Að ferðast eins og Bond um Evrópu

Bond kann greinilega ágætlega við sig i Feneyjum.
Bond kann greinilega ágætlega við sig i Feneyjum.

Njósnari hennar hátignar er ekki bara laginn við að ráða niðurlögum vondra karla, allra manna fimastur að aka hraðskreiðum bílum, einstaklega smekklega til fara og ómótstæðilegur í augum bæði karla og kvenna – hann kann líka að velja áhugaverða áfangastaði.

Raunar virðist það einkennismerki allra Bond-mynda að 007 er sendur í algjöra drauma-vinnuferð þar sem hann eltir skúrka í gegnum vinsælustu áfangastaði ferðamanna, og virðist best ef honum tekst að hrinda þeim fram af einhverju heimsfrægu kennileitinu.

Er því ekki úr vegi að gera Bond að leiðsögumanni til að krydda næstu ferð til útlanda. Bond hefur komið svo víða við að það þarf að skipta ferðum hans niður eftir heimsálfum. Byrjum við í Evrópu, og látum nægja að nefna nokkra hápunkta:

Svo heppilega vill til að Wikipedia heldur nákvæma skrá utan um alla viðkomustaði Bonds, og gerir þar greinarmun á hvenær Bond var í „alvöru“ á þeim stað sem kvikmyndin tiltekur, eða einhvers staðar allt annars staðar líkt og þegar Jökulsárlón og nágrenni var látið vera ísilagt svæði í Rússlandi þar sem Roger Moore þurfti að flýja útsendara Rauða hersins.

Ætli sé ekki búið að útiloka Bond frá Borginni fljótandi, …
Ætli sé ekki búið að útiloka Bond frá Borginni fljótandi, enda á hann það til að brjóta allt og bramla þegar hann kemur í heimsókn.

Fastagestur hjá Tyrkjunum

Strax kemur í ljós að Bond heldur mikið upp á Feneyjar. Þangað kom hann í Moonraker, og í Casino Royale, og hafði í bæði skiptin viðkomu á Markúsartorginu.

Hann kemur líka reglulega við i Istanbúl, fyrst í From Russia With Love þar sem Ægisif bregður fyrir, svo aftur í The World is Not Enough þar sem skúrkurinn reynir að snúa á hann í Ungmeyjarturninum úti á Bospórussundi og loks í Skyfall að hann stökk upp á mótorhjól og spanaði bæði yfir og í gegnum Grand Bazaar.

Vitaskuld hefur hurð líka oft skollið nærri hælum á heimavelli Bonds, í London og nágrenni. Þannig gætu Bond aðdáendur haft gaman af að rifja upp senur sem teknar voru upp á Ascot-veðhlaupabrautinni fyrir Octopussy, eða í Somerset House og ofan á Þúsaldarhvelfingunni í The World is Not Enough. Buckhingham-höll birtist svo ekki fyrr en í Die Another Day.

Af öðrum áfangastöðum í Evrópu má nefna Chateau d‘Anet (Thunderball), Chateau de Vaux-le-Vicomte (The Spy Who Loved Me), Chateau de Chantilly og Eiffel turninn (A View To A Kill) í Frakklandi, Schönbrunn-höllina og parísarhjólið í Vínarborg (The Living Daylights), spilavítið í Monte Carlo (Licence to Kill) og Guggenheim-safnið í Bilbao (Tomorrow Never Dies).

Franskar hallir sjást oft í Bond-myndum, og einnig Eiffel turninn, …
Franskar hallir sjást oft í Bond-myndum, og einnig Eiffel turninn, þar sem Grace Jones tókst að stinga Roger Moore af. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert