Nú er lag að heimsækja Argentínu

Stuðningsmenn Boca Juniors kunna að hvetja sína menn áfram.
Stuðningsmenn Boca Juniors kunna að hvetja sína menn áfram. AFP

Eins og Ferðavefurinn fjallaði um fyrir skemmstu getur verið mjög hagkvæmt fyrir ferðalanga að velja áfangastaði þar sem efnahagsáföll eru nýgengin yfir og gjaldmiðillinn ódýrari en venjulega. Þannig er núna alls ekki dýrt að heimsækja Tyrkland, Brasilíu og Argentínu enda hefur efnahagsstefna stjórnvalda í þessum löndum ekki heppnast nógu vel og líran, ríallinn og pesinn veikari sem því nemur.

Nú berast fréttir af enn einu áfallinu í Argentínu. Könnunarkosning sem haldin var um helgina bendir til að Perónistar komist til valda í október og hleypti það öllu í háaloft á mörkuðum. Hlutabréfaverð hrundi svo að leitun er að öðru eins tapi í sögu hlutabréfaviðskipta og pesinn veiktist um hér um bil 20% gagnvart krónunni.

Ólíkt fyrri skakkaföllum í efnahag Argentínu þá virðist samt allt með ró og spekt í Buenos Aires, og ferðalangar hætta ekki á að ramba fyrir slysni fram á mótmælagöngur og óeirðir. Lífið gengur sinn vanagang í Argentínu, og munurinn aðallega sá að fyrir fólk sem fær útborgað í krónum eru nautasteikin og vínglasið orðin 20% ódýrari en hún var fyrir viku síðan – og var þó ekki dýr fyrir.

Dýrt flug en ódýr nautasteik

Til að fá hugmynd um hvað það kostar núna að dvelja í Argentínu má kíkja þær upphæðir sem vefsíðan Numbeo hefur safnað frá ferðalöngum. Þar segir að máltíð fyrir tvo á meðaldýrum veitingastað kosti um 1.100 pesa að jafnaði, eða um 2.400 kr og stjörnumáltíðin á McDonalds kostar um 250 pesa, eða í kringum 550 kr. Ekki eru hótelin dýr heldur, og á Skyscanner mátti t.d. panta herbergi frá 23 til 25 ágúst á fimm stjörnu hótelum miðsvæðis fyrir rúmlega 16.000 kr. Reikna má með að stutt ferð með leigubíl kosti á við einn strætómiða í Reykjavík.

Gallinn er sá að flugið er bæði dýrt og langt og skásta tengingin virðist vera með Finnair, í gegnum Dallas. Miðinnkostar 107.000kr og tekur ferðalagið nærri sólarhring á leiðinni út en 34 tíma á leiðinni til baka, út af löngu stoppi í Bandaríkjunum. Er því allt eins gott að gefa sér góðan tíma, sjá hvort ekki megi millilenda í skemmtilegri borg á leiðinni og skoða sig þar um, og svo verja amk. viku í Argentínu. Landið er stórt, margt að sjá og tveggja vikna dvöl þarf ekki að kosta mikið.

Iguazu fossarnir eru þeir stærstu í heimi og krafturinn í …
Iguazu fossarnir eru þeir stærstu í heimi og krafturinn í þeim hrikalegur. AFP

Land Evitu og Maradona 

Hvað er svo hægt að gera skemmtilegt þegar komið er á áfangastað

Farðu á Tangó-námskeið. Hvar er betra að læra þennan tignarlega og kynþokkafulla dans en einmitt í Argentínu? Þeim sem vantar allan takt og tilþrif gæti í staðinn þótt gaman að horfa á tangó-sýningu.

Njóttu borgarlífsins í Buenos Aires. Þar eru framúrskarandi grillstaðir, notaleg kaffihús og ísbúðir sem slá flestu við. Uppi á veggjum listasafnanna hanga margar fegurstu perlur málara Rómönsku Ameríku.

Gerðu vel við þig í mat og drykk. Sagt er að Buenos Aires sé sú borg sem hafi flesta veitingastaði miðað við höfðatölu. Steikurnar eru stórar og þjónarnir örlátir á vínið. Athugið að biðja þarf um „blóðuga“ steik til að fá það sem Íslendingar myndu kalla „medium-rare“ og bernaise-sósa er ekki hluti af orðaforða argentínskra grillmeistara.

Kíktu í kirkjugarðinn í Recoleta. Þar hvíla listamenn og leiðtogar Argentínu í fagurlega skreyttum grafhýsum, og má sjá á blómvöndunum hverjir eignuðust stærstan sess í hjörtum þjóðarinnar. Þannig vanar sjaldan blómin fyrir framan grafhýsi Evu Perón.

Farðu á fótboltaleik. Boca Juniors og River Plate eru aðal-knattspyrnulið borgarinnar, og þegar þau spila þá tæmast göturnar. Argentínumenn kunna að lifa sig inn í leikinn og mikið fjör í stúkunni. Ætti samt að sýna hæfilega aðgát því fótboltabullur geta skemmt fyrir, og vissara að vera ekki í rangri treyju í röngu hverfi eftir mikinn átakaleik.

Gerðu góð kaup. Buenos Aires er mikil tískuborg og enginn skortur á flinkum argentínskum hönnuðum sem reka litlar verslanir hér og þar.

Farðu í óperuna. Teatro Cólón í Buenos Aires þykir hafa mjög góðan hljómburð og fínan dans- og leikhóp. Lykilverk óperu- og ballettsögunnar eru reglulega á dagskrá.

Skoðaðu landið. Argentína er stórt og fallegt land með fjölbreytta náttúru. Í norðri eru Iguazu-fossarnir, Tierra del Fuego í suðri og salteyðimörkin Salinas Grandes í vestri.

Kíktu til nágrannalandanna. Frá Buenos Aires til Montevideo er bara stutt sigling, þrjá tíma tekur að fljúga til Ríó, og fimm tíma flug er til Líma í Perú.

Tangóinn er samofinn þjóðarsál Argentínu og hægt að læra mikið …
Tangóinn er samofinn þjóðarsál Argentínu og hægt að læra mikið á stuttu námskeiði. AFP
mbl.is