið í. Ég er nefnilega komin á þann stað að ég á eiginlega allt sem ég þarf. Núna getur kona farið að bæta aðeins við útivistargræjum sem væri mjög gaman að eiga en flokkast ekki undir lífsnauðsynjar. Það er alveg hægt að stela útivistarstílnum. Núna er kominn tími á að skoða hann.

Ég er enn þá mjög áttavilt og rugla auðveldlega saman hugtökum. Þegar ég var að ræða við Elvu áður en við lögðum af stað, sagði ég: Þetta er í annað skiptið sem ég fer í Þórsmörk, nei bíddu, við fórum í Landmannalaugar síðast er það ekki? Jú, sagði Elva og hló. Þetta er ekki sami staðurinn. Ég var að sýna fasteign eftir ferðina og var að segja frá þessari ferð. Fékk spurningina, gistir þú í Básum? Ekki hugmynd, ég tók nú bara rútuna og lagði af stað. En sem sagt, við gistum í Langadal. 

 

Tindfjallahlaupið – 10 km recovery hlaup

Ég vissi ekki hvert ég ætlaði þegar ég heyrði orðið recovery-æfing fyrst. Hvaða endemisvitleysa er þetta að fara að taka 5-10 km hlaup daginn eftir langa keppni, t.d. 50 km skíðagöngu? Mér fannst miklu skynsamlegra að nota daginn eftir til að slaka á og hvíla þreytta vöðva heldur en að refsa þér með því að taka langt hlaup daginn eftir. Það kom í ljós að þetta er hin mesta snilld til að mýkja vöðvana og hressa upp á þá. Þannig að daginn eftir Fimmvörðuhálsinn fóru Landvættir í 10 km hressingarhlaup. Sama dag og við fórum skoðaði ég minningar á Facebook. Þar hafði ég sett inn mitt lengsta hlaup á ævinni, 7,07 km á 1.38 klst. Ári seinna fór ég Fimmvörðuhálsinn. 

Þórsmörk í allri sinni dýrð.
Þórsmörk í allri sinni dýrð. Ljósmynd/ÁÓV

Leiðin sem var valin er eintaklega falleg, svokallaður Tindfjallahringur.  Við byrjuðum öll í einum hóp og svo fór aðeins að slitna á milli. Ég var gífurlega mikið klædd (ég veit, ég hlýt að fara að læra þetta) þannig að ég stoppaði til að fækka fötum og missti hópinn aðeins fram úr mér. Róbert Marshall var síðastur að passa að enginn myndi týnast. Þessi leið var meira og minna öll á mjóum fjallastígum og mér leið vel alltaf nema svona tvisvar. Þá var ég svo heppin að Hildur var fyrir framan mig og leiddi mig í gegnum þetta. Við fórum alla leið upp á Stangarháls. Þegar við vorum komin að því að fara upp bauð Róbert mér að fara aðra leið, hann vissi hvað var fram undan. Ég íhugaði það en ákvað að ég þorði ekki að hætta við vegna þess að þá væri ég búin að forrita mig í að hætta ef ég þyrði ekki í ákveðnar aðstæður. Þá hefði ég ekki þessa reynslu til að sækja í heldur reynsluna, ég gafst upp.  Tók íþróttasálfræðina á þetta. Á HM í handbolta 1995 var ég túlkur fyrir spænska landsliðið. Þarna var ég 26 ára og vissi ekki mikið um íþróttir eða sálfræði. Þetta var áður en spænska liðið varð stórveldi og fyrir leikinn við Frakkland týndist fyrirliðabandið í þvotti. Þetta er svart band, virkar eins og svitaband og það fór eitthvað illa í kappana. Það síðasta sem þeir sögðu áður en þeir fóru inn: Við munum aldrei vinna þennan leik. Við höfum aldrei unnið Frakka og núna er fyrirliðabandið týnt. Þetta voru 16 liða úrslitin og leikurinn fór 23-20 frökkum í vil. Í riðlakeppninni töpuðu Spánverjar fyrir Svíum 21-23. Eftir leikinn túlkaði ég á fréttamannafundinum og lenti í smá vandræðum. Skildi bara ekki þjálfarann. Fyrsta útgáfa var, þegar við unnum Svía, ég vissi að það var ekki rétt. Svo heyrði ég, þegar við vinnum Svía, hélt að það væri ekki heldur rétt. Eftir 4 mjög pínlegar og vandræðalegar beiðnir hjá íslenska túlkinum að biðja þjálfarann að endurtaka sig kom þetta loksins. Ef við hefðum haft sömu reynslu og Svíar í að vinna á stórmóti þá hefðum við staðið okkur betur og náð að vinna leikinn. Málið er að þetta er hárrétt. Hver einasta reynsla fer í reynslubankann. Þegar við tökumst á við áskoranir og vinnum þá stækkum við og getum meira. Í hvert skipti sem við hættum að reyna þá er það reynslan sem við getum sótt í. Að við gátum þetta ekki, að við gáfumst upp.

