Má bjóða þér að gista í gítar?

Það dugar ekkert minna en gítar-turn sem er álíka hár …
Það dugar ekkert minna en gítar-turn sem er álíka hár og tvær Hallgrímskirkjur

Þó ólíkleg verði að teljast að það hreppi mörg verðlaun fyrir fallegan arkitektúr þá má segja það um nýtt Hard Rock hótel í Flórída að það sker sig úr fjöldanum.

Hótelbyggingin er nefnilega í laginu eins og gítar, sem að vantar að vísu hálsinn. Gítarinn teygir sig nærri 140 metra til himins, eða nærri tvöfalt hærra en turn Hallgrímskirkju og rúmar 638 herbergi fyrir hótelgesti.

Gítarhótelið markar hápunktinn á 1,5 milljarða dala framkvæmd og er útkoman ein allsherjar gleðibygging þar sem finna má risastórt spilavíti, þrjátíu veitingastaði og bari, heilsulind, 6.500 sæta tónleikasal, nærri 2.000 fermetra af verslunum, og um 11.000 fermetra funda- og ráðstefnumiðstöð. Eins og það sé ekki nóg þá skartar hótelið sundlaug, eða öllu heldur lóni, sem er um 10 ekrur eða 40.000 fermetrar að flatarmáli – jafngildi 32 Kópavogslauga.

Hótelið mun opna næsta haust og er norðarlega á stór-Miami svæðinu á suðurodda Flórída, um klukkustundar akstur frá Miami Beach og skammt suður af Fort Lauderdale.

Þeir sem eiga ekki leið suður til Flórída á næstu árum þurfa ekki að gefa drauminn um að gista í gítar upp á bátinn, því von er á að annað gítar-lagað Hard Rock hótel opni í Barselóna 2020. Tvö gítarhótel til viðbótar eru á teikniborðinu og útlit fyrir að annað þeirra rísi í Japan.

Sundlaugin breiðir úr sér um hótelsvæðið og er á við …
Sundlaugin breiðir úr sér um hótelsvæðið og er á við 32 Kópavogslaugar. Allt þarf jú að vera stórt í henni Ameríku.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert