Hvernig ilmar hótelið?

Ilmkertin frá W-hótelunum eru eiguleg og ættu að laða fram …
Ilmkertin frá W-hótelunum eru eiguleg og ættu að laða fram minningar frá ánægjulegri hóteldvöl.

Mörg fyrirtæki láta það ekki ráðast af tilviljun hvernig angan fyllir vit viðskiptavina. Ilmur getur jú haft djúpstæð áhrif á fólk, og kitlar taugar innst í frumstæðustu hlutum heilans. Lyktin ein getur fært okkur langt aftur í tímann á einu augabragði, og fyllt okkur gleði og fortíðarþrá, eða gert okkur gröm og pirruð.

Ferðaritið Conde Nast Traveler fjallaði á dögunum um hvernig bestu hótel heims láta sérhanna fyrir sig ilmi og úða síðan í örsmáum skömmtum inn í loftræstikerfið. Ilmurinn þarf að endurspegla yfirbragð hótelsins, og gefa gestum ákveðna hugmynd um á hverju er von um leið og þeir stíga fæti inn í anddyrið. Ilmurinn má samt alls ekki vera of sterkur, og gengur ekki að gestum líði eins og þeir hafi villst inn í ilmvatnsbúð rétt eftir jarðskjálfta.

Meðal hótelkeðja sem nota sérstakan ilm má nefna Westin sem valdi sér blöndu af angan af tei, sedrus og vanillu, á meðan tískuhótelkeðjan W notar frískandi ilm með jasmínu-, fíkju- og sandalviðartónum.

Stundum heppnast hönnun ilmsins svo vel að hótel geta búið til heila vörulínu af ilmflöskum og kertum sem fastagestir kaupa með glöðu geði. Þarf þá ekki meira en að úða yfir stofuna eða kveikja á kerti inni í svefnherbergi og er þá eins og maður sé kominn aftur á uppáhaldshótelið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert