Hraðbankar sem ætti að forðast

Á vinsælum ferðamannastöðum má oft finna hraðbanka sem er allt …
Á vinsælum ferðamannastöðum má oft finna hraðbanka sem er allt annað en hagkvæmt að nota. AFP

Að taka út pening í hraðbanka erlendis getur verið svolítið snúið. Bæði þurfa ferðalangar að kynna sér verð- og gengisskrá bankans síns til að átta sig á hvað úttektin mun kosta, en svo þarf líka að vanda valið á hraðbanka og ástæða til að varast ákveðnar tegundir hraðbanka sem búið er að hola niður á stöðum þar sem liggur mikill straumur ferðamanna.

Gildrur lagðar fyrir grunlausa ferðamenn

Félagarnir Honza og Janek starfa sem leiðsögumenn í Prag og hafa gert ítarlegt myndband þar sem þeir vara við þessum túrista-hraðbönkum. Vafasömu hraðbankarnir sem þeir finna í miðborg Prag eru nær allir merktir fyrirtækinu Euronet, en sams konar dýra hraðbanka má t.d. finna í Bandaríkjunum og eru algeng sjón inni í kjörbúðum, veitingastöðum og hótelum í borgum eins og New York. Euronet-hraðbankar eru um alla Evrópu, á agalega hentugum stöðum, en ætti helst ekki að nota þá nema í algjörri neyð og þá með mikilli varúð.

Í myndbandi leiðsögumannanna má sjá hvernig hraðbankinn reynir fyrst að plata notandann til að taka út allt að 20.000 tékkneskar krónur, jafnvirði rösklega 100.000 íslenskra króna, og er það miklu meira reiðufé en flestir þurfa í svona ódýrri borg. Kvikindislegasta brellan er þó að hraðbankinn býður notandanum að kaupa tékknesku seðlana á mjög óhagstæðu gengi. Bæði er hraðbankagengið um 15% dýrara en markaðsgengið, en ofan á það bætist síðan u.þ.b. 500 kr úttektargjald.

Hvort sem um er að ræða hraðbanka eða posa ætti alltaf að velja að greiða í gjaldmiðli heimamanna, og afþakka það ef tækið býður upp á að bókfæra viðskiptin í íslenskum krónum.

Úttektir með allt á hreinu

Áður en lagt er í hann ætti að skoða hvaða úttektarheimildir eru á íslenska greiðslukortinu, hafa á hreinu hvað bæði markaðs- og kortagengið er, og rifja upp þær þóknanir sem íslenski bankinn rukkar. Hjá dæmigerðum stórum íslenskum banka leggst 2,75% gjald ofan á peningaúttekt með kreditkorti erlendis, þó að lágmarki 820 kr. Þýðir það að óhagkvæmara er að taka út upphæð sem er lægri en sem jafngildir 30.000 kr.

Með debetkorti lækkar hraðbankaþóknunin niður í 2% og er án lágmarksgjalds. Aftur á móti er tekið 1% gjald fyrir greiðslu með debetkorti hjá erlendum söluaðila, en ekkert gjald ef borgað er með kreditkorti.

Er því í raun ódýrara, fyrir viðskiptavini þessa banka að nota kreditkortið til að borga fyrir vöru og þjónustu, en debetkortið til að taka út reiðufé. Ofan á gjöld íslenska bankans bætist svo úttektarþóknun erlenda hraðbankans, sem getur verið fast gjald eða prósentutala. Ef bankinn tekur fast gjald er þeim mun meira áríðandi að taka út hærri upphæðir í einu, frekar en margar smáar upphæðir.

Fyrir allar færslur erlendis nota íslenskubankarnir kortagengi sem er dýrara en almennt gengi. Er breytilegt eftir gjaldmiðlum hve óhagstætt kortagengið er, og líka miserfitt að finna gengisupplýsingarnar hjá íslensku bönkunum svo að jafnvel gæti eina leiðin verið að hringja í þjónustuver til að fá að vita daggengið á ákveðnum gjaldmiðlum. Landsbankinn birtir mjög samviskusamlega kortagengi allra gjaldmiðila á vefsíðu sinni og má þar t.d. sjá að kortagengi evru er ekki nema 0,3% hærra en seðlagengið en hins vegar er kortagengi taílenska bahtsins og argentínska pesóans 3,3% og 3,2% yfir miðmarkaðsgengi.

Að taka út hæfilega mikið

Hvar er svo best að taka út reiðufé? Hyggilegast er að finna hraðbanka sem rekinn er af venjulegum banka og oftast hægt að finna þannig hraðbanka í röðum strax og komið er út úr tollaleit flugvalla. Gott er að hafa sem gleggsta hugmynd um hve mikið reiðufé þarf í raun, s.s. til að borga fyrir leigubíl, og smáræði af ýmsum toga. Er breytilegt eftir löndum hve erfitt er að komast af með greiðslukortinu einu saman og t.d hægt að fara í langt ferðalag til Svíþjóðar án þess að þurfa nokkurn tíma að handfjatla peningaseðil, á meðan ekki er annað í boði í Taílandi en að borga fyrir leigubílinn, svaladrykkinn, fótanuddið og götumatinn með reiðufé.

Ekki gleyma að sýna alltaf aðgát þegar peningur er tekinn úr hraðbanka, og dreifa seðlunum á nokkra staði s.s. í sitt hvorn buxnavasann og á ólíka staði í bakpokanum svo að ef fingralöngum vasaþjófi tekst að krækja í nokkra seðla þá nái hann þeim ekki öllum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert