Máttu taka lyfin með í ferðalagið?

Mörg, ef ekki flest lyf til að með höndla ofvirkni …
Mörg, ef ekki flest lyf til að með höndla ofvirkni og athyglisbrest innihalda efni sem strangar reglur gilda um. Gæti fólk sem notar þannig lyf þurft að gera ráðstafanir til að fá nýjan skammt í útlöndum ef halda skal í langt ferðalag. Friðrik Tryggvason

Fara ætti varlega þegar ferðast er út í heim með lyf í farteskinu, og þá sérstaklega ef að pakka þarf stórum lyfjaskammti, eða mjög sterkum lyfjum sem gætu flokkast sem ávana- og fíkniefni. Eru til dæmi af fólki sem hefur verið stoppað í tollinum í útlöndum, fengið sekt, tiltal, og jafnvel verið stungið í steininn, fyrir að hafa á sér ósköp venjuleg verkjalyf og jafnvel bara hóstamixtúru, eða fyrir að hafa tekið of mikið magn lyfja með sér.

Reglurnar eru breytilegar eftir löndum og ættu ferðalangar, ef þeir eru í nokkrum vafa, að leita sér nánari upplýsinga um hvað má og hvað má ekki á þeim stöðum þar sem stoppað verður eða flogið í gegn. Þannig virðast mörg lönd umhverfis Persaflóann ákaflega ströng og tollverðir þar duglegir að skima eftir pillum í farangri.

15, 30 eða 100 daga skammtur

Þær reglur sem gilda á Íslandi geta gefið ágætis vísbendingu um hvar mörkin liggja í öðrum löndum, og þá sérstaklega hjá vestrænum ríkjum. Þannig segir á heimasíðu Lyfjastofnunar að ferðalangar megi koma með allt að 100 daga skammt af flestum lyfjum til landsins, og þarf sá sem á lyfin að geta framvísað læknisvottorði, lyfseðli eða skriflegri yfirlýsingu ásamt fyrirmælum um notkun lyfjanna.

Strangari reglur gilda hins vegar um lyf sem flokkast sem ávana- og fíknilyf. Leyfist ferðamönnum með búsetu á Schengen-svæðinu þá að taka með sér 30 daga skammt, en bara 14 daga skammt komi þeir frá landi utan Schengen-svæðisins.

Leiki vafi á því hvaða flokki lyf tilheyrir ætti að vera hægt að fá það á hreint hjá lækni eða hjá lyfjafræðingi í næsta apóteki. Þá má líka fletta upp á netinu reglugerð um ávana- og fíkniefni sem inniheldur fylgiskjal með lista yfir bönnuð innihaldsefni.

Eru þar m.a. efni sem finna má í ýmsum gerðum verkjalyfja og svefnlyfja, en einnig í lyfjum til að meðhöndla ofvirkni og athyglisbrest.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert