Það sem ekki ætti að kaupa á flugvöllum

Oftast er mjög kostnaðarsamt að skipta gjaldeyri á flugvöllum og …
Oftast er mjög kostnaðarsamt að skipta gjaldeyri á flugvöllum og hægt að fá betra verð hjá gjaldmiðlasölum í miðborginni. AFP

Þó að varningurinn sem er til sölu á flugvöllum eigi, oftast, að vera undanskilinn alls kyns sköttum og gjöldum, þá er raunin að iðulega er hægt að fá mun betra verð annars staðar. Margir lesendur ólust upp við það að gera mætti afskaplega góð kaup í fríhöfninni, og þótt það eigi við um ýmsar vörur sem fást t.d. í komubúðinni í Leifsstöð þá eru flugvellir úti í heimi oft með uppskrúfað verð á ótrúlegustu hlutum.

Readers Digest fjallar um þetta í grein og bendir t.d. á að raftækjabúðir á flugvöllum eru upp til hópa með mjög háa álagningu. Í könnun sem bar saman verðlag bandarískra flugvallaverslana og raftækjabúða á netinu kom í ljós að verðin voru að jafnaði 34% hærri á flugvöllunum og reyndust heyrnartól áberandi dýr.

Og ef fólk ætlar að kaupa minjagripi, þá er vissara að gera það áður en komið er upp á flugvöll. Úrvalið og verðlagið er töluvert skárra í ferðamannabúðum í bænum þar sem samkeppnin er harðari.

Það er alls ekki öruggt að fríhafnir bjóði besta verðið …
Það er alls ekki öruggt að fríhafnir bjóði besta verðið á áfengi. AFP

Dýr munnbiti

Því miður hefur sá siður smitast til Íslands að veitingastaðir á flugvöllum rukki himinhátt verð fyrir mat og drykk. Er það orðið regla um allan heim að flugvallamatur er dýr, og jafnvel skyndibitakeðjur rukka hærra verð fyrir stjörnumáltíðina þegar komið er í gegnum vegabréfaeftirlitið, en þær gera niðri í miðbæ. Verðið á vatns- og gosflöskum getur fengið hagsýna ferðalanga til að tárast. Reyndu að borða áður en lagt er í hann út á flugvöll, og kipptu með þér tómri flösku sem hægt er að fylla af vatni eftir öryggisleitina.

Sama gildir með sælgæti á flestum flugvöllum, bæði við brottför og komu; að það er iðulega langtum dýrara en t.d. í stórmörkuðum. Komubúðin í Leifsstöð virðist undantekning frá þessu og nammið þar á sæmilegu verði svo að sælgætisgrísir geta óhræddir fyllt hjá sér körfuna. Þá fer eftir löndum hvort fríhafnaráfengið er ódýrt: ef áfengisgjöld eru há, s.s. í Tyrklandi eða Taílandi, þá er fríhafnarflaskan á útsöluverði en í Bandaríkjunum má iðulega gera betri eða jafngóð kaup í stórmörkuðum og vínbúðum.

Í bandarískri könnun voru raftæki um þriðjungi dýrari á flugvöllum …
Í bandarískri könnun voru raftæki um þriðjungi dýrari á flugvöllum en hjá netverslunum. AFP

Fokdýrir seðlar 

Þá ætti að forðast það í lengstu lög að skipta gjaldeyri á flugvöllum. Þar er gengið iðulega mjög óhagstætt eða há þóknun er tekin fyrir viðskiptin. Í flestum tilvikum er góð regla að taka út pening í hraðbanka við komuna í nýju landi eða fara t.d. með dollara eða evrur út í heim, og þegar lent er í útlöndum að skipta bara rétt nóg á flugvellinum til að eiga fyrir leigubíl og útgjöldum fyrsta sólarhringsins. Restinni má svo skipta hjá gjaldmiðlabúð niðri í bæ þar sem mun betra verð fæst fyrir seðlana og gæti jafnvel munað tugum prósenta.

Ef ferðinni er heitið til annars lands í sömu ferð, gildir annaðhvort að geyma nokkra dollara eða evrur og endurtaka leikinn þegar þangað er komið, eða sjá hvaða verð er í boði fyrir gjaldmiðil nýja viðkomustaðarins hjá skiptibúllum fyrra landsins. Annars ætti að skipta þeim gjaldeyri sem eftir er í dollara eða evrur fyrir brottför.

Ekki sitja uppi með ónotaða seðla og klink í lok ferðar. Reyndu að eiga rétt svo nóg til að komast aftur út á flugvöll og ef eitthvað er afgangs má eyða því í snarl í flugstöðinni. Ef þú reiknar ekki með að snúa aftur á þessar sömu slóðir í bráð þá viltu losa þig við allt reiðufé enda erfitt og jafnvel ógerlegt að ætla að skipta t.d. taílenskum böttum, mexíkóskum pesum eða tyrkneskum lírum þegar heim er komið.

mbl.is