Daginn eftir var Tindfjallahringurinn skokkaður.
Daginn eftir var Tindfjallahringurinn skokkaður. Ljósmynd/ÁÓV

Útsýnið þarna uppi var engu líkt. Ég fór eins nálægt brúninni og mér leið vel með. Eftir ferðina sá ég mynd af Unni Magnúsdóttur hoppa á brúninni og ákvað að setja hana á bucketlistann, ég að hoppa á fjallsbrún. Leiðin niður var ansi brött og á köflum illfær. Mér fannst hún eiginlega aðeins erfiðari en Kattarhryggirnir. Núna var ég með bæði Róbert Marshall og Kjartan Long þannig að í hvert skipti sem ég lenti í smá ófærum þá var ég komin með eina eða jafnvel tvær hendur til að leiða mig í gegnum þetta. Þarna lærði ég líka að það er ekki málið að halda í bakpokann á þeim sem er á undan heldur hendina eða eins og Róbert sagði, ég vil finna þegar þú kippir í og ert í vandræðum. Ferðin til baka sóttist vel og við vorum rétt komin í Langadal þegar það var kominn tími til að halda heim á leið. Við stoppuðum á Hvolsvelli til að rétta úr okkur og fá okkur eitthvað að borða.  

Hvað er svo fram undan, er miðaldrakonan búin að fá nóg af hreyfingu?

Þessi ferð stendur upp úr sem ein besta ferð sem ég hef farið í á ævinni. Ég hlakka til að toppa hana með fleiri ferðum.  Laugavegshlaupið hefur verið á sama stað og Fimmvörðuhálsinn hjá mér. Ég mun aldrei geta þetta staðnum. Núna langar mig að hlaupa Laugaveginn. Hvernig í ósköpunum ætla ég að gera það? Hvernig ætla ég að finna tímann í allt sem ég ætla að gera? Þarf ég ekkert að vinna eða sinna börnunum? Listinn yfir allt sem ég ætla að gera á næsta ári er orðinn ansi langur. 2 World Loppet Gold Master-skíðagöngur. Þetta eru 40-50 km skíðagöngur erlendis, virkar sem frábær æfing fyrir Fossavatnsgönguna. Klára Landvættina. Hálfur járnkarl (nei, ég veit ekki enn þá alveg hvað það er eða hvar), eitt maraþon og svo Laugavegurinn. Ég ætla að taka Hildu vinkonu á þetta. Maður byrjar að æfa og svo gerir þú þitt besta, leggur af stað og setur annan fótinn fram yfir hinn þar til þú kemur í mark. Ég veit hins vegar ekkert hvernig er best að púsla þessu saman. Þess vegna ætla ég að bjóða Halldóru Gyðu Proppe vinkonu minni í kaffi og biðja hana að setja upp planið með mér. Hún er nefnilega búin að gera þetta allt margoft, var t.d. að hlaupa sinn 4. Laugaveg núna í sumar. Ég ætla að æfa fyrir járnkarlinn með Þríþrautarfélagi Kópavogs og þar eru líka reynsluboltar í hverju horni sem eru tilbúnir að deila af sínum viskubrunni hvenær sem þarf. 

Ásdís mín, hvernig ætlar þú að koma inn börnum og vinnu? Hvað ætlar þú eiginlega að æfa mikið fyrir allt þetta? Ekkert svo mikið, kannski 2-3 tíma á dag. Er það ekki frekar mikið, hvar finnur þú þennan tíma? Ég hætti að horfa á sjónvarp og þá fann ég 2-3 tíma á dag sem ég nota í æfingar. 

Ég gæti ekki það sem ég get í dag ef ég hefði ekki skráði mig í Landvættaprógrammið. Reynslan sem þau hafa af því að tækla fólk eins og mig er ómetanleg. Þau hvetja þig áfram og ýta á þig þegar þess er þörf. Ég á Brynhildi, Róbert, Kjartani og Birnu, ásamt öllum hinum Landvættunum og Hildu vinkonu svo gífurlega margt að þakka.  Þau höfðu alltaf trú á því að ég gæti þetta og komu mér yfir erfiðustu hjallana. Vegna þess á ég nýtt líf. Líf sem er fullt af spennandi áskorunum og upplifunum. Líf sem er meira gefandi en að koma heim og hlamma sér fyrir framan sjónvarpið.

Rjúpnafellið í allri sinni dýrð, fyrir aftan það má sjá …
Rjúpnafellið í allri sinni dýrð, fyrir aftan það má sjá glitta í Mýrdalsjökulinn. Ljósmynd/AÓV

Sem ég sat og kláraði þetta blogg kom upplýsingapóstur frá Jökulsárhlaupinu. Hann var snarlega áframsendur á Hildu með orðinum: F... hvað var ég að hugsa, hvað geri ég núna? Svarið kom um hæla, anda inn og út, tökum þetta einn fót í einu.

Hvernig er best að umgangast lofthrædda

Það sem ég hef áttað mig á, er að fólk sem er ekki lofthrætt hefur nákvæmlega engan skilning á vandamálinu og finnst þetta oft óttalegur aumningjaskapur. Hef ekki tölu á því hversu oft ég hef heyrt: Hvaða rugl er þetta? Þetta er nú ekkert svo hátt. Getur þú ekki hrist þetta af þér? Hvernig getur svona vel gefin og klár kona verið lofthrædd? Jú einmitt eins og gáfnafar tengist lofthræðslu eitthvað?

Nokkur góð ráð þegar ferðast er með lofthræddum

  1. Lofthræddir einstaklingar hugsa ekki rökrétt og það þýðir ekki að reyna að leysa þetta með rökum, eins og það er ekkert svakalega hátt þarna niður.
  2. Leyfðu þessum lofthrædda að stjórna ferðinni og hraðanum. Ef hann vill ekki tala þá ekki tala, ef hann vill tala þá tala.
  3. Ekki fara í fjallaklifur nema það sé a.m.k. einn í hópnum sem getur tæklað lofthrædda aðilann.
  4. Hvað sem þú gerir ekki gera lítið úr lofthræðslunni og upplifunum þess lofthrædda í aðstæðum
  5. Aldrei skilja lofthræddan eftir til að bjarga sér sjálfur.

Mitt ráð til lofthræddra. Það er alltaf val að láta lofthræðsluna stjórna lífinu. Ég gerði þetta í áratugi og missti af alls konar upplifunum af ótta við hið ókunna. Það er í raun það sama með lofthræðslu og annan ótta. Við höfum alltaf val. Við getum valið að vera stjórnendur í okkar lífi eða farþegar. Á hverjum einasta degi fáum við nýtt tækifæri til að skrifa okkar sögu og það er undir okkur komið hvað við veljum.

Það sem virkaði best fyr­ir mig var að breyta úr, guð minn góður hvað var ég að hugsa, yfir í en spenn­andi, hvernig geri ég þetta. Það er svo ein­falt að því meira sem ég get og því meira sem ég sigr­ast á, því auðveld­ara er að tækla næsta verk­efni. Eina sem ég þarf að gera er að kynna mér ekki of mikið fyr­ir ­fram og mæta á staðinn með þá staðföstu trú að þetta redd­ist allt ein­hvern veg­inn.

Fyr­ir þá sem vilja fylgj­ast með Ásdísi Ósk má fylgja henni á In­sta­gram: as­disoskvals

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert