Raðaðu rétt í ferðatösku

Marie Kondo kennir réttu tökin.
Marie Kondo kennir réttu tökin. Skjáskot/youtube

Íslendingar eru fjölmargir farnir að kannast vel við hina skipulögðu Marie Kondo, konuna á bak við KonMari-aðferðina. Fyrir þá sem þekkja ekki hugmyndafræði Kondo gengur hún út á að fara skipulega í gegnum allar þínar eigur, losa þig við það sem þú þarfnast ekki né veitir þér gleði og raða því sem eftir er af skynsemi í hirslurnar á heimilinu. Að sögn Kondo snýst þessi aðferð ekki einungis um að koma skipulagi á hlutina í kringum okkur heldur rofi líka til í huganum, sjálfstraustið aukist og verkefnin sem bíða okkar verði yfirstíganleg. 

Fyrir stuttu sendi skipulagsdrottning frá sér myndband þar sem hún sýnir á hvaða hátt er hentugast að raða í ferðatöskuna. Þar gilda sömu lögmálin og fyrir hirslurnar heima en það er að taka aðeins með það sem veitir þér gleði og hluti sem þú nauðsynlega þarft í ferðalagið. Í myndbandinu fer hún einnig yfir það hvernig brjóta eigi saman fatnað svo fari betur um hann og plássið í töskunni sé nýtt til hins ýtrasta. Fyrir þá sem verða heillaðir af myndbandinu og vilja kynnast Marie Kondo betur er tilvalið að kíkja á þættina hennar Tidying Up with Marie Kondo á Netflix en þar heimsækir hún fjölmörg heimili þar sem hún kennir heimilisfólkinu að skipuleggja skápa og skúffur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert