Íslenskir snúðar seljast upp í Köben

Ynja Mist opnaði dásamlega fallega kökubúð í Kaupmannahöfn einungis 21 …
Ynja Mist opnaði dásamlega fallega kökubúð í Kaupmannahöfn einungis 21 árs að aldri. Ljósmynd/Úr einkasafni

„En annars er ég mjög ævintýragjörn, og væri alveg vís til ađ flytja eitthvað annađ ef ekki væri fyrir fyrirtækið. Ég verð alveg smá þreytt á borgarlífinu stundum, sérstaklega á sumrin þegar maður verður að vera međ gluggana opna því það er svo kæfandi heitt, en þá getur maður ekki sofnað fyrir fólki og umferð. En mér finnst þó voðalega gaman þegar það er hlýtt á sumrin og maður getur verið úti allan daginn, hjólað á milli staða, t.d. á ströndina, í almenningsgarð, kaupa nesti og sitja úti. Um daginn fór ég međ góðum vinum í siglingu þar sem viđ leigðum bát og stýrđum honum um borgina, ég mæli með því fyrir ferðamenn líka. Það gerist nú samt ekki sérlega oft að ég fái að gera hvað sem er í heilan dag þar sem ég vinn allt of mikið eins og er. Draumadagurinn minn væri þess vegna yfirleitt bara ađ komast í ræktina og ná að borða næringarríkan mat yfir daginn.“

Dásamlega falleg afmæliskaka.
Dásamlega falleg afmæliskaka. Ljósmynd/Úr einkasafni

Ynja Mist hafði engin plön um að opna kökubúð og enn síður að baka sjálf og selja afraksturinn þar sem hún er hvorki menntaður bakari, konditor né í fyrirtækjarekstri. „Þegar ég flutti til Kaupmannahafnar þá var planið að fara í skóla að læra vöruhönnun, af því ég hef mjög mikinn áhuga efnum og endurnýtingu og svoleiðis. Ég er myndlistamaður, þannig að ég var bara að halda sýningar, bæði í Köben og á Íslandi, og að reyna að lifa af sem sjálfbær listamaður. Ég hef samt alltaf séð fyrir mér framtíð þar sem ég er sjálfstætt starfandi á einhvern hátt, og ég hef verið að selja alls konar sjálf frá því ég var 11 ára gömul.“

Fyrir tveimur árum vann Ynja Mist fyrir sér sem listamaður. Síðla árs 2017 hjálpaði hún svo til á nokkrum námskeiðum í fyrirtækinu Bake My Day en fyrir hafði hún ágæta reynslu af kökuskreytingum þar sem hún vann nokkur ár hjá íslenska fyrirtækinu Sætar syndir. „Eftir námskeiðin töluðum við Agatam, eigandinn, saman og hún sagði mér að hún væri að fara ađ flytja til Írlands með manninum sínum. Hún stóð því frammi fyrir því að hætta rekstri. Þetta vakti strax mikinn áhuga hjá tækifærissinnanum mér, og ég byrjaði að spyrja hana út í fyrirtækið og hvort hún vildi selja vörumerkið. Við tók svakalegt rannsóknarverkefni hjá mér, ég talaði við vin minn sem á nokkur fyrirtæki og honum leist rosa vel á þetta og var alveg til í að fjármagna þetta. Eftir að ég var búin að safna að mér nóg af upplýsingum sagði ég loksins mömmu minni frá hugmyndinni í von um að hún myndi taka vel í það. Ég veit ekki hverju ég var að hafa áhyggjur af, þar sem hún hefur alltaf stutt mig í öllu sem ég geri og trúir á mig sama hvað. Það endaði þannig að nokkrum dögum seinna fékk ég símtal frá henni, og hún tilkynnti mér að hún vildi frekar stofna fyrirtækið með mér og fjármagna það sjálf, heldur en að flétta einhvern utanaðkomandi inn. Eftir þetta gerðist allt mjög hratt, ég keypti vörumerkið Bake my Day í nóvember, og stofnaði nýtt fyrirtæki, fann svo stað sem mér leist vel á til þess að leigja í desember. Það var hörð samkeppni um leiguhúsnæðið en sem betur fer fékk ég það.Við tók rúmur mánuður af lagfæringum, þar sem meðal annars faðir minn kom í eina viku og við unnum í 16-18 klukkustundir alla dagana til þess að geta opnað sem fyrst. Í mars réð ég fyrsta starfsmanninn, og núna rúmlega ári síðar er ég með fimm í fullri vinnu.“

Kökubúðin er einstaklega falleg.
Kökubúðin er einstaklega falleg. Ljósmynd/Úr einkasafni

Viðtökurnar hafa verið vonum framar en Ynja Mist segir þetta þó hafa verið óendanlega erfitt og hún hafi þurft að fórna ýmsu. „Velgengnin snýst náttúrulega líka svo mikið um bara hvað þú gerir sem eigandi, og ekki minna mikilvægt að vera með gott starfsfólk sem ég er svo ótrúlega heppin með. Við höfum líka vakið töluverða athygli á Instagram, en á rúmlega einu ári fóru fylgjendur úr því að vera um sjö hundruð upp í sjö þúsund. En það er gríðarlega mikil vinna við það að birta á Insta story og taka góðar myndir og svona, þetta kemur alls ekki af sjálfu sér.“

Kökubúð Ynju Mistar, Bake My Day, sérhæfir sig í sérstökum kökupöntunum fyrir brúðkaup, skírnir, afmæli og fleira og er búðin orðin þekkt fyrir einstaklega vandaðar og fallegar kökur. „Það er líka mjög vinsælt að panta svona „Last minute“-kökur af heimasíðunni okkar, þar sem hægt er að panta litlar kökur með bara 24 tíma fyrirvara. Við erum líka með framboð af bollakökum, kleinuhringjum og smákökum sem hægt er að gæða sér á í búðinni ásamt góðu kaffi frá Copenhagen Coffeelab sem borið er fram í fallegum dönskum bollum frá Studio Aarhøj. Við höfum vakið athygli fyrir að vera litrík og listræn, og það er einmitt það sem ég er að reyna, að spinna listina inn í fyrirtækið á mismunandi vegu. Við höfum núna til dæmis gert kökur fyrir stór fyrirtæki eins og Rejseplanen, Danske bank, & Other Stories, Netlix, Snapchat, Deloitte, Benefit og svo höfum við gert kökur fyrir fullt af frægu fólki líka sem við megum þó ekki nefna á nafn, og fyrir konungsfjölskylduna.“

Falleg skírnarkaka.
Falleg skírnarkaka. Ljósmynd/Úr einkasafni

Nýlega fór Ynja Mist að bjóða upp á íslenska snúða í búðinni og hafa viðtökurnar verið mjög góðar. „Það er alveg greinilegt að íslendingarnir sem búa hér í Kaupmannahöfn sakna íslenska snúðsins því fyrstu vikuna sem við buðum upp á þá seldust þeir upp á hverjum degi,“ segir hún að vonum glöð í bragði.

Hægt er að skoða listaverkin og fylgjast með Ynju Mist á Instagram síðu hennar: bakemydaycph.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert