Ekki breytast í uppvakning í fluginu

Að fara í langt flug getur verið afskaplega óskemmtilegt. Að …
Að fara í langt flug getur verið afskaplega óskemmtilegt. Að innbyrða lyf til að sofa alla leið á áfangastað gæti samt verið óskynsamlegt. AFP

Það getur verið freistandi, þegar lagt er af stað í langa flugferð, að gleypa pillu til að geta sofið eins og engill alla leið og vakna úthvíldur og hress á áfangastað. Nema hvað lyfin hafa oft ekki þau áhrif sem fólk reiknar með, eins og ferðagreinahöfundurinn John Vlahides komst að þegar hann flaug frá London til San Francisco.

Þar kenndi hann flugþjóni að hnýta túrban og hafði ofan af fyrir ungum pilti sem gat ekki sofið með því að brjóta saman skutlur og láta þær fljúga um farþegarýmið. Vlahides mundi ekkert eftir því sem hafði gerst, fyrr en hann sá myndir af uppátækinu.

CNN fjallaði um ævintýri Vlahides í nýlegri grein, og segir hann hafa sloppið nokkuð vel. Annar farþegi í sömu sporum ákvað að afklæðast og hlaupa allsnakinn inn á fyrsta farrými. Enn annar vaknaði í móki í miðju flugi, og þurfti að nota klósettið. Hann gerði sér lítið fyrir, stóð upp og meig á sessunaut sinn.

Skert sjálfsstjórn

Allir áttu þessir farþegar það sameiginlegt að vera undir áhrifum lyfja. Vlahides hafði tæmt úr tveimur litlum vínflöskum, tekið örlítinn skammt af róandi lyfi og að auki eina pillu af svefnlyfinu Ambien. Uppákomur af þessum toga eru svo algengar að flugþjónar eiga sérstakt orð yfir þessa lyfjuðu vandræðafarþega og kalla þá Ambien-uppvakninga.

Blessunarlega er þó fátítt að fólk afklæðist sisvona eða noti aðra farþega fyrir klósett, en algengara að í svefnmókinu eigi farþegar það til að abbast upp á og jafnvel þukla á sessunauti sínum.

Ambien bæði sljóvgar minnisstöðvar heilans og dregur úr sjálfsstjórn fólks, og á þannig að róa hugann til að gera það auðveldara að festa svefn. Ef fólk tekur pilluna, en nær samt ekki að sofna, er ekki von á góðu fyrir aðra farþega og áhöfn.

Betri svefn án lyfja og áfengis

Þeir sérfræðingar sem CNN ræðir við segja vissara að sleppa svefnlyfjum í flugi og minna á að jafnvel þótt fólk verði ekki til vandræða geti lyfin haldið áfram að sljóvga eftir lendingu og orðið þess valdandi að ferðalangurinn t.d. týnir veski sínu eða gleymir að sækja farangurinn. Þá er ekki gott að blanda saman áfengi og svefnlyfjum, auk þess sem erfiðara er að sofa djúpsvefni með alkóhól í blóðinu.

Til að sofa betur má í staðinn íhuga að fjárfesta í góðri svefngrímu, hálspúða og eyrnatöppum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert