Gjaldmiðlabúllur sem ætti að varast

Peningarnir klárast fljótt þegar verslað er við óprúttna gjalmiðlasala.
Peningarnir klárast fljótt þegar verslað er við óprúttna gjalmiðlasala. AFP

Ferðavefurinn fjallaði nýlega um hraðbanka sem reyna að blekkja ferðamenn til að taka út háar fjárhæðir á mjög óhagstæðu gengi. Kveikjan að greininni var fræðandi myndband tékknesku leiðsögumannanna Honza og Janek sem sviptir hulunni af vafasömum hraðbönkum í töfraborginni Prag.

En það er fleira sem heimshornaflakkarar þurfa að varast, og hafa félagarnir gert annað myndband um gjaldmiðlabúllurnar í Prag sem sumar beita alls kyns blekkingum til að hafa fé af grunlausum ferðalöngum.

Eins og sjá má í meðfylgjandi myndskeiði er það algeng brella að auglýsa sölugengið með stórum bókstöfum á meðan það er í raun kaupgengið sem að búllan borgar út þegar erlendum gjaldeyri er skipt. Aðrir ganga svo langt að birta gengi sem er ekki í neinu samræmi við það sem þeir borga, og réttlæta með agnarsmáu letri sem enginn tekur eftir. Þá getur gengið tekið miklum breytingum yfir daginn og t.d. verið mun óhagstæðara á kvöldin þegar viðskiptavinirnir eru margir búnir að fá sér einn eða tvo bjóra og hafa ekki rænu til að átta sig á að verið er að féfletta þá.

Blessunarlega má líka finna heiðarlega gjaldmiðlasala í Prag, eins og öllum öðrum borgum, en ferðalangar ættu að hafa gengið á hreinu og hafa varan á þegar seðlum er skipt. Einföld leið til að finna miðmarkaðsgengi gjaldmiðla í hvelli er að gera leit á Google, t.d. „ISK to CZK“ eða „EUR to CZK“ og sjá þannig í hvelli hve margar tékkneskar krónur má fá fyrir íslenskar krónur eða evru. Þetta gengi má svo bera saman við það sem gjaldmiðlabúðin býður, til að sjá hvort álagningin er ásættanleg.

Til hægðarauka fyrir þá sem eru á leið til Prag hafa leiðsögumennirnir geðþekku síðan útbúið handhægt kort sem sýnir staðsetningu heiðarlegu gjaldmiðlasalanna í miðborginni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert