Ekki fá háan gagnareikning eftir ferðalagið

Gestur á Glastonbury tónlistarhátíðinni kíkir á símann. Ekki þarf að …
Gestur á Glastonbury tónlistarhátíðinni kíkir á símann. Ekki þarf að hafa áhyggjur af gagnagjöldum innan EES, en megabætið getur verið mjög dýrt þegar haldið er lengra út í heim. AFP

Snjallsíminn er afskaplega góður ferðafélagi: hann vísar okkur leiðina á áfangastað, hjálpar til við leitina að áhugaverðum verslunum, söfnum og veitingastöðum, reiknar út gengið, leyfir okkur að ganga frá innritun í flug á leiðinni á völlinn, vekur okkur blíðlega á morgnana og spilar öll uppáhalds lögin okkar til að gera ferðalagið enn ævintýralegra.

En snjallsíminn þarf á gögnum að halda, og geta megabætin verið dýr í útlandinu. Ekki þarf að hafa áhyggjur af gagnanotkuninni þegar ferðast er innan EES enda mælist hún eins og notkun á Íslandi, en utan Evrópu getur það eitt að opna leiðsöguforritið kostað nokkur hundruð, og jafnvel nokkur þúsund krónur.

Þannig má áætla að ef Google Maps er notað til leiðsagnar í klukkustund sæki síminn um 5 MB af gögnum. Þegar verðskrá íslensku farsímafyrirtækjanna er skoðuð kemur í ljós að algengt verð á einu stöku megabæti er um og yfir 100 kr, en í sumum löndum kostar megabætið um 2.400 kr, og hægt að finna lönd þar sem verðskráin fer allt upp í rétt tæpar 3.000 kr. Myndi þá kosta um 15.000 kr að hafa Google Maps í gangi í klukkutíma, s.s. á leiðinni frá flugvelli upp á hótel.

Daglegur gagnaskammtur

Ein leið til að spara er að kaupa svk. „ferðapakka“ hjá símafyrirtækjunum. Hjá Vodafone kostar ferðapakkinn 990 kr á dag og eru þá 500 MB innifalin og kostar ekkert að hringja símtöl til Íslands eða innan landsins sem heimsótt er. Síminn rukkar sléttar 1.000 kr á dag, 10 kr fyrir hverja símtalsmínútu og fylgja 500 MB með í pakkanum.

Ferðapakkinn er bara í boði í sumum löndum, og mismunandi á milli símafyrirtækja hvaða lönd eru í pakkanum. Kostar daggjaldið í mörgum tilvikum einn þriðja af því sem það myndi kosta að sækja eitt megabæt.

Frjáls eins og innfæddir

Önnur sparnaðarleið er að kaupa frelsiskort á áfangastaðnum. Hentar þessi lausn vel fyrir lengri dvalir (og ætti þá að vera hagkvæmari en ferðapakka-áskrift) eða ef ætlunin er að heimsækja landið oft. Breytilegt er eftir löndum hversu auðvelt er að kaupa símafrelsi og í sumum tilvikum þarf að framvísa vegabréfi og mögulega bíða stutta stund eftir að kortið fari í gang. Oftast má finna verslanir við útgang flugvalla sem selja frelsiskort en það getur borgað sig að gera stutta leit á netinu áður en haldið er í hann, til að sjá hvaða símfélag býður besta verðið og hefur besta dreifikerfið.

Þeir sem ekki nenna að skipta um kortið í símanum geta líka oft tekið netpung á leigu á flugvöllum og fylgir þá gagnaáskrift með. Netpungurinn er hentugur m.a. að þv í leyti að margir geta tengst sama tækinu, en gæta þarf að því að rafhleðsla pungsins tæmist ekki.

Indverskir piltar taka sér hlé frá störfum og grípa til …
Indverskir piltar taka sér hlé frá störfum og grípa til símans. Hjá einu íslensku símfyrirtæki kostar megabætið á Indlandi röskar 700 kr. AFP

Hægt að komast upp með margt með skjáskotum

Þriðja sparnaðarleiðin er einfaldlega að sækja gögnin áður en lagt er í hann, eða yfir þráðlaust net þar sem það er í boði (s.s. uppi á hótelherbergi), og hafa annars slökkt á gagnatengingu símans í útlandinu. Kortaforrit eins og Google Maps bjóða upp á þann möguleika að hlaða kortum niður í minni símans, og þó að ekki sé hægt að biðja forritið um að veita leiðsögn án nettengingar þá nýtist kortið til að rata í rétta átt, þökk sé GPS-búnaði símans. Þá má taka skjáskot af t.d. flugupplýsingum, rafrænum flugmiða, heimilisfangi hótels og leiðarlýsingu leiðsöguforrits. Þarf þá bara að fletta skjáskotunum upp í myndasafninu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert